Friday, 1 February 2013

Gómsæt gulrótarkaka Valdísar


Valdís dóttir mín hefur verið mér oft innan handar í eldhúsinu. Hún byrjaði að aðstoða mig í eldhúsinu um leið og hún hafði vit á því hvað fór fram þar. Strax fimm ára var hún farin að hræra í pottum og blanda í salöt. Núna á seinni árum hefur hún einna mest haft áhuga á því að baka kökur og svoleiðis. Ég var líka nokkuð flinkur að baka skúffuköku á hennar aldri. Valdís hefur þó haft mikið dálæti á gulrótarkökum - alveg síðan hún var barn. Og fyrir kannski tveimur árum síðan fór hún að gera sína eigin gulrótarköku eftir uppskrift sem hún fann á netinu. Hún hefur gert þessa uppskrift nokkrum sinnum og alltaf heppnast hún jafnvel.

Ég hef aldrei sjálfur prófað að baka eftir þessa uppskrift og það er ósennilegt að af því verði nokkurn tíma, alltént á meðan dóttir mín býr ennþá í foreldrahúsum. Hún er það viljug til bakstursins. 

Gómsæt gulrótarkaka Valdísar dóttur minnar


Hráefnalisti

2 dl hveiti
2 dl sykur
1-2 tsk kanill
1 tsk vanillusykur
1 tsk natron
1 tsk lyftiduft
3 dl gulrætur
1 dl matarolía
2 egg
200 gr hreinn rjómaostur
2 dl flórsykur
1 matskeið smjör
1 tsk vanillusykur


Auðvitað verður að fylgja mynd af bakaranum! Valdísi Eik! Jæja en þá að bakstrinum; 

Fyrst er auðvitað að gera botninn í kökuna. 


Þurrefnunum er fyrst blandað saman; 2 dl hveiti, 2 dl sykur, 1-2 tsk kanill, 1 tsk vanillusykur, 1 tsk natron og ein teskeið lyftiduft. 



Svo er að rífa niður 3 dl af gulrótum, sem maður blandar svo saman við þurrefnin ásamt 1 dl af matarolíu og 2 eggjum. 


Það er gaman að sjá hversu mikið af gulrótum fara í þessa köku og þannig fá mann til að halda að hún sem raunverulega holl!


Deigið er síðan sett í smurt eldfast mót og sett í 180 gráðu heitan forhituðam ofn og bakað í 40-50 mínútur.

Kakan er síðan tekin út og leyft að kólna um stund áður en kremið er smurt á.

Kremið er gert á þann hátt að Valdís blandar saman 200 gr af hreinum rjómaosti saman við 2 dl af flórsykri, 1 matskeið af smjöri og 1 tsk af vanillusykri. Hrært saman og smurt á kökuna.



Kakan er svo skreytt með tálgaðri gulrót. 

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment