Monday, 21 January 2013

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum


Það hefur verið heilmikið um að vera síðastliðna daga. Eins og lesendur sáu á síðustu bloggfærslu þá var ég að elda á marókósku veitingahúsi í Malmö nýverið. Að mínu mati heppnaðist kvöldið alveg ljómandi vel og var sérstaklega ánægjulegt fyrir mig. Það var vissulega skemmtilegt en jafnframt krefjandi að vinna í alvöru eldhúsi!

Nú á fimmtudaginn var lauk ég starfsnámi mínu í stjórnun með fyrirlestri um verkefni sem ég hef verið að vinna við síðastliðna fjóra mánuði. Það var ljúft að klára þennan áfanga og geta snúið sér aftur af klínískri vinnu á gigtardeildinni minni í Lundi.

Punkturinn yfir i-ið síðustu viku var þó doktorsvörn móður minnar, Lilja M. Jónsdóttur. Hún hefur unnið að doktorsverkefni sínu undanfarin sjö ár þar sem hún hefur skoðað hvernig kennarar takast á við kennarastarfið fyrstu starfsár sín. Hún fylgdist með fimm ungum kennurum í fimm ár og ræddi við þá reglulega. Fjölmennt var á útskriftinni og móðir mín stóð sig eins og hetja. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn stoltur af elsku mömmu en einmitt síðastliðin föstudag. Til hamingju mamma!

Eftir doktorsvörnina var auðvitað haldin veisla sem faðir minn sá að mestu um að skipuleggja og undirbúa. Lítið var keypt af tilbúnum mat annað en kjúklinga- og nautaspjót sem voru ágæt. Restina gerði hann sjálfur eða fékk okkur til að hjálpa til. Föstudagsmorguninn síðastliðinn var færibandavinna í eldhúsi foreldra minna í Lönguhlíðinni. Hann gerði kjötbollur og kraftmikla tómatsósu, beikonvafðar kokteilpylsur og þrenns konar ljómandi góðar snittur. Svo gerði Marta frænka ljúffeng skinkuhorn og Guðbjörg, samstarfskona mömmu og pabba, litlar kransakökur. Það var nóg af veigum og kaffi og súkkulaði í desert. Ég gat ekki betur séð en að gestir væru sáttir!

Á laugardaginn skunduðum við upp í sumarbústað í Kjósinni og elduðum lambakjöt með bökuðum kartöflum. Daginn eftir vaknaði ég heldur seint, en gerði ég síðan þessar einföldu - en jafnframt gómsætu pönnukökur fyrir sjálfan mig og nokkra aðra (flestir höfðu vaknað fyrr og voru búnir að borða).

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum



Fékk nýtt leikfang í eldhúsið. Að þessu sinni áskotnaðist mér ný Le Creuset crepe (pönnuköku) panna. Eins og allir sem lesa bloggið mitt vita þá er ég forfallinn Le Creuset aðdáandi og safna pottum og leirvörum frá þessu vörumerki. Vörumerkið er franskt og hefur starfað í Fresnoy-le-Grand síðan 1925. Þetta er gæðavara og endist að eilífu. Ég er nokkuð sannfærður af barnabörnin mín eiga eftir að erfa þessa potta eftir mig - alltént vona ég það!


Setti bolla af hveiti í skál, 1/4 tsk af salti, 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af sykri í skál og hrærði saman. Setti síðan eggjaguluna saman við en hafði hvítuna sér. Blandaði síðan saman sirka 100 ml af mjólk - þannig að úr varð þykkt deig sem hjúpaði bakhlið á skeið án þess að renna af.



Þeytti síðan upp hvítuna þannig að hún þrefaldaðist í rúmmáli en var þó ekki stífþeytt. Hvítunni blandaði ég síðan varlega saman við með sleikju. Ekki má hræra saman með miklu afli því þá lemur maður loftið úr hvítunni, en hana vill maður varðveita til að pönnukökurnar verði loftkenndar og "fluffy".


Pannan hituð varlega á eldinu. Smjörið brætt og svo er bara að byrja að baka. Það er oft svo að fyrstu pönnsurnar verði hálf klaufalegar en það er engin ástæða til þess að henda þeim.


Ég skolaði af bláberjunum og skar síðan einn banana niður í þunnar sneiðar.


Ég setti 1-2 matskeiðar fyrir hverja pönnuköku og síðan raðaði ég berjum/bönunum á deigið. Þegar loftbólurnar fara að komast í gegnum deigið er kominn tími til að snúa þeim. Það þarf ekki að steikja þær nema 1-2 mínútur á hvorri hlið!


 Raðaði síðan þremur pönnukökum upp á disk. Nokkur fersk ber ofan á ásamt ferskum banana sneiðum. Svo er bara að hella smáræði af hlynsírópi ofan á og síðan gæða sér á dásamlega ferskum morgunverði!

Bon appetit!

 P.s.


Svo má líka gera "savory" útgáfu með sveitaskinku, briesneiðum og hvítlauksolíu. Namminamm! 

Bon appetit - aftur! 


No comments:

Post a Comment