Þetta er fullkominn morgunverður á sunnudagsmorgni - steikarsamloka. Þarna er hægt að nýta afganga helgarinnar á ljúffengan hátt. Svo hressir þetta líka við sálartetrið í þeim svo vöktu lengst fram eftir nóttina áður. Ég hef alla tíð verið mikill unnandi þess að fá mér góðan morgunverð um helgar; egg og beikon, ommilettu, steikta sveppi, ekta ensku fry-up, ostabrauð eða brauð með hrærðum eggjum! Endilega smellið á lagið sem fylgir færslunni til að koma ykkur í rétta stemmingu!
Ætli þessi helgarmorgunverðarhefð hafi ekki byrjað hjá föður mínum, sem á laugardagsmorgnum bauð okkur bræðrunum upp á "brauð ríka mannsins". Og það var ekki lítið sem okkur fannst þetta merkileg máltið. Þetta var samt bara brauðsneið smurt með mayonesi eða tómatsósu, næst niðurskorin pylsa (oft afgangur frá kvöldinu áður) - skorin stundum á breiddina - stundum á lengdina - stundum steikt - stundum soðin, næst steiktur laukur og svo remúlaði eða sinnep. Þetta er auðvitað bara pylsa með öllu - en þegar pabbi bjó þetta til á laugardagsmorgnum - var þetta brauð ríka mannsins!
Af og til endurtek ég leikinn en verð þó að játa að það er langt síðan síðast - ætli ég sé ekki farinn að gera mínar eigin útgáfur eins og þessar tvær;
Opnar samlokur par exellans; steikarsamloka og kjúklingaloka
Hráefnalisti:
Gott hvítt brauð
1-2 msk hvítlauksolía
1 msk dijon sinnep
Handfylli af sveppum og lauk
200 gr nautakjöt
Ostur
Jómfrúarolía
Klettasalat
2 msk mayonnaise
Afgangur af kjúkling
Byrjum á steikarsamlokunni sem var á boðstólum fyrir viku.
Ég hafði keypt þetta fyrirtaks franskbrauð útí búð sem ég skar í tvær þykkar sneiðar, penslaði með hvítlauksolíu og grillaði á pönnu. Smurði síðan brauðsneiðina með djionsinnepi.
Steikti sveppi og lauk í smáræði af smjöri - saltaði og pipraði. Notaði þessa nýju fyrirtaks pönnu sem ég er ákaflega hrifinn af; Zwilling Spirit, sem er með keramíkhúð í stað teflon.
Svo steikti ég um 200 gr af nautakjöti í 2 msk af olíu, saltaði og pipraði. Blandaði síðan sveppunum og lauknum saman við.
Lagði kjötið ofan á brauðið og lagði síðan tvær ostsneiðar yfir það. Sett undir grillið í 3-4 mínútur - rétt til að brúna ostinn!
Girnilegt ekki satt?
Þá er bara að vinda sér yfir í næstu samloku. Ég hafði eldað kjúklinginn hennar mömmu - sjá hérna, og auðvitað var smá afgangur - og hann verður að nýta!
Fyrst ristaði ég brauðsneiðar. Smurði með mayonesi. Þá var sett klettasalat og svo kjúklingurinn sem ég hafði skorið niður - 150 gr sirka. Ég hrærði síðan 2 msk af djionsinnepi og mayonaise (50-50) saman við kjúklinginn. Skipt niður á milli tveggja brauðsneiða. Því næst setti ég tvær þykkar ostsneiðar yfir og undir grillið.
Alger success!
Sæll, ég sé að þú átt eins pönnu og ég nema aðra tegund.
ReplyDeleteMér finnst mín svo lengi að hitna (er með keramik helluborð) en síðan heldur hún hitanum ágætlega. Hvernig finnst þér þín?
Kveðja, Harpa (ókunnug).