Þetta er búið að vera einstaklega ljúfur septembermánuður. Við höfum haft það einkar notalegt fjölskyldan hérna í Púkagranda eitt. Snædís er eins og gefur að skilja í fæðingarorlofi og ég er að vinna hálft starf við verkefni í tengslum við stjórnunarnámið sem ég er í. Þess fyrir utan er ég í sumarleyfi, þannig að ég get verið mikið heima með nýju dótturinni minni, henni Ragnhildi Láru, sem varð sex vikna á föstudaginn.
Tengdamamma kom í snögga heimsókn skömmu eftir að litlan fæddist og svo komu foreldrar mínir stuttu síðar og voru hjá okkur yfir eina langa helgi. Þau komu færandi hendi með einn alíslenskan lambahrygg og úr varð þessi réttur. Þetta er í þriðja sinn sem ég er að elda eftir þessari aðferð. Ég eldaði heilt lambalæri í byrjun ágúst, sjá hér. Svo eldaði ég andabringur handa ástinni minni rétt eftir að dóttir mín kom í heiminn, sjá hérna. Þetta er ótrúlega góð aðferð til að elda kjöt. Tímafrek auðvitað, en vel þess virði. Þetta er gott verkefni fyrir langan laugardag í eldhúsinu.
Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að kannast við "sous-vide" aðferðina en fyrir þá sem eru í heimsókn í fyrsta sinn þá byggir þessi aðferð á því að innsigla kjötbita í vakúmpakka og sjóða við lágan hita (æskilegan kjarnhita kjötsins) í nokkrar klukkustundir. Með þessari aðferð verður bitinn ekki bara góður í miðjunni heldur verður allt kjötið "perfect". Hvet ykkur til að prófa!
Ljúffengar lambarifjur "sous-vide" með katalónskum kartöflum, brúnni sósu og auðvitað góðu rauðvíni
Mamma kom með heilan hrygg sem ég úrbeinaði. Ég sleppti því að salta kjötið þar sem ég vildi ekki draga vökva út úr bitanum. Þó pipraði ég rækilega og kryddaði með rósmaríni, timiani og blóðbergi.
Því næst voru bitarnir settir í poka og innsiglaðir í vakúmpökkunarvél sem ég keypti einhvern tíma!
Ég hitaði vatnið upp að 57 gráðum sem ég hafði ákveðið að yrði ljómandi góður hiti fyrir lambið - þá verður það fallega bleikt í gegn!
Hérna er svo kjötið eftir tveggja og hálfs tíma "suðu" við 57 gráður. Vökvann sem varð eftir í pokunum notaði ég svo í sósuna. Soðið bjó ég bara til með lambakraftsteningi, alls hálfan lítra og bætti svo vökvanum af kjötinu samanvið. Þykkti það svo með smjörbollu (30 gr smjör - 30 gr hveiti). Bragðbætti síðan sósuna með salti, pipar, smá rifsberjasultu og skvettu af soyasósu.
Eins og sjá má á myndinni þá er kjötið fallega bleikt - og það sem betra er - allur bitinn hefur þennan fallega lit!
Bitana brúnaði ég að utan upp úr smá smjöri á pönnu. Steikti þá bara örstutt á báðum hliðum þar sem ég vildi ekki að kjötið eldaðist mikið meir en það hafði þegar gert.
Síðan skar ég rifjurnar niður í fallegar sneiðar og raðaði á disk.
Við gerðum kartöflurétt sem við gjarnan köllum katalónskar kartöflur. Kartöflurnar eru skornar niður í báta og steiktir fyrst upp úr blöndu af smjöri og olíu, bragðbættu með fersku rósmaríni og timian. Síðan er hitinn lækkaður og smá hvítvíni hellt á pönnuna og lokið sett á og vínið soðið í því. Síðan fá kartöflurnar að steikjast í 20 mínútur þangað til þær eru tilbúnar - hrært í þeim af og til. Að þessu sinni röspuðum við parmiggiano osti yfir og kláruðum undir grillinu.
Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín frá Toskana á Ítalíu. Piccini Memoro er blanda af 40% Primotivo þrúgum, 30% Montepulciano, 20% nero d'avola og svo 10% Merlot. Þetta vín er dökkt í glasi, ilmar af kirsuberjum. Góður ávöxtur á tungu, rúsínur og smá kryddað og reykt eftirbragð. Gott vín!
Bon appetit!
Endilega kíkið við á Facebook: The Doctor in the Kitchen! Ef ykkur líkar lesturinn endilega deilið víðar!
Piccini Memoro |
Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín frá Toskana á Ítalíu. Piccini Memoro er blanda af 40% Primotivo þrúgum, 30% Montepulciano, 20% nero d'avola og svo 10% Merlot. Þetta vín er dökkt í glasi, ilmar af kirsuberjum. Góður ávöxtur á tungu, rúsínur og smá kryddað og reykt eftirbragð. Gott vín!
Endilega kíkið við á Facebook: The Doctor in the Kitchen! Ef ykkur líkar lesturinn endilega deilið víðar!
No comments:
Post a Comment