Pylsur hafa lengi verið mikil uppáhaldsfæða í minni fjölskyldu. Faðir minn, Ingvar Sigurgeirsson, er einn helsti pylsufíkill Íslands - hann gæti lifað á Bæjarins bestu pylsum ef það samræmdist markmiðum lýðheilsustofnunar um fæðuinntöku. Þessi áhugi hans er þó ekki bara á SS pylsum heldur einnig pylsum í öllum stærðum og gerðum. Og þessi áhugi hans hefur sannarlega smitað okkur bræðurna sem gera hvað þeir geta til að feta í fótspor föðursins. Sjaldan fellur... langt frá eikinni og allt það!
Í næstum hverri einustu ferð okkar til Danmerkur förum við á einhvern pylsubarinn og verslum eina með öllu og Cocio súkkulaðimjólk! Í Svíþjóð er líka hin ágætasti pylsukúltur þó að meðlætið sé aðeins fátæklegra en við Íslendingar eigum að venjast. En margar eru þó alveg ljúffengar, t.d. feit smálenskt Isterband pylsa með kartöflumús og títuberjasultu, Lunna melle með vænni sinnepsklessu og skánsk laukpylsa skorin köld á brauð - allt er þetta að mínu mati herramannsmatur.
Vinur minn, Hans í Holmgrens, gerir líka ljúffengar ferskar og reyktar pylsur, og eftir að hafa spjallað við hann þá þótti mér ekki annað hægt en að gera aðra atrennu að pylsygerð. Ég gerði tilraun til pylsugerðar fyrir nokkrum árum eftir samtal við kollega minn, Hjördísi Smith, sem er mikill matgæðingur og ástríðukokkur. Sú tilraun heppnaðist ágætlega en ekki þó betur en svo að ég lagði pylsugerð á hilluna þangað til núna í ár!
Gómsæt heimagerð Bratwurst pylsa með ekta súrkáli og skánsku sinnepi
Hvernig svona pylsur eru gerðar má sjá á þessari færslu frá því snemma í ár en þá prófuðum við að gera enskar Cumberland pylsur með kartöflumús og lauksósu.
Hérna að ofan er smá myndsería úr þeirri færslu! Bratwurst pylsur er frábrugðnar Cumberland pylsum að því leyti að annað krydd er notað til að gefa pylsunni sitt dásemdar bragð! Ég studdist við nokkrar uppskriftir og endaði með þessa; Fyrir hvert kíló af kjöti þá setti ég 150 gr af köldu vatni, 15 gr af salti, 10 gr af sykri, 3 gr af svörtum pipar (átti ekki til hvítan), 1/2 tsk af engiferdufti, 1/2 af múskati og hálfa teskeið af negul. Hrært vel saman. Smá biti er steiktur á pönnu til að kanna bragðið.
Svo er fyllingunni troðið í ekta garnir sem hafa verið þrifnar, bleyttar og þræddar upp á þar til gerðan pylsustút sem hægt er að kaupa sem aukahlut við flestar matvinnsluvélar.
Súrkál, eða sauerkraut, er það sem myndi kallast á ensku "an aquired taste" - mér fannst þetta ekkert sérstaklega gott þegar ég smakkaði þetta í fyrsta sinn en eftir nokkrar ferðir til Austurríkis þá hef ég lært að elska þetta ljúffenga meðlæti. Það er auðvitað hægt að gera sitt eigið sauerkraut úr hvítkáli en slíkt krefst þess að kálið er látið gerjast í krukku allt upp í þrjár vikur - kannski að ég leggi í það einhvern tíma, en læt mér nægja að kaupa þýskt súrkál útí í búð, niðursoðið í dós.
Fyrst steikir maður 150-200 gr af beikoni á pönnu, setur síðan kálið út á og hitar í gegn, saltar og piprar. Svo þykir góð hefð að setja eina teskeið af venjulegum kúmenfræjum saman við - sem við slepptum að gera þar sem bróðir minn leggur algera fæð á þetta krydd. Stundum verða hefðir að víkja fyrir tillitsemi!
Ég stakk gat á pylsurnar með oddhvössum hníf til þess að hindra að þær myndu springa við eldunina. Pylsurnar voru bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30-40 mínútur.
Með matnum fékk ég mér auðvitað bjórglas. Ég hafði í sumar sótt mér nokkra kassa af Carlsberg svörtu Gulli þegar við vorum á leið til Þýskalands. Þar er hægt að kaupa bjór í bát við höfnina á góðu verði og það telst stór synd að taka ekki eins og bíllinn leyfir þegar maður er hvort eð er á leiðinni framhjá. Þetta er einn af mínum uppáhalds bjórum. Fallega gullinn í glasi, klassískur lagerilmur - ljúfur á bragðið. Vinur minn, Ragnar Freyr Rúnarsson - sem heldur úti bjórbókinni - gefur honum fjórar krúsir af fimm mögulegum!
Þetta reyndist algerlega frábær máltíð! Lífsins lystisemdir þurfa ekki að vera flóknar!
Bon appetit!