Friday, 31 August 2012
Safaríkur grillaður kalkúnn með bestu ofnkartöflunum, baunum og ljúffengri sósu
Það er kannski síðasti sjéns að koma með grilluppskriftir. Núna þegar fer að hausta fara margir grillmeistarar að draga tjöld yfir grillin sín og hengja upp grilltangirnar sínar yfir vetrarmánuðina. Þetta verður kannski til þess að menn haldi ótrauðir áfram. Ætli ég verði ekki að sýna lit og grilla eitthvað um helgina þrátt fyrir að það spáin sé ekki grillvæn. Annars gerði ég þessa uppskrift síðla sumars þegar mágkona mín og fjölskylda hennar voru í heimsókn.
Ég hef aldrei grillað kalkúnn áður. Kalkún tengi ég sjálfkrafa við jólin og hef ég bloggað um þau ævintýri við hver jól núna síðastliðin ár. Ég hef þó einstaka sinnum eldað kalkúnabrjóst, seinast fyrir rúmum tveimur árum og það var alveg ljúffengur réttur - sjá hér. Ég rakst á þennan kalkún þegar ég var að versla í sumar í ICA búðinni sem er hérna í grenndinni. Þá voru sænskir kalkúnar á tilboði frá fyrirtækinu Ingelstad sem er hérna á Skáni og ég skellti mér á einn slíkan - þá nokkuð óviss um hvað ég ætlaði síðan að gera við hann.
Ég kíkti í matreiðslubækurnar mínar - Mastering the Grill, Stéphane Reynaud's Barbecue, Barbecue Secrets: Unbeatable Recipes, Tips and Tricks from a Barbecue Champion, How to Grill, The Barbecue! Bible: Over 500 Recipes og googlaði aðeins á netinu og komst að þeirri niðurstöðu að þessi aðferð yrði besta lausnin - alltént voru margir grillmeistarar á umræðuvefjum sammála - og því til lítils annars en að láta slag standa. Og við urðum ekki svikin!
Safaríkur grillaður kalkúnn með bestu ofnkartöflunum, baunum og ljúffengri sósu
Ég sótti ferskar kryddjurtir útí garð; salvíu, timian og svo rósmarín.
Ég hakkaði niður allar kryddjurtirnar. Ilmurinn sem stígur upp af trébrettinu er auðvitað alveg dásamlegur - barrilmurinn af rósmarínu og sætan sem kemur af saxaðri salvíu er auðvitað stórkostleg.
Bræddi 100 gr af íslensku smjöri (mamma kemur reglulega með sendingu handa mér) í potti og þegar það var bráðið bætti ég kryddjurtunum saman við (glöggir munu sjá að kryddjurtirnar eru í heilu lagi - aðeins of bráður á mér og þeim var snarlega lyft upp aftur og saxaðar :-).
Hitaði kryddjurtirnar líttillega í smjörinu til að ná enn meira bragði.
Kryddsmjörinu var síðan hellt yfir kalkúninn og hann penslaður bak og fyrir.
Grillið var blússhitað á 2/3 brennurum - sem ég síðan lækkaði þegar fuglinn var settur á grillið í ca. 200 gráður. Ég hafði sett 2 álskúffur undir svæðið þar sem kalkúnninn myndi liggja til að grípa allan vökvann og fituna sem rennur af fuglinum. Það á auðvitað að nota í sósuna. Fuglinn er því settur á kalda hluta grillsins og eldaður við óbeinan hita í 2-3 klukkustundir. Það er um að gera að nota hitamæli og svo auðvitað fylgjast vel með útliti kalkúnsins.
Það er um að gera að nota hitamæli og svo auðvitað fylgjast vel með útliti kalkúnsins - það gæti þurft að snúa honum til að húðin brúnist jafnt.
Við gerðum síðan bestu ofnkartöflur/gulrætur sem völ er á. Við fórum eftir því sem kemur fram í þessari færslu - Hin fullkomna ofnsteikta kartafla!
Við erum þó farin að bæta við einu skrefi á milli skrefs tvö og þrjú; að velta kartöflunum upp úr hveiti til að grípa upp meira af fitunni. Í stuttu máli er uppskriftin svona;
1. Flysja kartöflur og gulrætur.
2. Forsjóða í söltuðu vatni í 6 mínútur.
3. Hella kartöflum í sigti og hrista til að ýfa upp yfirborðið. Bæta við einni msk af hveiti og hrista saman.
4. Steikja upp úr fitu af eigin vali.
5. Ofnsteikja við 180-200 gráður þangað til gullinbrúnar og fallegar.
6. Njóta hinnar fullkomnu ofnsteiktu kartöflu.
Ef þetta er ekki girnilegt þá veit ég ekki hvað! Enda hef ég gert þessar kartöflur endurtekið - hvet ykkur eindregið til með að prófa.
Kalkúnninn er settur á disk og fær að hvíla um stund þangað til að allt meðlæti er tilbúið. Það er hægt að láta fuglinn bíða vandræðalaust í 30 mínútur og hann mun bara batna fyrir vikið.
Ég var það heppinn að eiga sósu í frystinum frá því um jólin - og hún var góð get ég sagt ykkur! Ég hafði hitað hana varlega í potti með smávegis af kjúklingasoði. Síðan bætti ég við vökvanum sem hafði runnið af fuglinum. Ég hafði þó tekið mest af fitunni frá.
Sauð petis pois (grænar baunir) í söltuðu vatni. Auðvelt!
Með matnum drukkum við Wolf Blass Silver Label Shiraz Cabernet 2010. Þetta er vín frá Suður Ástralíu og er blanda af tveimur þrúgum eins og nafnið gefur til kynna; 70% Shiraz og svo 30% Cabernet Sauvignion. Þetta vín er dumbrautt í glas, kröftugur ávöxtur á tungu, ögn kryddað með mildum eikartónum. Virkilega gott vín sem við nutum vel með matnum.
Já - og grillmeistarar á netinu fóru ekki með fleipur - það að grilla kalkún á óbeinum hita er frábær aðferð. Bringurnar voru safaríkar og mjúkar og lærin vel elduð og gómsæt!
Bon appetit!
Location:
Sweden
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Svona myndi comment líta út!
ReplyDelete