Okei! Það eiga sennilega ekki margir eftir að lesa þessa færslu. Ég hef lært það á því að hafa bloggað í núna rúmlega fimm ár að "fisk"færslur fá alltaf færri heimsóknir en kjötfærslur. Bökunar- og jólafærslur fara hinsvegar í gegnum þakið! Svo hafa ansjósur ótrúlega slæma ímynd - og algerlega að ósekju. Ansjósur sem eru marineraðar í jómfrúarolíu eru ótrúlega ljúffengar! Þær hafa líka þann kostinn að hafa bragðaukandi áhrif, svipað og þriðja kryddið (mónósódíum glútamat) nema það er fullkomlega náttúrulegt. Og þegar fiskurinn hefur steikst í smjörinu gefur það sérlega gott bragð - ekki fiskibragð eins og margir ímynda sér. Það er mjög gott að lauma ansjósum í ýmsa pastarétti og kássur - sjáiði til!
En fisk og ansjósur (sem er líka fiskur) í sömu færslunni. Ég er heppinn ef fleiri en 10 lesa alla færsluna!
En fyrir ykkur sem lesið alla færsluna og við þann sem síðan eldar réttinn vil ég segja: "You are in for a treat" - þar sem niðurstaðan var algerlega stórkostlega. Þorskurinn er góður einn og sér - en með ansjósu- og kaperssmjöri, það voru einfaldlega allir í skýjunum! Bókstaflega í skýjunum. Meira að segja börnin voru ánægð!
Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu- og kaperssmjöri & gómsætu kartöflusalati
Fyrst var að sjóða kartöflur - ég hafði fengið nýjar kartöflur útí búð - sem ég sauð í ríkulega söltuðu vatni í u.þ.b 15 mínútur. Síðan var vatninu hellt af og þær fengu að kólna. Þá hrærði ég saman 3 msk af sýrðum rjóma, 1 msk af dijon, 1 msk af hlynsírópi, 1 smátt saxaðan, lítinn rauðlauk, handfylli af hakkaðri ferskri steinselju - salt og pipar saman við. Sett inn í kæli.
Þá skolaði ég þorskhnakkastykki sem ég hafði keypt frosin hjá Gallerí fiski og þurrkaði. Penslaði með bræddu smjöri og saltaði og pipraði.
Þá bræddi ég 100 gr af smjör í potti og þegar smjörið var farið að hitna setti ég 5 flök af söxuðum ansjósum saman við og bræddi í smjörinu, þá 2 msk af kapers, svo 2 msk af saxaðri steinselju, salt og pipar og safa úr 1/4 sítrónu.
Hitaði grillið á fullt - 275 gráður og grillaði fiskinn í 8-10 mínútur þangað til að hann var eldaður í gegn.
Two Oceans |
Með matnum drukkum við smá hvítvínsdreitil. Hafði keypt hvítvínsbúkollu eftir ráðleggingum vínkonsultants Sydsvenskan (mest lesna dagblað á Skáni) Andrési Fagerström. Að þessu sinni hafði ég keypt vín frá Suður Afríku, Two Oceans Sauvignion Blanc frá 2010. Þetta er heldur þurrt vín, með talsverðum ávaxtakeim, eplum og létt á bragðið. Ljómandi sopi. Það er svo gott að geta seilst inn í kæli á heitum kvöldum eftir smá hvítvínstári
Svo var bara að raða á disk. Fiskbiti - matskeið af smjöri á hvern bita. Væn skeið af kartöflusalati. Smáræði af fersku salati.
Bon appetit!
Takk fyrir þorskfærsluna, mjög girnilegt! Er einmitt nýbúin að uppgötva þorskinn - vá hvað hann er ofsalega góður - og ekki spurning að ég prófa þessa uppskrift við tækifæri, jafnvel með ansjósum (spurning um að yfirvinna ansjósufóbíuna).
ReplyDeleteOg takk fyrir frábært matarblogg!
Kveðja,
Soffía (ókunnug en dyggur lesandi)
Sæll,
ReplyDeleteelska að hafa þig á facebook, fylgdist oft með þér á blogginu en finnst æði að fá færslurnar beint í æð þegar þær birtast.
Ég er ekki með ansjósufóbíu heldur þvert á móti, fæ vatn í munninn þegar ég sé uppskrift með þeim og er líka tiltölulgea nýbúin að kynnast þorskinum, alveg hætt að kaupa ýsu.
Við hittumst í London þegar við sáum Hamskiptin með Bjóssa Thors,
þvílíkt óveður á leiðinni út á völl, hef blessunarlega ekki lent í öðru eins síðan :)
Góð uppskrift.
ReplyDeleteSæl Steinunn
ReplyDeleteGaman að sjá að þú ert að fylgjast með blogginu mínu. Ég mun aldrei gleyma ferðinni á flugvöllinn þegar við fórum að sjá Hamskiptin í London - Ísland engu líkt. Skora á þig að prófa þessa uppskrift - þú verður ekki svikin!
mbk, Ragnar
Sæll Þorsteinn.
ReplyDeleteÉg er alveg sammála þér!
mbk, Ragnar
Sæl Soffía
ReplyDeleteJá - ansjósur, þær hafa átt bágt - en það er bara að prófa með smáræði í byrjun og svo trappa sig upp. Þetta gefur ótrúlega mikið í bragðinu á flestum réttum sem þær eru notaðir í!
Bestu kveðjur, Ragnar
Sæll Ragnar -
ReplyDeleteég var gestakokkur hjá foreldrum mínum í gær og prófaði þessa uppskrift.
Allir hæstánægðir og ég held því áfram að leita í smiðju til þín.
Kærar þakkir,
Helga