Monday, 23 July 2012

Grillaðar rauðar pylsur með pækluðum rauðlauk, dijonmayo, kotasælu og salati

Við komum úr sumarbústaðnum seinni partinn í gær. Við höfðum byrjað daginn með látum með því að þrífa allt húsið hátt og lágt! Síðan ókum við sem leið lá til Kaupinhafnar og gengum smá hring frá Kongens Nytorv út á Nørregade í verslunina Notre Dame þar sem við keyptum smá nauðsynjar fyrir barnaherbergin. Síðan mjökuðum við okkur heim á leið til Lundar þar sem við vorum komin heim á réttum tíma til að skella í mat. Það er, að mínu mati, ekki hægt að stoppa í Kaupinhöfn án þess að fá sér Hot Dog med de hele! Og svo eina Cocio með! Það er bara eitthvað dásamleg pervertískt gott við þessa kombination sem gleður mitt heimska hjarta.

Í morgun vaknaði ég svo með pylsur á heilanum. Ég fór eins og oft áður í sunnudagsfótboltann með Íslendingum úr nágrenninu um morguninn og þegar heim var komið, um hádeigisbil, gauluðu garnirnar. Ég átti nokkrar rauðar pylsur sem orðið höfðu afgangs frá því úr sumarbústaðarferðinni og því var í lófa lagið að skella þeim á grillið og gæða sér á þeim í hádegisverð. En samviskan leyfði ekki alveg að ganga alla leið - þannig að mér datt í hug þessi "hollari" aðferð. Og svei mér þá ef þetta verður ekki endurtekið - Púkapylsur, a new dish is born!

Grillaðar rauðar pylsur með pækluðum rauðlauk, dijonmayo, kotasælu og salati

hollar pylsur 2





























Og meðlætið er nú einfalt. Ég sótti ferskt salat út í garðinn minn, hrærði aðeins í kotasælunni. Blandaði saman matskeið af mayonaise við eina matskeið af djion sinnepi.

Síðan saxaði ég niður hálfan rauðan lauk, heilan, rauðan tómat. Teskeið eða svo af balsamik ediki, síðan 1 msk af hvítlauksolíu, salt og pipar. Hrærði og lét standa í nokkrar mínútur.

pylsur 1

Svo er eiginlega ekkert annað að gera en að kynda undir grillinu. Grilla pylsurnar þangað til að þær eru á mörkunum á því að springa. Hita brauðin.

Síðan er bara að raða. Fyrst að smyrja brauðin að innan með dijon-mayonaisinu, svo niðurskorið salat úr garðinum, svo kotasæla, þá pylsan og svo rauðlauks/tómatsalsa.

pylsur 2

Bon appetit!

1 comment:

  1. Hvernig er mögulegt að gera meira að segja pulsur svona girnilegar??? Þú ert snilli...

    ReplyDelete