Okei! Það eiga sennilega ekki margir eftir að lesa þessa færslu. Ég hef lært það á því að hafa bloggað í núna rúmlega fimm ár að "fisk"færslur fá alltaf færri heimsóknir en kjötfærslur. Bökunar- og jólafærslur fara hinsvegar í gegnum þakið! Svo hafa ansjósur ótrúlega slæma ímynd - og algerlega að ósekju. Ansjósur sem eru marineraðar í jómfrúarolíu eru ótrúlega ljúffengar! Þær hafa líka þann kostinn að hafa bragðaukandi áhrif, svipað og þriðja kryddið (mónósódíum glútamat) nema það er fullkomlega náttúrulegt. Og þegar fiskurinn hefur steikst í smjörinu gefur það sérlega gott bragð - ekki fiskibragð eins og margir ímynda sér. Það er mjög gott að lauma ansjósum í ýmsa pastarétti og kássur - sjáiði til!
En fisk og ansjósur (sem er líka fiskur) í sömu færslunni. Ég er heppinn ef fleiri en 10 lesa alla færsluna!
En fyrir ykkur sem lesið alla færsluna og við þann sem síðan eldar réttinn vil ég segja: "You are in for a treat" - þar sem niðurstaðan var algerlega stórkostlega. Þorskurinn er góður einn og sér - en með ansjósu- og kaperssmjöri, það voru einfaldlega allir í skýjunum! Bókstaflega í skýjunum. Meira að segja börnin voru ánægð!
Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu- og kaperssmjöri & gómsætu kartöflusalati
Fyrst var að sjóða kartöflur - ég hafði fengið nýjar kartöflur útí búð - sem ég sauð í ríkulega söltuðu vatni í u.þ.b 15 mínútur. Síðan var vatninu hellt af og þær fengu að kólna. Þá hrærði ég saman 3 msk af sýrðum rjóma, 1 msk af dijon, 1 msk af hlynsírópi, 1 smátt saxaðan, lítinn rauðlauk, handfylli af hakkaðri ferskri steinselju - salt og pipar saman við. Sett inn í kæli.
Þá skolaði ég þorskhnakkastykki sem ég hafði keypt frosin hjá Gallerí fiski og þurrkaði. Penslaði með bræddu smjöri og saltaði og pipraði.
Þá bræddi ég 100 gr af smjör í potti og þegar smjörið var farið að hitna setti ég 5 flök af söxuðum ansjósum saman við og bræddi í smjörinu, þá 2 msk af kapers, svo 2 msk af saxaðri steinselju, salt og pipar og safa úr 1/4 sítrónu.
Hitaði grillið á fullt - 275 gráður og grillaði fiskinn í 8-10 mínútur þangað til að hann var eldaður í gegn.
Two Oceans |
Með matnum drukkum við smá hvítvínsdreitil. Hafði keypt hvítvínsbúkollu eftir ráðleggingum vínkonsultants Sydsvenskan (mest lesna dagblað á Skáni) Andrési Fagerström. Að þessu sinni hafði ég keypt vín frá Suður Afríku, Two Oceans Sauvignion Blanc frá 2010. Þetta er heldur þurrt vín, með talsverðum ávaxtakeim, eplum og létt á bragðið. Ljómandi sopi. Það er svo gott að geta seilst inn í kæli á heitum kvöldum eftir smá hvítvínstári
Svo var bara að raða á disk. Fiskbiti - matskeið af smjöri á hvern bita. Væn skeið af kartöflusalati. Smáræði af fersku salati.
Bon appetit!