Sunday, 3 June 2012

Einn besti saltfiskréttur allra tíma með ólívum, kapers, sólþurrkuðumtómötum og skorðalía kartöflumús





Þennan rétt, sem á rætur að rekja til Miðjarðarhafsins, fékk ég í fyrsta sinn hjá nágrönnum mínum - Jóni Þorkeli og Álfhildi. Þau báru fram þennan dýrindisrétt gerðan úr íslenskum saltfiski og hann varð hreinasta lostæti! Kartöflumúsina fengum við þó ekki hjá nágrönnum okkar heldur bættum við því þegar við reyndum að líkja eftir réttinum þeirra.

Kartöflumúsin, skorðalía, er þó engan veginn mín hugmynd - því fer fjarri. Þetta er þekkt grísk uppskrift sem byggir á því að stappa heilmikið af hvítlauk saman við t.d. kartöflur, hnetur eða bleytt brauð. Það eru til margar uppskriftir af þessari "sósu" en rauði þráðurinn er auðvitað hvítlaukurinn og svo góð jómfrúarolía (sem er nánast kenniteikn grískrar matargerðar) og einhverslags sýra eins og edik eða sítrónusafi. Eins og gefur að skilja þá býður þetta upp á talsverða fjölbreyttni.

Ég smakkaði skorðalía fyrst þegar ég var strákur og þá vorum við í matarboði hjá vinafólki foreldra minna. Einn af gestunum hafði búið í Grikklandi og tekið með sér þessa uppskrift heim á Frónið. Öllum þótti mjög áhugavert að nota svona mikið af hvítlauk í kartöflumús! Hún var megn - en megn af hvítlauk - og mér fannst hún ótrúlega bragðgóð. En ég held að ást mín á hvítlauk hafi hafist þarna fyrir alvöru. Svo jókst hún bara við að alast upp á heimili mínu - móðir mín er forfallinn hvítlauksfíkill og svo virðist sem þessi fíkn erfist sem ríkjandi gen!



Einn besti saltfiskréttur allra tíma með ólívum, kapers sólþurrkuðum tómötum og skorðalía kartöflumús
Fiskurinn var fenginn frá Íslandi. Við vorum svo heppin að Álfhildur kom færandi hendi og gaf okkur rúmlega kíló af saltfiski. Svona nágranna þyrftu allir að eiga!

Ég byrjaði á því að skola fiskinn upp úr köldu vatni. Þurrkaði síðan. Þá var hann skorinn í bita, pipraður og velt upp úr hveiti.



Ég setti hvítlaukinn í matvinnsluvél og hakkaði fínt og blandaði saman við nokkrum matskeiðum af góðri jómfrúarolíu. Hvítlaukurinn var síðan notaður í kartöflurnar.



Hellti hvítlauksolíunni saman við kartöflurnar, ætli ég hafi ekki verið með 12-15 hvítlauksrif (hljómar mikið - er mikið - en er dásamlega gott!). Stappaði saman ásamt 2 msk af jómfrúarolíu, 1 msk af smjöri, salti og pipar. Setti einnig smá klípu af léttum rjómaosti og síðast, en ekki síst, safa úr hálfri sítrónu.



Næst var að steikja fiskinn. Ég gerði það síðast þar sem fiskurinn eldast afar hratt. Fyrst er að setja um það bil 1 sentimetra af olíu á pönnuna. Þegar olían er orðin heit (ca. 180 gráður), þá leggur maður fiskinn varlega í olíuna. Var með fiskinn 2 mínútur á hvorri hlið. Þegar ég var búinn að snúa saltfiskinum bætti ég kalamataolífum, sólþurrkuðum tómötum og kapers saman við og steikti með.



Tók fiskinn síðan upp úr olíunni með gataskeið, þannig að olían rann að mestu af fisknum. Raðaði á disk og stráði steinselju yfir.







Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða hvítvín frá Uco dalnum í Argentínu, Trivento Golden Reserve Chardonnay frá því 2010. Þetta er góður sopi. Ilmar af fersknum ávexti og hefur léttan vanillukeim. Þurrt vín en hefur talsvert kröftugt ávaxtabragð og er aðeins eikað í lokin.



Það verður engin svikinn af þessari máltíð. Því get ég lofað!

Tími til að njóta!

6 comments:

  1. vilhjalmur ari6 June 2012 at 22:04

    Ragnar, takk fyrir frábærar uppskiptir og nýjar hugmyndir. Vorum að prófa saltfiskréttinn sem var alveg frábær. Sérstaklega kartölustappan sem er sú albesta sem ég hef smakkað. Bestu kveðjur

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson10 June 2012 at 20:56

    Sæll Vilhjálmur.

    Ég er sammála þér - þetta er dásamlegur réttur. Hlakka til að fá saltfisk aftur og gera þennan rétt á nýjan leik.

    Kartöflumúsin er líka sérlega góð - prófaðu líka að hræra 100 gr af spínati saman við músina - það verður líka alveg dásamlega gott!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. Sæll Ragnar. Ég gerði þennan saltfiskrétt í gær. Verð að segja að þetta er sá al besti , sem ég hef smakkað. Bætti aðeins meiri hvítlauk í kartöflurnar.
    Drakk með þessu Pinot Gris frá Muré í Alsace..Small algjörlega.
    Takk fyrir allar uppskriftirnar.
    Kv.
    Jan

    ReplyDelete
  4. Pétur Rasmussen30 July 2012 at 21:28

    Takk fyrir uppskriftina. Ég gerði þetta í dag og var mjög ánægður. Samt má alveg gefa allt upp. Hversu mikið af kartöflum reiknar þú fyrir þetta sem mætti segja mér, væri einn heill hvítlaukur? Ég geri ráð fyrir að þetta sé þurrkaður og síðan útvatnaður saltfiskur en ekki nætursaltaðan. Ég útvatna einn sólarhring og skipti tvisvar.

    ReplyDelete
  5. Ragnar Freyr Ingvarsson30 July 2012 at 21:50

    Sæll Pétur.

    Sammála þér Pétur - þetta er frábær réttur - gerði hann aftur núna á föstudaginn var fyrir tengdafjölskyldu mína og allir voru í skýjunum!

    Ég fékk reyndar saltfisk frá Álfu vinkonu sem var tilbúinn til matreiðslu. Ekki nætursaltaður þó!

    1 kíló af kartöflum og uþb. 10-15 hvítlauksrif (og jafnvel meira ef maður er í stuði).

    Ég var reyndar að fá þurrkaðan saltfisk frá tengdaföður mínum þannig að ég er þakklátur fyrir leiðbeiningarnar!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  6. This looks really great! I'm glad I found your site. Takk fyrir!

    ReplyDelete