Þessi réttur er "signatúr" réttur móður minnar og hún er frábær kokkur! Hún hefur verið að elda þennan rétt síðastliðin fimmtán ár við afar góðar undirtektir. Móðir mín kynntist þessum rétti í gegnum vinkonu sína þegar við fjölskyldan bjuggum í Kanada þar sem móðir mín var við framhaldsnám í kennslufræði. Uppskriftin birtist fyrst í bók Julee Russo og Sheila Lukins sem kom út árið 1982. Þetta er sérstaklega eiguleg bók. Fyrsta útgáfa var einungis myndskreytt með teikningum en tuttugu og fimm ára afmælisútgáfan er skreytt fallega með ljósmyndum. Ein af mínum eigulegustu matreiðslubókum - þarna er meðal annars að finna uppskrift af Chicken Monterey og svo bestu kalkúnauppskrift allra tíma!
Ef þið smellið á myndina færist þið á hraða ljóssins í netverslun Amazon í Englandi.
Allavegana, þá var móðir mín nýlega í heimsókn hjá okkur. Hún kom hingað út og var hjá okkur í viku í vinnubúðum. Og mikið djöfull var hún dugleg - hún vann myrkanna á milli að doktorsritgerðinni sinni og leit varla upp úr tölvunni nema til þess eins að elda þennan rétt með mér. Og ekki vorum við svikinn fremur en fyrri daginn. Þennan rétt hef ég bloggað um einu sinni áður þegar þessi síðan sleit barnskóm sínum. Á köldu vetrarkvöldi í febrúar 2007 bauð ég vinum mínum í heimsókn og við gæddum okkur á þessum rétt. Með þeirri færslu birtust myndir sem Jón Þorkell tók og mér fannst vera fyrstu flottu ljósmyndirnar sem birtust á síðunni! Kannski ég slái honum við að þessu sinni!
Dúndur Marbella kjúklingur að hætti mömmu með hrísgrjónum og salati. Revisited!
Hráefnalisti
2 stórir kjúklingar
150 ml jómfrúarolía
75 ml hvítvínsedik
25 ml balsamic edik
1 bolli grænar ólívur
1 bolli svartar kalamata olífur
35 niðurskornar sveskjur
2 msk þurrt oregano
Handfylli fersk steinselja
6-8 lárviðarlauf
1 hvítlaukur
1/4 bolli dökkur sykur
1 bolli hvítvín
Fyrsta skrefið er að leggja kjúklinginn í marineringu. Best er að gera það kvöldið áður þannig að kryddjurtirnar nái að leika um kjúklinginn og edikið brjóta niður vöðvaþræðina. Þannig verður kjúklingurinn meir eins og smjör.
Tveir stórir kjúklingar eru hlutaðir niður og settir í stóra skál. Þá hellti ég 150 ml af jómfrúarolíu samanvið, ásamt 75 ml af hvítvínsediki, 25 ml af balsamic ediki. Þá setur maður einn bolla af góðum grænum ólívum, einn bolla af góðum svörtum kalamata olífum - það er ekki vitlaust að láta helminginn af vökvanum af báðum olífutegundum fylgja með. 35 niðurskornar sveskjur, 2 kúfaðar matskeiðar þurrt oregano, stóra handfylli af ferskri hakkaðri steinselju, 6-8 lárviðarlauf og heill smátt skorinn hvítlaukur.
Það er alveg óvitlaust að hræra í kjúklingnum af og til á meðan hann marinerast til þess að sjá til að allir bitarnir marinerist jafnt. Bitunum er svo raðað í eldfast mót, vökvanum af marineringunni er hellt með. Svo stráir maður dökkum Muscovado sykri yfir kjúklingabitana (húðin af kjúklingum mun aðeins standa upp úr vökvanum og mun karmelliserast í sykrinum). Að lokum bætti síðan bolla af hvítvíni til viðbótar þannig að nægur vökvi sé með kjúklingum. Bakið í ofni við 180 gráður í 50- 60 mínútur (og farinn að karmelliserast). Þegar maturinn er tilbúinn er hann skreyttur með smávegis ferskum kóríander og steinselju.
Kjúklingurinn er bestur borinn fram með soðnum hrísgrjónum - til að drekka í sig ljúffenga sósuna sem verður til við eldamennskuna. Og svo auðvitað salati - enginn matur án ríkulegs salats!
Donna di Valiano |
Með matnum drukkum við svo hvítvín sem ég hafði ekki bragðað áður. Að þessu sinni var það ítalskt hvítvín frá Toscana héraði. Donna di Valiano Toscana Chardonnay frá 2009. Þetta er ansi ávaxtaríkt vín, sætt í nefið - kannski smá vanillukeimur. Á bragðið aftur ávöxtur, eikað og smjörkennt. Ljómandi sopi.
Bon appetit!
P.s. minni aftur á heimasíðuna mína á Facebook: The Doctor in the Kitchen. Verið velkomin!
Mikið áttu fallega mömmu. Ekki ólík Bryndísi Scram.
ReplyDelete