Thursday, 29 March 2012

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum!

Það gerist stundum að maður gengur í gegnum svona tímabil, þ.e.a.s. í eldhúsinu - ég hef síðustu daga verið að ganga í gegnum svona pönnukökutímabil. Og það er ekki að ástæðulausu - pönnukökur eru alveg hreint ljúffengur matur. Og þá er það sama hvort maður eldar þær sem máltíð eða sem eftirrétt - niðurstaðan virðist bara vera ein; það er veisla framundan! Í síðustu viku gerði ég pönnukökur fylltar með heimagerðum rikottaosti og spínati, sem birtist í seinustu færslu og svo um helgina gerði ég galette með skinku, osti og steiktu eggi og hafði í sunnudagsmorgunverð.

Eins og svo oft áður gerði ég aðeins of mikið af deigi svo ég stakk því inn ísskáp svona til öryggis! Seinna um daginn varð mér síðan hugsað til ferðar okkar hjónanna til Parísar snemma síðastliðið sumar og þar gæddum við okkur einn eftirmiðdaginn á þunnri pönnuköku fylltri með nutella súkkulaði og bönunum - algerlega ljúffengt. Kannski hefði ég átt að nota eitthvað flottara súkkulaði til að rísa upp úr meðalmennskunni en það var eiginlega bara óþarfi - þetta var nógu ári gott!

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum! 
Ég gerði nákvæmlega sömu uppskrift og í síðustu færslu nema að ég bætti við smá sykri. Ég setti einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg, 2 tsk sykur og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikti á pönnu.



Þegar búið var að steikja pönnukökuna á annarri hliðinni var henni snúið og Nutella súkkulaðinu smurt á í þykku lagi. Þarna mætti auðvitað nota bráðið súkkulaði af hvaða gerð sem var - ég átti nutella og það var það sem við fengum í París og því var það notað. Síðan nokkrar sneiðar af sneiddum bönunum.



Þá var kökunni lokað með því að brjóta ósmurða hlutann yfir þann súkkulaðismurða. Steikt í smá stund og svo snúið aftur og steikt á hinni hliðinni.

Sett á disk og borið fram með tveimur vanilluískúlum og smáræði af myntu.
Borðað með áfergju og stunið reglulega á með (þetta er ekki leiðbeining heldur það sem gerist þegar maður gæðir sér á öðru eins sælgæti)!

Tími til að njóta!

P.s. Minni aftur á - The Doctor in the Kitchen - hlekkinn á Facebook. Áhugasamir eru velkomnir að kíkja í heimsókn - glugginn er hérna til hægri. Mbk, Ragnar

Tuesday, 27 March 2012

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaostiog spínati

Síðustu dagar hafa verið ljúfir hérna í Lundi. Vorið hefur aldeilis látið á sér kræla og í dag hefur verið glampandi sól. Við sváfum frameftir morgni og eyddum drjúgum hluta dagsins að snurfusa í garðinum. Næstu helgi ætla ég að gera mér ferð til Flyinge þar sem er fallegt gróðurhús og kaupa inn kryddjurtir, kartöfluútsæði og fleira í garðinn minn. Það er ekki seinna vænna en að fara að búa í haginn fyrir sumarið. Það verður komið áður en við vitum af!

Ég hef lengi verið aðdáandi alls þess sem á rætur að rekja í Frakklandi. Núna eins og oft áður er ég að hlusta á tónlistina úr bíómyndinni Amelie en þar semur og flytur Yann Tiersen stærsta hlutann. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Talandi um Frakkland þá eiga crepes rætur að rekja þangað - og þær eru vissulega ljúffengar - ætli íslensku pönnsurnar séu ekki úr franska eldhúsinu. Ég hef margoft eldað crepes - oftast á laugardagsmorgnum þegar ég hræri í þunnt deig og steiki eina pönnuköku sem ég ber fram smurða með dijonsinnepi, skinkusneið, osti og svo einu steiktu eggi. Fullkomnun á diski.

Innblásturinn að þessum rétt er fenginn frá nýjum vini mínum handan Atlantsála - kvikmyndagerðarmanninum Þorkeli Harðarsyni. Við kynntust í tengslum við heimasíðu mína og höfum meira að segja spjallað saman á skype í kjölfarið um ýmsar hugmyndir okkar um matargerð, ást okkar á mat og hvernig best væri að miðla áhugamálum sínum. Hann býr í Brooklyn í New Yor þar sem hann eldar - á milli þess sem hann gerir ýmsar kvikmyndir (og hefur unnið Edduna fyrir mynd sína - Featered Cocaine). Hann eldar gómsæta rétti, og jafnvel selur þá, í gegnum heimasíðuna sína - cookinggoodinthehood.com. Fyrir tveimur vikum var hann að elda fylltar pönnukökur með ricottaosti, spínati og sveppum - og það var svo girnilegt að ég varð hreinlega að stela hugmynd hans og prófa sjálfur. Þorkell... takk fyrir mig!

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaosti og spínati
Kvöldið áður gerði ég ricottaost. Sem er einfaldara en margan grunar. Ég hafði í fyrra keypt hráefni frá sjálftitlaðri drottningu ostagerðar, Ricki Carroll - the cheesemaking Queen of New England.



Fyrsta sem ég gerði var að hella 4 lítrum af nýmjólk í hreinan stálpott. Bætti útí 1 tsk af sítrónusýru og 1 tsk af salti (cheese salt - sem ég held að sé bara venjulegt salt!). Hitaði upp að 90 gráðum og hrærði vel í á meðan. Mjólkin fer að skilja sig um þetta leyti og þá slekkur maður undir pottinum og lætur standa í 5-10 mínútur. Þá setur maður "butter muslin" í sigti (hugsa að maður gæti bara notað hreina bómullarbleyju - að sjálfsögðu hreina!!!) og hellir vökvanum í gegn. Eftir situr osturinn sem ég lét síðan hanga í 30-40 mínútur í vaskinum. Og úr varð þessi frábæri ríkottaostur - sem tók innan við klukkustund að útbúa! Settur í kæli þangað til daginn eftir.

Næsta skref var að útbúa pönnukökurnar - hvaða íslenska pönnukökuuppskrift myndi ganga vel hérna, nema hvað að ég myndi sleppa því að bæta sykri saman við!



Ég setti alltént einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikt á pönnu eins og lög gera ráð fyrir og lagði á disk.



Skar niður 20 skógarsveppi sem ég steikti í 2 msk af kraftmikilli hvítlauksolíu ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Þegar sveppirnir voru eldaðir og laukurinn var mjúkur bætti ég saman við 300 gr af fersku þvegnu spínati sem fékk að sjóða niður þannig að það koðnar niður í pönnuna - og rýrnar um hartnært 80 prósent.



Þá setti ég sveppa- og spínatblönduna í skál og muldi heimagerða ríkottaostinn samanvið. Bætti við nóg af salti og pipar og kannski 3 msk af góðri jómfrúarolíu. Hrærði vel saman við. Smakkaði til!



Þá var ekkert annað eftir en að fylla pönnukökurnar. Setti væna matskeið af fyllingu í miðjuna á hverri köku og braut þær svo saman.



Næst var að setja kökurnar í ofnskúffu og baka í ofni í 20 mínútur við 180 gráður til að bræða ostinn. Á meðan gerðum við þessa ótrúlega einföldu tómatsósu. Skar niður hálfan hvítan lauk, 1 hvítlauksrif og steikti í 5 mínútur. Bætti síðan við einni dós af niðursoðnum tómötum. Salt, pipar, balsamedik og síðan smáræði af sykri (en bara ef tómatarnir eru í súrari kantinum...breytilegt eftir tegund).



Með matnum fengum við okkur smá tár af þessari ágætu búkollu sem ég sótti nýverið þegar ég skaust yfir brúna yfir til Danmerkur. Ég fann þessa í einni af búðunum í grenndinni við Kastrup. Þetta er ljómandi góð búkolla. Er framleidd á Sikiley á Ítalíu. Þetta er fremur létt Chardonnay vín. Ilmar af ávöxtum, melónu. Létt á tungu - ávaxtakennt og þurrt. Prýðisvín! Og var svo sannarlega ekki dragbýtur á máltíðina!



Bárum fram með ákaflega litríku salati. Græn lauf, niðurskornir tómatar og mislitar papríkur.

Einfalt...ekki satt!

Tími til að njóta!

Sunday, 25 March 2012

Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!

Nýlega eldaði ég gómsæta lambaskanka með gorganzola polenta. Og sá réttur var algerlega gómsætur. En eins og svo oft áður þá eldaði ég of mikið af meðlæti. Þetta er krónískt vandamál í mínu eldhúsi! Það er engin nýlunda að ég eldi of mikið og ég reyni að vera nýtinn. Ég veit að tengdamóðir mín myndi snúa sér við í ógrafinni gröfinni ef hún vissi að ég færi ekki vel með afgangana - enda er nýtni dyggð.

Það er líka oft þannig að ég næ að snúa afgöngunum í eitthvað annað og stundum er það meira að segja spennandi. Fyrir ári síðan var ég áskrifandi að bandaríska blaðinu Bon appetit og þegar kynntar voru til leiks uppskriftir þá fylgdu oft með hugmyndir að því hvernig mætti nýta afganga. Mjög sniðugt.

Alltént þá er þetta svo örfærsla - mér fannst ég verða að skrifa um þetta þar sem maturinn smakkaðist svo vel. Og þar sem við borðuðum þetta í hádeginu daginn eftir var meira að segja hægt að notast við salatið sem hafði verið gert kvöldinu áður, sem meðlæti.

Grilluð pólenta með parmaosti og einföldu salati - veisla úr afgöngum!


Pólenta er malað maizenamjöl sem þenst verulega út þegar það er soðið í vatni. Við suðuna lætur það frá sér sterkju sem gerir það að verkum að það verður silkimjúkt þegar það er heitt. Þegar það kólnar stífnar það og tekur á sig brauðkennt form.

Ég hafði haft rænu á því að breiða það út á bretti áður en það kólnaði og geymdi það í ísskápnum yfir nóttina. Þetta var auðvitað engin sérstök eldamennska. Bara að skera pólentuna í þríhyrninga (ætli það hafi ekki verið það flóknasta). Pólentan hafði verið bragðbætt með gorgonzólaosti þannig hún var pökkuð af djúpum blámyglyosti! Fátt er jú betra!



Hitta pönnuna þannig að það nánast rjúki úr henni. Pensla síðan hverja sneið með smáræði af hvítlauksolíu. Grilla síðan í 1-2 mínútur á hvorri hlið, rétt til að fá rákir á yfirborðið og svo til að hita pólentuna í gegn.
Leggja á disk og setja smávegis af blönduðu salati með! Síðan þarf maður bara að vera rausnarlegur með parmaostinn. Þetta var meiriháttar hádegisverður!



Tími til að njóta!

Ps. Kæru lesendur - ef þið kunnið vel við lesturinn mitt væri ég afar þakklátur ef þið mynduð smella á "like" hérna fyrir neðan - eða jafnvel í gluggann sem er á hægra megin á síðunni og er tengdur facebook síðunni minni - The Doctor in the Kitchen.

Kærar kveðjur, Ragnar

Tuesday, 20 March 2012

Homemade Gnocchi di Patate with Homemade Basil Pesto



Hérna er smá upprifjun frá því fyrir ári þegar ég og Valdís gerðum kartöflupasta, gnocchi di patate!

Þessa færslu er núna að finna í enskri þýðingu á heimasíðunnni minni: The Doctor in the Kitchen

Verið velkominn!

mbk, Ragnar

Monday, 19 March 2012

Nýtt leikfang: Römertopf! Bakaður kjúklingur með ljúffengu rótargrænmeti



Það er nóg um að vera um þessar mundir! Nóg að gera í vinnunni, í rannsóknum og í náminu! Svo ekkert vantar á að maður hafi nóg af áhugamálum sem taka sinn tíma. Í næsta mánuði á ég að kynna fyrstu niðurstöður úr doktorsverkefni mínu, en ég er að skoða faraldsfræði Rauðra Úlfa (SLE) á ákveðnu svæði hérna á Skáni. Við höfum fylgt eftir hópi sjúklinga núna í meira en þrjá áratugi og slíkt er nánast einstakt. Það er mjög áhugavert að skoða hvernig þessi sjúkdómur þróast yfir árin. Vona sannarlega að rannsóknin mín bæti einhverju við - en það kemur nú í ljós! Nóg um vinnuna!

Ég fékk þennan leirpott í afmælisgjöf frá bróður mínum. Og kann honum góðar þakkir fyrir gjöfina. Ég hef lengi verið að horfa á þessa Römertopf potta í verslunum og lengi langað í einn - bara aldrei látið verða af því að fjárfesta í einum slíkum. Og núna þarf ég ekki einu sinni að velta því fyrir mér lengur!

Römertopf leirpottar eru frá Þýskalandi og hafa verið framleiddir þar síðan 1967. En þeir byggja á árþúsunda gamalli aðferð frá tímum Rómverja (Römertopf þýðir líka rómverskur pottur). Hugmyndin er sú að þú lætur pottinn liggja í vatni í 10-15 mínútur áður en þú setur matinn í hann og þannig gufusýður maður matinn. Framleiðendur vilja meina að þetta varðveiti heilnæmi fæðunnar og að maður geti komist upp með að nota minna (eða jafnvel enga) fitu í matinn! Hvað um það - þá er þetta falleg viðbót í eldhúsið. Og rétturinn heppnaðist líka svona ljómandi vel!

Nýtt leikfang: Römertopf! Bakaður kjúklingur með ljúffengu rótargrænmeti 


Þetta var nú ekki snúin eldamennska. Og ekki tók hún langan tíma heldur. Ég þreif leirpottinn að sjálfsögðu eins og leiðbeiningar kváðu á um og svo lét ég pottinn liggja í köldu vatni í 15 mínútur á meðan ég undirbjó hráefnið.

Ég flysjaði niður nokkrar kartöflur og skar í bita, átti einnig til hálft butternut grasker sem fékk sömu meðferð, skar niður rauðlauk og svo smávegis sellerí. Penslaði botninn á leirpottinum með smá hvítlauksolíu.



Setti síðan grænmetið ofan í pottinn og blandaði saman.

Þá setti ég kjúklinginn ofan í pottinn. Nuddaði kjúklinginn með smáræði af góðri jómfrúarolíu, salt og pipar að sjálfsögðu, síðan smá papríkuduft og timian.



Lagði síðan tvo heila hvítlauka með. Þeir eiga eftir að bakast í eigin pappír og verða mjúkir og dísætir. Ég elska bakaðan hvítlauk. Hellti smá hvítvíni í botninn á pottinum. Kannski 2 dl.



Sett Römertopf pottinn inn í kaldan ofninn. Stilla á 220 gráður og og baka í einn og hálfan tíma.

Bera fram með einfaldri sósu - sem ég átti reyndar í frysti. Stundum verður maður bara að nota afganga. Ég er vanur að geyma sósur sem hafa heppnast vel og nota þegar maður er latur. Og á þessum sunnudegi var ég heldur latur!







Með matnum drukkum við Rosemount Chardonnay frá því 2009. Þetta er ástralskt hvítvín. Og er alveg ljómandi gott. Ilmar af ávexti, perum og eik. Á tungu dáldið þykkt, smjörkennt með svipuðum tónum; ávöxtur, perur og ágætlega eikað, langt, eftirbragð. Ljúfur sopi sem sómdi sér vel með þessum einfalda mat.



Frábær sunnudagsmáltíð.

Tími til að njóta!

Wednesday, 14 March 2012

I Love Chanterelles; Tagliatelle with Chanterelles and Truffles Servedwith a Sourdough Baguette – and a Few Other Recipes!

Hérna er færsla frá því í haust í enskri þýðingu. Þá skrifaði ég um sveppina sem við týndum snemma hausts! Það er ótrúlega gaman að týna villta sveppi - maður er strax farinn að hlakka til næsta haust!

Verið velkominn á: The Doctor in the Kitchen!

Monday, 12 March 2012

Ljúffengir langeldaðir lambaskankar með gorgonzola polenta ogdásamlegri sósu!

Við erum komin heim eftir langt ferðalag frá Austurríki. Rúmlega fjórtán hundruð kílómetrar voru eknir síðastliðna helgi á leiðinni heim frá St. Michael í Lungau héraði sunnan Salzburg til Pukgränden í Suður Svíþjóð. Við ókum af stað frá Austurríki s.l. föstudag eftir að hafa skíðað allan daginn og gistum rétt fyrir sunnan Nurnberg í Þýskalandi. Aðalmálið var að vera komin norður fyrir Munchen áður en laugardagurinn blasti við - skiptidagur - því þá er allt frosið á hraðbrautunum. Það er merkilegt að sitja fastur á hraðbraut! Hvað á það eiginlega að þýða - engin hindrun - bara fólk sem tefur hvert fyrir öðru! Það er merkileg stúdía að skoða!

Alltént var gott að vera kominn aftur til vinnu eftir tveggja vikna frí. Ég er að vinna á barnagigtardeildinni eins og stendur og það er virkilega áhugavert! Gigtarveik börn eru allt öðruvísi en gigtarveikir fullorðnir. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvernig börn bregðast við veikindum sínum. Börn eru oft alveg ótrúleg, hvernig þau læra að leika sér í kringum veikindi sín, hvernig þau aðlagast erfiðum aðstæðum og hvernig þau verjast erfiðum kringumstæðum. Það er margt sem við hinir fullorðnu getum lært af veikum börnum!

Hugmyndin af þessum rétti er sprottin frá íslenskum kokki sem heitir Guðmundur Guðmundsson. Fyrir nokkrum árum voru þættir á moggablogginu sem kölluðust "eldum íslenskt" og þar kom þessi herramaður fyrir. Hann eldaði lambaskanka á svipaðan hátt og ég geri í þessari færslu. Nema hvað, ég lét aldrei verða af því að herma eftir honum - rétturinn féll í gleymskunnar dá þangað til að mamma og pabbi gáfu mér nýlega íslenska matreiðslubók sem heitir "Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu". Þar leggja margir íslenskir kokkar úr landsliðinu fram hugmyndir að fjölmörgum og fjölbreytilegum réttum. Bókin er samt hálffurðuleg - kápan ein sú ljótasta sem ég hef séð lengi - og ég á nú nokkrar bækur til að bera saman við! Þemað er líka hálf einkennilegt - bara eldað með 5 hráefnum - það er svosum ok en ég fatta ekki tilganginn með því. Hvað sem því líður þá eru margar ágætar uppskriftir í bókinni og þar á meðal þessi sem ég byggi mína útgáfu á!
Ljúffengir langeldaðir lambaskankar með gorgonzola polenta og dásamlegri sósu!
Þetta er dásamlegur réttur - og fyrir þá sem vilja hafa lítið fyrir helgarmatnum þá er þetta fullkomið. Það tekur tæpar fimmtán mínútur að koma þessu í gang og svo mallar þetta bara í ofninum allan daginn!



Snædís hafði keypt nokkra lambaskanka þegar hún var á Íslandi síðast. Hún brá sér til Íslands í byrjun febrúar til að koma móður sinni, Hrafnhildi, á óvart þegar hún varð sextug. Tengdamömmu brá sannarlega! Mér skilst að afmælið hafi verið sérlega vel heppnað. Ég var heima og sá um börnin mín - og fékk þessa ljúffengu lambaskanka í verðlaun.



Þessa sveppi týndi ég í snemma í haust þegar að mamma og pabbi voru í heimsókn. Við brugðum okkur á sveppaveiðar rétt fyrir utan Sjöbö sem er nokkurn veginn á miðjum Skáni. Við fundum nokkra glæsilega sveppi meðal annars þessa, Boletus badius, sem eru rörsveppir og kallast brunsopp hérna í Svíþjóð. Þeir tilheyra sömu fjölskyldu sveppa og Kóngssveppurinn. Það væri gaman að vita hvort hann hefur íslenskt nafn - endilega skiljið eftir athugasemd ef þið þekkið nafnið! Alltént þá skar ég sveppina niður í sneiðar og þurrkaði í ofni við 50 gráður í nokkrar klukkustundir og setti síðan í krukku til þess að nota síðar. Eins og til dæmis núna.






Skar niður einn gulan lauk, ein rauðan og svo 5-6 hvítlauksrif og steikti í jómrfrúarolíu með nokkrum greinum af fersku rósmaríni (sem höfðu lifað veturinn af úti á palli). Þegar laukurinn var orðin mjúkur bætti ég lambaskönkunum saman við og steikti í smá stund.


Þá hellti ég hálfum lítra af rauðvíni saman við og sauð upp - þannig að áfengið gufaði upp. Hellti síðan tveimur lítrum af nautasoði saman við ásamt einni teskeið af þurrkuðu timian og einni teskeið af þurrkuðu majorami. Saltaði vel og pipraði.



Bætti við rausnarlegri handfylli af þurrkuðum Boletus Badius sveppum. Suðan er látin koma upp og svo er sett lok á pottinn. Sett í ofninn við 120 gráður og látið vera inn í ofninum í 5-6 klukkustundir. Þarna er rétti tíminn til að gera eitthvað allt annað! Rétturinn eiginlega bara eldar sig sjálfur.



Að gera pólentu er lítið mál hvað tækni varðar en það er tímafrekt! Fyrir hver 250 gr af polenta þá þarf maður 1 L af vatni. Fyrst þarf að sjóða vatnið, bæta við salti og setja svo pólentuna saman við. Lækka þá hitann og sjóða við lágan hita í 40 mínútur. Það þarf að hræra reglulega í maukinu. Þegar pólentan er tilbúin bæti ég 150 gr af gorgónzola-osti saman við og hræri rækilega. Smakka til og salta og pipra eftir smekk.





Með matnum drukkum við Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignion frá því 2010. Þetta er ástralskt rauðvín frá suður hluta Ástralíu. Þetta er ljómandi gott rauðvín. Dökkt í glasi, þykkt eins og Cabernet vínum er tamt að vera. Bragðið er með miklum ávexti, vott af plómum og ágætlega eikað. Þetta er klassískt Cabernet Sauvignion - ágætur munnfyllir af ljúffengum ávexti. Gaf matnum ekkert eftir!



Rétt fyrir klukkan sjö tók ég pottinn út úr ofninum. Fjarlægði kjötið varlega úr soðinu - kjötið rann næstum því af beininu. Lagði til hliðar á meðan ég bjó til sósuna. Setti 30 gr af smjöri í pott og hitaði. Þegar smjörið var bráðið setti er jafnmikið af hveiti í pottinn og hrærði saman við. Hellti saman við 600-700 ml af soðinu og sauð upp, hrærði. Bætti síðan við 70-90 ml af rjóma og sauð upp aftur. Það þurfti ekki að gera annað við sósuna.

Bara að raða matnum fallega á disk. Fyrst pólentunni, síðan kjötbitanum. Hella síðan 2-3 msk af sósu yfir. Svo er ekkert annað að gera en að njóta matarins og sleikja vel útum. Skála fyrir Guðmundi og skála fyrir sjálfum sér!

Tími til að njóta!

Tuesday, 6 March 2012

Ofnbökuð rauðspretta með púrrulauks og rækjuhjúp ásamt hrísgrjónum og einföldu salati



Þá er maður kominn heim til Lundar. Við lögðum af stað úr Ölpunum á föstudagseftirmiðdaginn síðastliðinn eftir dásamlegan skíðadag í glampandi sól! Þetta hefur verið alveg frábært vetrarfrí - það er svo gott að geta slúttað vetrinum á þennan hátt. Við lögðum af stað frá Skáni í vetrarhjúpnum og vorum rúmar tvær vikur í burtu. Þegar heim var komið getur maður vænst þess að sjá fyrstu teikn vorsins. Snjórinn var horfinn og fuglarnir eru farnir að tísta. Það var þó ennþá kalt þegar ég hljólaði á lestarstöðina í morgun en leiðin lá til Helsingborgar þar sem ég er í verknámi í stjórnun einu sinni í viku samhliða öðru námi.

Næstu vikurnar verður reynt að elda hollan, jafnvel mjög hollan mat - til að venda kvæði okkar í kross eftir tveggja vikna dvöl í Ölpunum. Það er auðvitað góð útivist að vera á skíðum frá morgni til kvölds en matarræðið - það verður seint hægt að kenna það við hollustu - eða hvað þá með allan þá bjórinn!

Þannig að nú er búin að leggja upp með smávegis plan næstu vikurnar. Hollusta verður lykil hráefnið í uppskriftum næstu vikna. Auðvitað þarf að lauma með syndinni af og til, en það verður þá bara á laugardagskvöldum. Svona eins og laugardagsnammið!

Ofnbökuð rauðspretta með púrrulauks og rækjuhjúp ásamt hrísgrjónum og einföldu salati
Rauðspretta er ein af þeim fisktegundum sem maður getur fengið hérna á Skáni og nokkurn veginn treyst því að fiskurinn er af góðum gæðum. Fiskurinn er mikið veiddur hérna í kringum Skán sem tryggir að maður fær nokkuð góðan fisk. Annars er engin fiskur eins góður og sá íslenski. Ég var núna að prófa að panta hjá fyrirtæki í Malmö sem selur íslenskan fisk. Jóhanna var með verslun í Malmö sem því miður hefur verið lokað. Ég náði að versla hjá henni einu sinni áður en hún lokaði og keypti þessi fyrirtaks þorskshnakkastykki. Hún er þó ekki af baki dottin - núna er hún með fisk í heimkeyrslu. Ég var að panta hjá henni - gallerifisk.se - og fæ það sent um næstu helgi. Hlakka til að borða meira af góðum íslenskum fiski. Kannski að mér detti í hug einhverjar góðar nýjar uppskriftir sem ég get skellt hérna inn á vefinn. Í versta falli stel ég þeim frá einhverjum öðrum!






Ég var með þrjár tegundir af laukum. Einn heilan stóran púrrulauk, einn rauðlauk og 3 hvítlauksrif ásamt einni stöng af selleríi. Allt þetta var skorið niður í sneiðar og steikt við lágan hita í smávegis smjöri/jómfrúarolíu í 15 mínútur þar til grænmetið var vel mjúkt.






Ég náði meira að segja að "tossa" grænmetinu á pönnunni með vinstri og taka mynd! Síðan bætti ég við einni lítilli dós (180 ml) af léttum creme fraiche, 100 ml af vatni, smá fljótandi fiskkrafti, nóg af salt og pipar og svo smáræði af agave sírópi.



Lagði fjögur rauðsprettuflök í ofnskúffu sem ég hafði penslað með smáræði af hvítlauksolíu. Saltað og piprað eins og lög gera ráð fyrir. Mín skoðun er sú að það þarf að salta/pipra rækilega til að draga fram það góða bragð sem er af matnum, lyfta því aðeins upp - en ég er auðvitað ekkert einn um þá skoðun!



Þegar sósan hafði soðið niður í 3-4 mínútur og var orðin þykk skóf ég hana upp með stórri skeið og lagði ofan á hvert rauðsprettuflak. Setti síðan rúmlega 40-50 gr af rækjum ofan á hvert flak.







Með matnum fékk ég mér smá lítilræði af hvítvíni. Þegar maður er að elda góðan mat þá virðist það bara kalla á að fá sér að minnsta kosti eitt glas af ágætu víni. Rétt svona til að væta kverkarnar - svo er líka ágætt að trappa sig rólega niður frá brjóstbirtunni úr Ölpunum! Þetta er ágætis búkolla. Þetta vín er frá Chile - uppskeran frá því í fyrra, 2011. Þetta er ljómandi sopi, mjúkt og fínt. Kraftmikill ávöxtur og sítruskeimur sem er í góðu jafnvægi. Fínt vín!



Maturinn var borinn fram með jasmín hrísgrjónum og mjög svo einföldu salati sem var bara hent saman á síðustu stundu, nokkur blönduð græn lauf og niðurskorin tómatur. Það þurfti ekkert meira þar sem það var talsvert af grænmeti í réttinum sjálfum.

Tími til að njóta!

Monday, 5 March 2012

Real Beef Stroganoff with Oven-Roasted Potatoes

Hérna er upprifjun frá því snemma í haust á ensku síðunni minni - dásamlega ljúffengt Beef Stroganoff með öllu tilheyrandi.

Verið velkominn á: The Doctor in the Kitchen.

Bon appetit!

P.s Ný orginal færsla er væntanleg á næstum dögum!