Sunday, 19 February 2012

Gómsæt Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu


ragnarobertauern

Nú fer að líða að því að við höldum af stað til Austurríkis. Við erum virkilega spennt að leggja í hann - enda er þetta stóra fjölskyldufríið okkar. Við höldum suðureftir núna á föstudagseftirmiðdaginn og keyrum sem leið liggur niður til St. Michael í Austurríki. Fjölskyldan mín hefur hálf gaman að því hvað ég er spenntur fyrir þessari ferð. Ég er fullur af einhverskonar barnslegri tilhlökkun. Að renna sér niður brekkur - er eðlilegt að fullorðin maður hafi svona gaman að því að leika sér? Þið munið taka eftir því að það verður lítið um að vera á síðunni næstu vikur - kannski að maður laumi inn einstaka færslum úr Ölpunum! Myndin hér að ofan var tekin af undirrituðum á 35 ára afmælinu þegar við vorum í Austurríki í fyrra - dásamlegur dagur!

Þessi réttur var á borðum núna síðastliðna helgi - þá vorum við með frændfólk Snædísar í heimsókn. Það er ekki oft sem ég tek upp á því að grilla á veturna. Það kemur þó fyrir. Að minnsta kosti einu sinni á vetri er kynnt upp undir grillinu - maður dúðar sig upp og fer út í kuldann með grillspaðann í einni hendi og brjóstbirtu í hinni. Það er alltaf sérstök stemming að grilla í myrkrinu. Vasaljósappið í símanum mínum kom að góðum notum!

Hugmyndin að þessum rétt er kominn frá Chef John sem er með heimasíðuna foodwishes.com sem er ákaflega skemmtileg síða sem ég mæli eindregið með. Hann er með stutt vídeó um einstaka rétti - mjög aðgengilegt allt, svo hljómar hann líka einkar vinalega sér í lagi þegar hann líkur myndböndunum sínum með orðunum "enjoy" með feitri og mildri amerískri röddu.

Beurre Noir er tegund af smjörsósu þar sem maður steikir smjörið lágan hita þangað til að það að það fer að brúnast eilítið - þá er maður kominn með beurre noisette - sem hefur ljómandi hnetukeim og er gjarnan notað t.d. á fiskrétti. Við ætlum að steikja smjörið ögn lengur, í dökk brúnan lit (ekki brenna) og þegar smjörið er orðið dökkbrúnt er einhverslags sýru bætt saman við, t.d. sítrónusafa eða einhverju ediki. Vík að því síðar. Við munum meira að segja svindla dálítið á þessum fornu hefðum.

Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu 

preppingthesauce

Fyrst bræðir maður 1 msk af smjöri við lágan hita á pönnu, eftir að það byrjar að freyða set ég síðan einn niðursneiddan hvítlauksgeira og steiki áfram við lágan hita - hvítlaukurinn á ekki að brenna en mun taka smá lit af smjörinu.

beurrenoir

Þegar smjörið hefur brúnast hellti ég 250 ml af góðu balsamikediki saman við og sauð upp. Þegar suðan var komin upp bætti ég kúfaðri teskeið af tómatpúré og einum kjarnhreinsuðum og söxuðum rauðum chilli. Hrært saman. Hitinn er lækkaður en frekar og edikinu leyft að sjóða niður um 2/3. Þá er slökkt undir og fjórum matskeiðum af smjöri hrært saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Ef balsamikedikið er mjör súrt þarf að sæta það örlítið með sykri eða sírópi (ég þurfti þó ekki að gera slíkt - var með þokkalegt edik).

ribeyesteak-1

Ég hafði keypt gott sænskt nautakjöt, sem að mínu mati er af góðum gæðum, og sneiddi niður í 2,5 cm þykkar sneiðar. Klappaði kjötinu með góðri jómfrúarolíu og saltaði og pipraði.

meatonfire

Fór út í kuldann og grillaði í nokkrar mínútur á hvorri hlið þangað til að kjötið var sirka medium rare.

steakwithbuerreblanc

Ég hafði vafið nokkrum stórum kartöflum í álpappír og bakað í ofni í einn og hálfan tíma við 180 gráður. Skar einn kross í kartöflurnar, opnaði, teskeið af creme fraiche, salt, pipar og svo saxaður ferskur graslaukur. Steikin var svo sett á disk og 1-2 matskeiðum af sósu hellt yfir. Sumir munu segja að þetta sé ekki nóg af sósu - en þessi sósa er ansi kraftmikil og kjötið meyrt og safaríkt - þannig að það þarf ekki mikið af sósu til þess að allir verði glaðir. Meira að segja að konunni minni fannst þetta nóg sósa en hún er einn mesti sósuisti sem um getur.

masi

Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2008. Þetta er vín frá Ítalíu, svæðinu í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Þetta vín hefur verið framleitt lengi - í meira en 40 ár. Það er kirjuberjarautt í glasi. Á tungu ávaxtaríkt og ferskt, örlítil sýra og tannín. Góð fylling og langt eftirbragð. Ljómandi gott vín - paraði sig ljómandi vel með matnum, sem var alveg gómsætur.

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment