Friday, 18 November 2011

Ljómandi kraftmikið svepparagú: Penne alla funghi multiple með baguetteog salati



Þennan rétt eldaði ég fyrr í vikunni fyrir tengdaföður minn og mágkonu mína sem voru hjá okkur í stuttri heimsókn. Við erum búinn að hafa það ákaflega gott síðastliðna daga og gera ansi vel við okkur. Við erum búinn að elda mikið af góðum mat - og var þetta einn af réttum vikunnar.

Þessi réttur er innblásin af nýjustu bók Hugh Fearnley Whittingstall - Veg - sem er bók sem inniheldur einvörðungu grænmetisrétti. Þetta er bók sem ég get hiklaust mælt með - það er töluvert síðan að ég las matreiðslubók sem hefur veitt mér svona mikinn innblástur í eldhúsinu. Öll bókin er fallega gerð með girnilegum uppskriftum og svo byggir hún líka á hugmyndafræði sem mér finnst aðdáunarverð. Hvet áhugafólk um góðan mat að kynna sér þessa bók - fyrir þá sem ekki vilja bók um grænmetismat þá hefur hann líka gefið út margar aðrar fallegar bækur, m.a. um kjöt og fisk.



Eins og hefur komið fram á blogginu mínu þá vorum við bræður duglegir við að fara í gönguferðir um nærlæga skóga í sveppaleit og urðum margs vísari og fundum fjölda gómsætra sveppa. Það gekk auðvitað ekki að borða þetta allt í haust þannig að við vorum röskir við að þurrka þetta allt saman og koma fyrir í krukkum. Þurrkaðir sveppir geymast von úr viti. Það má auðvitað fleygja þeim beint út í kássur en oftast er mælt með því að láta þá liggja í heitu vatni í 30 mínútur áður til að þenjast út á nýjan leik. Þá fær maður sveppinn sinn tilbaka og einnig líka kröftugt sveppasoð (sem sumir ráðleggja að henda) sem ég nota síðan í matinn.

Ljómandi kraftmikið svepparagú: Penne alla funghi multiple með baguette og salati 


Ég notaði fimm ólíkar sveppategundir í réttinn. Það hefði auðvitað mátt hafa færri tegundir - en hvað um það - stundum er maður bara í stuði. Ég hafði keypt nokkra portobello sveppi, skógarsveppi og svo átti ég nokkra venjulega hvíta sveppi. Síðan notaði ég þurrkaðar kantarellur síðan í haust ásamt nokkrum Boletus badius (brunsopp) sem er ákaflega bragðgóður rörsveppur sem finnst útum allt í suður Svíþjóð á haustin. Þeir fengu að liggja í 30 mínútur í heitu vatni áður en þeir voru notaðir.



Síðan skar ég niður hálfan hvítan lauk í smá bita, 3 hvítlauksrif og steikti upp úr smá jómfrúarolíu. Síðan steikti ég sveppina, ekki alla í einu, þangað til að þeir fóru að taka lit og svo lagði ég þá til hliðar og hélt svo áfram að steikja sveppi þangað til að allir voru eldaðir. Þá var allt sett á pönnuna aftur; bæði fersku og endurvættu sveppirnir og steiktir í smástund. Bætti síðan saman við 200 ml af sýrðum rjóma, saltaði og pipraði og setti síðan um það bil 200 ml af sveppavökvanum. Suðan fékk að koma upp - stráði síðan saman við handfylli af fínt skorinni steinselju.



Sauð síðan pasta skv. kúnstarinnar reglu, í miklu sjóðandi vel söltu vatni þar til "al dente". Maturinn var síðan borinn fram með heitri baguette og svo smávegis rauðvínstári.




Bara svona smáræði úr búkollu þar sem þetta var nú virkur dagur. Við vorum með búkollu frá Trivento sem er rauðvín frá Argentínu. Þetta var blanda af Cabernet - Merlot frá því 2010. Það hefur verið erfitt að taka Merlot þrúguna í sátt eftir að aðalpersóna bíómyndarinnar Sideways, Miles, hafði algera ímugust á þessari þrúgutegund. Mér skilst að sala Merlot vína hafi hrunið eftir að myndin sló í gegn. Hann hafði síðan dálæti á Pinot þrúgu sem skaust upp á stjörnuhimininn í staðinn. Annars er þetta prýðis búkolla. Þetta er ansi kraftmikið vín aðeins í þurrari kantinum með ágæta fyllingu og ljúft eftirbragð. Lagði ágætan grunn með matnum sem var ansi bragðmikill og einkar góður.

Bon appetit!






Ps. Bestu þakkir til allra sem þrýstu á "like" hnappinn seinast - hlýjar manni um hjartarætur. Þið megið gjarnan halda áfram að ýta á hnappinn ef ykkur líkar vel við það sem birtist á síðunni. mbk, Ragnar

1 comment:

  1. Herta Kristjánsdóttir18 November 2011 at 09:39

    Það er eins og þú hafir fengið hugskeyti frá mér...ætlaði einmitt að leyta á síðunni að nákvæmlega svona rétti...Verð í Malmö í næstu viku og hlakka til að fara á markaðinn og kaupa kantarellur og alla hina sveppina...hef mikla matarást á þér.....

    ReplyDelete