Thursday, 10 November 2011

Afgangar í veislumat: Kröftug Kartöflukaka með blönduðum lauk oggeitaosti

Þennan rétt eldaði ég núna snemma í haust. Þetta er fullkomin leið til þess að nýta afganga helginnar. Það er ekki ósjaldan sem maður sýður of mikið af kartöflum og það er alltaf synd að henda mat. Þá koma svona uppskriftir sér einkar vel. Alltaf þegar ég geri eitthvað úr afgöngum hugsa ég til tengdamóður minnar, sem er ákaflega nýtin kona, og hvað hún yrði nú stolt af mér fyrir nýtnina.

Einhvern tíma las ég um að í Stóra Bretlandi hafnaði rúmur þriðjungur allra keyptra matvæla á haugunum. Það er auðvitað ótrúleg sóun. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað á Íslandi - en mér blöskrar stundum við sjálfum mér þegar ég fer út með ruslið - hversu miklu maður hendir - þó maður sé að reyna að passa að nýta matinn eins vel og kostur er. Alltaf má gera betur!

getost-1

Ostinn keypti ég síðsumars þegar ég var með foreldra mína í heimsókn. Við fórum eins og oft áður í smá bílferð um Skán og keyrðum sem leið lá yfir í Austurlén (Provance þeirra Svía) þar sem ræktum er mikil og einnig nokkrar sjálfstæðar mjólkurvinnslur. Við stoppuðum á Vilhelmsdals gårdsmejeri, sem sérhæfir sig í geitaostum, og keyptum heil reiðinnar býsn af ostum og tókum með okkur heim. Við kláruðum ekki allt og svo snemma í haust fann ég einn ostinn vel innpakkaðan (og ennþá ljúffengan) í ísskápnum. Auðvitað var hann notaður líka í þennan rétt (tengdó hlýtur að vera að rifna úr stolti).

Afgangar í veislumat: Kröftug kartöflukaka með rauðlauk og geitaosti

laukur-1

Þetta er eldamennska eins og hún gerist einföldust. Kartöflurnar, sem eru soðnar, voru skornar í sneiðar og settar í skál. Skar niður einn rauðlauk, heldur smátt, 3-4 hvítlauksrif, 2-3 ferska vorlauka og  handfylli af ferskri steinselju og blandaði varlega saman við. Saltaði og pipraði.

egg

Hrærði síðan 6-7 egg, smá skvettu af rjóma, saman í skál og hellti síðan saman við kartöflurnar og blandaði saman.

á pönnunni

Síðan hitaði ég olíu í pönnu við miðlungshita og hellti kartöflublöndunni varlega úti og reyndi að jafna þessu vel út á pönnunni. Steikt í 10 mínútur.

í ofninum

Geitaosturinn er síðan skorinn í sneiðar og raðað ofan á kartöflurnar. Þá er pannan sett inn í forhitaðan ofn, 200 gráður, og kakan bökuð í 20-30 mínútur þangað til elduð í gegn. Kveikti á grillinu síðustu mínúturnar til að fá ostinn vel eldaðan og fallega gullinn.

Borin fram með einföldu salati og brauðhleif.

kartöflubaka

Bon appetit!

Ps. Hún var líka frábær köld - og leit betur úr, þá hafði rétturinn sjatnað og var mikið þéttari og jafnvel ennþá girnilegri!

Pss. Ef þið, kæru lesendur, kunnið vel við færsluna væri ég þakklátur ef þið mynduð íhuga að þrýsta á "like" hnappinn hérna að neðan.

2 comments:

  1. vá hvað ég ætla að profa þessa! elska kartöflur og rauðlauk, þetta getur ekki klikkað")

    ReplyDelete
  2. Mun prufa þessa! En á eina enn einfaldari.
    Kartöflur, sýrðurrjómi/grískt jógúrt, hvítlaukur, steinselja og beikon. Salt og svartur pipar. Kartöflurnar skornar smátt, Öllu hinu hrært saman við kartöflurnar og í eldfast mót með osti yfir. Í ofn á 200 gr. þangað til að er tilbúið. Tími í ofni fer eftir hvort kartöflurnar eru hráar eða soðnar = frá ca. 1 tími til 20 mín. Takk annars fyrir mjög skemmtilega pistla! kveðja frá förre detta Göteborgare

    ReplyDelete