Ég var á næturvöktum í síðast liðinni viku, í fyrsta skipti í tæp þrjú ár, og það verður að segjast að það var ánægjuleg tilbreyting. Það er auðvitað allt önnur stemming að vinna á kvöldin og nóttinni. Það er samt nóg að gera á svona stóru sjúkrahúsi og verkefnin eru vissulega krefjandi. Maður verður pínulítið lúinn við að snúa sólarhringnum við - aldurinn færist auðvitað yfir. Ég man þegar ég var læknanemi og var að vinna í Keflavík, þá vann maður vandræðalaust í gegnum heila helgi - slíkt myndi ég ekki vilja endurtaka í dag.
Þessa brauðsneið fékk ég mér í seinustu viku, þegar ég var á leiðinni á vaktina, sannkölluð orkubomba. Þetta er auðvitað bara spin-off á venjulegri bruchettu - sem er venjulega snitta sem maður ristar á þurri pönnu, raspar síðan með hvítlauksrifi og maður setur síðan blöndu af tómötum, basil ofan á. Þetta er svo bara afbrigði af þessu - nema hvað til að gera þetta að meiri máltíð, þá skar ég stóra sneið af heilhveitibrauðinu sem ég bloggaði um í síðustu færslu og notaði sem "stór" snittuna mína.
Undanfarnar vikur hefur mikið borið á fjölbreytilegum og smáum, mislitum tómötum í verslnum og hjá grænmetissölunum niðri á torgi. Rauðir kirsuberja, plómu, gulir, appelsínugulir og þessir frábæru dökk grænu zebra tómatar - nóg úrval. Í þetta sinn keypti ég handfylli af rauðum kirsuberja og gulum tómötum.
Meiri hollusta: Dúndur heilhveiti Bruchetta með blönduðum tómötum
Gott brauð
Handfylli kirsuberjatómatar
1/2 rauðlaukur
Basillauf
1-2 msk jómfrúarolía
1 msk balsamikedik
1 msk hvítlauksolía
Salt og pipar
Það tekur því varla að tala um uppskrift í þessu sambandi - þar sem þetta er auðvitað lítið annað en bara brauð með áleggi! Mjög góðu og frískandi áleggi!
Fyrst var að skera smátt niður handfylli af rauðum kirsuberjatómötum og gulum tómötum í 2-4 bita eftir stærð, hálfan rauðlauk og blanda saman í skál. Bæta við handfylli af rifnum eða skornum basillaufum (sumir segja að maður varðveiti bragðið betur við að rífa basil heldur en að skera - mér finnst það ári gott sama hvernig farið er með það) og svo nokkrum steinseljulaufum. Síðan hellti ég saman við 1-2 msk af góðri jómfrúarolíu og síðan 1 msk af balsamikediki, saltað og piprað og svo blandað vel saman. Látið standa í nokkrar mínútur til að tómatarnir nái að marinerast aðeins í olíunni og edikinu.
Skar niður eina brauðsneið af fína heilhveitibrauðinu mínu og steikti í jómfrúarolíu og smátt skornum hvítlauk þangað til að það tók á sig smávegis lit þó án þess að hvítlaukurinn færi að brenna.
Svo var ekkert annað að gera en að taka til við að hrúga tómötum yfir brauðið og borða með bestu lyst!
Bon appetit!
Maður fær vatn í munninn við að skoða allt þetta girnilega og fallega nammi namm!
ReplyDelete