Tuesday, 19 July 2011

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli meðgráðaosti og heilbökuðum kartöflum




Eilífsdalur

Jæja - þetta verður síðasta færslan frá Lækjarkoti að sinni, því verr og miður. Þetta voru dásamlegir dagar í fallega Lækjarkotinu. Við vorum líka einkar veðurheppin, fengum íslenskt sumar rétt fyrstu dagana, en svo þegar komið var í Kjósina leit sólin fram úr skýjunum og dvaldi þar með okkur allan tímann. Og fátt er betra en íslensk sumarnótt, að sitja í heita pottinum og horfa út á spegilslétt Meðalfellsvatnið. Og halda svo veislur - mitt uppáhald.

Eins og kom fram í síðustu færslum vorum við með fullt hús gesta nær allan tímann. Og það var frábært. Þetta laugardagskvöld var engin undartekning - við vorum sennilega 12 fullorðin við borðið auk barna. Húsið var fullt af gleði, mat og góðum vínum. Svona eiga laugardagskvöld í sveitinni að vera.

Fórum og sóttum kjötið að Hálsi sem er í Kjósinni. Þar reka ábúendur litla verslun þar sem hægt er að kaupa vörur sem eru unnar á bænum, bæði nautakjöt og svo ýmsar sultur og fleira góðgæti sem húsfreyjan á bænum útbýr. Þetta er falleg lítil sveitaverslun og gaman að sjá að svona fyrirtæki þrífist. Hvet fólk til að líta þarna við.

á gítar

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli með gráðaosti, heilbökuðum kartöflum

furusveppir

Við fengum nokkur nautabein með steikunum okkar sem við notuðum í að undirbúa soðið fyrir sósuna. Fyrst var að nudda beinin með olíu, salta og pipra og svo setja á grillið við óbeinan hita í nokkrar mínútur til að brúna þau. Síðan var bara gert eins og á að gera, steikja gróft skorinn lauk, tvær sellerísstangir, tvær gróft skornar gulrætur og nokkur hvítlauksrif í olíu með salti og pipar þar til mjúkt. Þá er að bæta við beinunum og svo setja vatn þangað til að það flýtur yfir beinin. Nokkur lárviðarlauf og láta suðuna koma upp. Þegar hitinn eykst fer brúnlituð froða að birtast á yfirborðinu - allir púritanar myndu fleyta henni ofan af sem ég og gerði. Hvað gerist geri maður þetta ekki er erfitt að segja - en soðið yrði gruggugra en ella - en hvort að það hefði áhrif á bragðið verða gáfaðri menn en ég að greina frá um.

sveppir

Svo var bara að sjóða beinin eins lengi og tími leyfði og síðan að sjóða vökvann niður um sjötíu prósent. Sía soðið og leggja til hliðar. Pabbi og mamma áttu furusveppi sem æskuvinur pabba, Diddi fiðla og kona hans Ásgerður, höfðu tínt í Borgarfirðinum. Þau höfðu þurrkað þá þannig að þá þurfti að bleyta í þeim með heitu vatni. Leiðbeiningar kveða á um að maður eigi síðan að henda vatninu - en slíkt finnst mér fásinna, þannig að það fékk að blandast soðinu. Til að drýgja sveppina hafði ég einnig keypt nokkra sveppi sem ég skar niður þunnt. Steikti sveppina upp úr smjöri ásamt furusveppunum.

kjöt

Næsta skref var að búa til smjörbollu; 90 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti hitað í potti og svo var soðinu hellt saman (1 1/2 lítra) við og hrært stöðugt. Sveppunum var bætt saman við og suðan látin koma upp. 250 ml af rjóma var síðan bætt saman við, saltað og piprað. Soðið niður í nokkrar mínútur þangað til að að sósan var þykk og falleg.

ágrillinu

Það þurfti ekki að gera mikið við nautakjötið. Það var nuddað upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo látið hvíla á meðan að kolin á tunnugrillinu hans föður míns hitnuðu. Steikurnar voru síðan grillaðar í 2 mínútur á hvorri hlið þangað til að þær voru eldaðar eins og best er (að mínu mati) - medium rare.

af grillinu

Ef þetta er ekki girnilegt þá veit ég ekki hvað!

pabbimeðbrokkál

Við suðum brokkál stutta stund, en það var splúnkunýtt frá Frú Laugu á Laugalæk (fann búðina á Facebook), í söltuðu vatni. Þá bjuggum við til einfalda ostasósu - bita af Ljúflingi, bita af blámygluosti, skvettu af rjóma og dálitlu (!) smjöri; sett á eld þangað til að osturinn var bræddur.

brokkálssósa

Brokkkálið var svo sett í eldfast mót og svo var ostasósunni hellt varlega yfir. Saltað vel og piprað.

brokkálmeðsósu
Grilluðum einnig kartöflur með matnum, fyrst voru þær forsoðnar í nokkrar mínutur í söltuðu vatni, svo hristar með smá olíu, salti og pipar og svo slengt á grillið í 15-20 mínútur þangað til að maturinn var tilbúinn.

kartöflur

Með matnum drukkum við algerlega stórfenglegt vín - Montes Alpha M frá því 2006 sem er vín frá Chile. Þetta er vín sem er að mestu leyti gert út Cabernet Sauvignion 80%, Cabernet Franc 10%, Merlot 5% og Verdot þrúgum. Þetta vín keypti ég í tollinum á leið til landsins - það er ekki gefins og ég hef aldrei lagt í að kaupa þetta áður - en mig hefur langað mjög lengi að prófa það. Þeir sem lesa bloggið mitt vita hversu hrifinn ég er af víni frá þessum framleiðenda. Ég held ég þurfi varla að tíuanda það - Montes Alpha Cabernet Sauvignion er eitt af mínum uppáhalds vínum frá því að ég byrjaði að drekka vín að einhverju viti. Þetta er dökkt vín í glasi - fallega þykkt og lekur af börmunum þegar því hefur verið velt í glasinu. Bragðið af dökkum ávöxtum, jafnvel útí lakkrís, djúpt eikað og með löngu eftirbragði. Hlakka til að drekka það aftur.

matur-1

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment