Thursday, 14 July 2011

Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri,rækjum og dásamlegri bláskel



sólarlagílækjakoti

Við höfum varið síðustu dögunum hérna í Lækjarkoti og hér hefur verið fullt hús gesta. Á föstudaginn ókum við feðgar til Reykjavíkur í leit að matföngum og fórum víða. Við komum við í fiskversluninni á Kirkjuteignum og sóttum keilu og blálöngu. Síðan stoppuðum við í Frú Laugu á Laugalæknum þar sem við sóttum bláskelina sem ég hef verið að dásama síðustu dagana. Pabbi átti humar og humarskeljar heima í Lönguhlíðinni sem við tókum einnig með okkur upp í sveit. Þessa súpu gerðum við feðgar saman - enda heitir súpan eftir því. Hún var elduð í sátt og samlyndi, svona að  mestu leyti - okkur greindi lítillega um hversu mikið af einu og öðru en náðum þó alltaf málamiðlun. Og úr varð þessi súpa ... sannkölluð óskasúpa.

Síðustu daga hef ég eldað og borðað mikið af fisk. Það á sér auðvitað einfalda skýringu. Það er vegna þess að íslenskur fiskur er svo ótrúlega góður. Þetta er eitt af því sem maður saknar mikið hérna úti. Ég hef oft skrifað um það áður. Þó reyna Svíar að bjóða upp á góðan fisk. En það er bara ekki hægt að keppa við þau gæði sem við höfum á Íslandi, að selja fisk sem var dregin upp úr hafinu daginn áður - eða um nóttina - ferskan strax daginn eftir.

Það var nóg um gesti í kotinu þennan dag. Auk mín og fjölskyldu minnar voru mamma og pabbi, tengdapabbi, mágkona mín og fjölskylda hennar, bróðir tengdapabba og konan hans ásamt barnabarni og svo vinafólk okkar með þrjú börnin sín. Þannig að hér var fullt hús af gleði. Og fátt passar betur í svona stórar óvæntar veislur en að elda súpu og brauð - og fátt betra. Og súpuuppskrift er alltaf hægt að stækka sársaukalaust.

Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri og dásamlegri bláskel


flatkakameðþorskalifur

Hráefnalisti

Blandað sjávarfang, t.d.keila, blálanga, bláskel, humar og rækjur.
2 stórir laukar
4-5 sellerísstangir
5-6  gulrætur
3-4 hvítlauksrif
2 handfylli af sveppum
4-5 greinar af timian
2-3 matskeiðum af olíu
Sallt og pipar
humarskel
4 l vatn
1 dós af tómatpúré
2 papríkur
2-3 vorlaukar
8-9 fallega sveppi
1 púrrulaukur
Engifer
Fiskikraftur
1 flaska hvítvín
750 ml rjómi
Knippi af timían
Garlic chilly sósa


Bjó til eldsnöggan forrétt handa gestunum. Þegar ég heimsótti Ísland í apríl þá gaf Vigdís vinkona mín mér að smakka birkireykta þorskalifur sem mér fannst afar ljúffeng. Ég hafði keypt nýjar flatkökur frá sveitabakaríinu Auðkúlu sem ég fékk í Frú Laugu í Laugalæknum (nýja uppáhaldsbúðin mín í Reykjavík) sem voru alveg sérlega bragðgóðar. Úr varð því þessi ákaflega einfaldi og rústík forréttur - flatkaka með birkireyktri þorskalifur og steinselju.

humarskel

Fyrsta skrefið í þessari súpugerð var að gera soð - það er eiginlega alltaf mikilvægasta skrefið í allri súpu eða sósugerð. Við áttum svo mikið af humarskel að það var ekkert annað í stöðunni en að gera kröftugt humarsoð.

soð

Við steiktum fyrst einn niðurskorinn stóran lauk, 2-3 sellerísstangir, 2-3 niðursneiddar gulrætur, nokkur hvítlauksrif, nokkra gamla niðursneidda sveppi og svo 4-5 greinar af timian í nokkrum matskeiðum af olíu. Saltað og piprað. Þegar þetta var orðið mjúkt og glájandi settum við fullt af humarskel í pottinn og steiktum í 5 mínútur þegar við bættum við einni dós af tómatpúré og steiktum áfram í fimm mínútur. Hrært vel í skelinni og hún mulin eins mikið og unnt var. Síðan var bætt við 4 lítrum af vatni, þannig að það flaut yfir, og suðan látin koma upp og þetta síðan soðið af krafti í 2-3 klukkustundir með lokið á. Síðan var soðið látið sjóða niður í 2/3 og svo síað og lagt til hliðar á meðan næstu skref eru stigin.

grænmeti

Við skárum síðan niður tvær sellerístangir smátt, einn heilan hvítan lauk, skárum tvær papríkur niður í þunna strimla, 2-3 gulrætur niður með skrælara, 2-3 vorlauka, 8-9 fallega sveppi og einn heilan púrrulauk. Og ekki má gleyma góðum bita af ferskum engifer! Grænmetið var fyrst steikt upp úr olíu þangað til að það var mjúkt og fallegt.

grænmetiísúpu

Þá bættum við saman við talsverðu magni af hvítvíni - kannski sem nemur heilli flösku og leyfðum áfenginu að sjóða burt. Þá helltum við soðinu saman við og leyfðum suðunni að koma upp á nýjan leik. Saltað og piprað. 750 ml af rjóma var hellt saman við og suðunni leyft að koma upp aftur. Smakkað til. Settum meiri fiskikraft, lauf af nokkrum greinum af timian, saltað og piprað og svo var nokkrum matskeiðum af chilli garlic sósu bætt saman við. Svona leikur maður sér þangað til að súpan sjálf er orðin bragðgóð.

fiskur2

Þegar maður sér fram á að fara að bera súpuna fram þá fer maður að bæta fisknum saman við. Fyrst keilunni og blálöngunni, svo bláskelinni, síðan humrinum og síðan var góðri handfylli af rækjum bætt saman við rétt áður en súpan var borin fram.

hvílíkfiskisúpa2

Fiskurinn tekur ekki nema 6-7 mínútur að eldast, humarinn 4-5 mínútur, bláskelinn eitthvað svipað og svo rækjurnar bara 2 mínútur. Skreytt með steinselju, eða öðru laufkryddi sem maður á út í glugga.

vafningsbrauð

Borið fram með heimagerði grilluðu brauði. Brauðið geri ég nær alltaf eins og hef margoft sett það inn á bloggið mitt. Fyrst að vekja ger í 300 ml af ylvolgu sykruðu (20 gr sykur) vatni. Blanda saman 500-700 gr af hveiti, 2,5 tsk af salti og 3 msk olíu í skál. Þegar gerið er vaknað er vökvanum hellt saman við. Hnoðað rækilega í 5-7 mínútur. Látið hefast þangað til að deigið hefur að minnsta kosti tvöfaldast. Svilkona mín, Inga Dóra, fékk síðan þessa fínu hugmynd að lemja deigið niður og deila niður í nokkra hluta, rúlla út í langa pulsu og síðan vefja í kringum birkigreinar. Penslað með olíu, saltað og piprað og svo grillað þangað til gullinbrúnt.

vafningsbrauðtilbúið

Með matnum drukkum við m.a. Peter Lehmann Layers hvítvín frá því 2010. Þetta vín er frá Ástralíu frá framleiðanda með sama nafni sem ég kann sérstaklega vel við. Þetta vín er blandað úr fimm ólíkum tegundum; Semillion, Chardonnay, Pinot gris, Sauvignion blanc og Muscat þrúgum. Þetta er ávaxtaríkt vín - pínulítið út í sætari kantinn og rann ljúflega niður með matnum. Þetta vín er líka á ansi góðu verði - undir tvö þúsund kall. Þannig að mér fannst ég fá mikið fyrir peninginn.

matur

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment