Sunday, 31 July 2011

Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrréttog pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum

norway.gif

Maður hefur eins og allur heimurinn horft dofinn af hryllingi á það sem átti sér stað föstudagseftirmiðdaginn þann 22. júlí í Noregi síðastliðinn. Að svona atburðir skulu geta átt sér stað í Noregi er erfitt að skilja! Maður fyllist þó lotningu og von þegar maður horfir á viðbrögð Norðmanna við þessum skelfilega atburði - hvernig þeir hafa staðið saman og sýnt að svona ofbeldi mun ekki brjóta þá á bak aftur. Ég mun aldrei gleyma setningu sem var sögð í kjölfarið - "Om en man kan visa så mycket hat, tänk hur mycket kärlek vi alla kan visa tillsammans" - Og þeir sýna kærleikann í verki. Lífið verður auðvitað að halda áfram. Við verðum að efla lýðræðið, opna okkar samfélög og tala gegn því hatri sem Norðmenn, kannski við öll, urðum fyrir.

Við höfum verið í sumarleyfi saman hérna í sunnanverðri Svíþjóð. Við erum búin að vera saman í sumarfríi síðan í byrjun júlí. Við höfum tekið því all rólega - ætluðum að njóta veðurblíðunnar sem vanalega er á þessum tíma árs. En veðrið hefur ekki beint leikið við okkur. Það hefur eiginlega verið skýjað og rignt stanslaust seinustu vikurnar - með tilheyrandi gleði. Einhver veðurfræðingur sagði í sjónvarpinu núna á föstudagskvöldið að Lundur hefði fengið versta sumarveðrið í júlí. Og ekki ljúga veðurfræðingar - sama hvað Bogomil Font og Flís hafa um þau mál að segja.

emilogyda.jpg

Við höfum reynt að vera dugleg. Ég fór pílagrímsför til Kaupinhafnar í uppáhaldsbúðina mína, hwl.dk, sem selur græjur í eldhúsið og verðlaunaði mig fyrir að hafa verið tvær vikur í héraði. Við hjónin erum að reyna að læra á línuskauta með Valdísi dóttur okkar. Við fórum með tengdamúttu á Ales steinanna við Kåseberga, fengum gamla vini okkar, Rakel og Zúnka í heimsókn, fórum með krakkana í skemmtigarðinn í Bakken, og svo brugðum við okkur til Smálandanna, með ömmu Lilju og afa Ingvari,  í seinustu viku og skoðuðum garð Astridar Lindgren. Mér fannst hann alveg stórkostlegur. Þegar maður hefur vaxið upp við bækurnar hennar var meiriháttar að fá að ganga í gengum Þyrnirósargarð frá Kirsuberjadal. Skoða Mattíasarkastala og sjá Ronju og Birki leika sér í skóginum. Ég held að ég hafi skemmt mér jafnvel og grísirnir mínir!

kantarella.jpg

Ég hef líka reynt að sinna eldhúsinu mínu eftir fremsta megni sem og nýja áhugamálinu mínu, sveppatýnslu. Ég hef reykt beikon, plokkað kantarellur og karljóhann sveppi, gert kjúklingasoð, tekið upp kartöflur, sinnt garðinum, tekið til í bílskúrnum, sett saman nýtt Weber grill, eldað á hverju kvöldi. En hef samt verið latur að blogga - en það stendur allt til bóta.

Já, og meðan ég man; Mig langar líka til að nota tækifærið og óska eftir athugasemdum. Fátt gleður manns heimska hjarta meira en þegar lesendur skilja eftir athugasemdir, vangaveltur eða spurningar um matinn eða eigin uppskriftir. Mér þætti vænt um að fleiri myndu skilja eftir nokkur orð hérna á síðunni minni.

Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrrétt og pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum

valdistricolore.jpg

Ég og Valdís höfum lengi ætlað að búa til mozzarellaost. Einhver hvíslaði því að okkur að slíkt væri ákaflega einfalt. Og það reyndist alveg hárrétt. Ég pantaði hráefni (sítrónusýru og ostasalt - ekki joðsalt) og bók frá www.cheesemaking.com. Fyrst setti ég 3,5 lítra af nýmjólk í pott og bætti saman við 1,5 tsk af sítrónusýru (leyst upp í 100 ml af vatni) og hrærði vel saman. Hitaði síðan upp í 32 gráður. Þá bætti ég við 1/4 töflu af rennet, uppleystri í 70 ml af vatni, og blandaði varlega saman við. Lét síðan blönduna standa í 5-10 mínútur og síðan skar í sundur osta"curdinn" og hitaði svo aftur upp, núna í 40 gráður. Hrærði saman og núna sér maður að osturinn hefur skilið sig frá "whey-inu". Osta-curdinn er síðan veiddur upp úr vökvanum og settur í skál. Vökvanum er hellt að mestu frá. Ég valdi síðan að setja ostinn í örbylgjuofninn í eina mínútu, hnoða síðan ostinn, hella vökvanum sem skilst frá úr skálinni. Endurtók þetta tvisvar sinnum, en hitaði ostinn minna í hvert sinn - 30 sek. Þegar osturinn fer að teygjast án þess að slitna er hann tilbúinn. Settur inn í kæli. Ég gerði ostinn nákvæmlega eftir leiðbeiningum Ricki Carroll - sem sýnir sína aðferð í vídeoinu hérna fyrir neðan.


Osturinn var síðan skorinn niður í þykkar sneiðar og raðað ofan á þykkar sneiðar af tómötum og svo skreytt basillaufi. Góðri jómfrúarolíu sáldrað yfir, smá balsamikedikskremi og svo auðvitað saltað og piprað.

tricolore_1101318.jpg

Kantarellurnar höfðum við týnt um morguninn í skógunum í kringum Sjöbo sem er á miðjum Skáni. Þar fundum við bæði kantarellur og kóngssveppi og nokkra aðra skilda pípusveppi. Við vorum ansi stolt af veiðunum.

kantarellur_1101320.jpg

Við fundum að minnsta kosti 2 1/2 líter af fallegum stórum kantarellum.

karljohan.jpg

Og svo nokkrar tegundir af pípusveppum - Nokkra geysistóra karljóhann sveppi. Stærðina má sjá af pennanum á myndinni.

brunsopp_1101323.jpg

Nokkra - Boletus Badíus (brunsopp á sænsku).

sandsopp.jpg

Og einnig nokkra sandsoppa (sandpíplusvepp? - á latínu Suillus variegatus)

Ég er búinn að vera að lesa um sveppatýnslu í nokkrum bókum - The Complete Mushroom Book eftir Antonio Carlucci, Mushrooms eftir John Wright og tilheyrir bókaseríu The River Cottage Handbooks og svo hef ég einnig stuðst við forrit í símanum sem ég keypti og kallast Svampguiden. Ég þekki núna fjóra sveppi með nokkru öryggi sem ég hef týnt mér til matar og hafa smakkast dásamlega. Fái einhver innblástur til sveppatýnslu af þessum lestri - þá þarf alltaf að fara varlega. Það er til heill hellingur af eitruðum sveppum sem ber að varast.

kantarelluraponnu.jpg

En víkjum nú aftur að matargerðinni. Fyrst var að hreinsa kantarellurnar og skera niður lítillega - en þó mikilvægt að hafa ágæta bita, þannig njóta sveppirnir sín betur. Steikti smátt skorinn lauk, ásamt nokkrum smátt skornum hvítlauksrifjum í smá olíu á miðlungs heitri pönnu. Bætti síðan sveppunum saman við og steikti þangað til að þeir voru mjúkir. Saltaði og pipraði. Lagði til hliðar.

kjuklingur_1101326.jpg

Tók nokkrar kjúklingabringur og lamdi út þangað til að þær voru um 1,5 sentimetra þykkar. Saltaði og pipraði og raspaði góðu lagi af parmaosti yfir. Steikti síðan á pönnu upp úr klípu af smjöri/olíu í fimm mínútur á hvorri hlið. Þegar kjúklingurinn var eldaður var hann lagður til hliðar í volgan ofn á meðan haldið var áfram með sósuna sem gerð var á pönnunni. Smávegis hveiti var hellt á pönnuna og hrært í til að búa til roux (smjörbollu), síðan skvettu af hvítvíni - sauð niður áfengið, svo bætti ég við 2-3 dl af nýju heitu kjúklingasoði á pönnuna og hræðri saman. Sveppunum var hellt út á pönnuna, 2-3 dl af rjóma, saltað og piprað. Soðið upp, smakkað til og bragðbætt eins og smekkur manns segir til. Síðan er kjúklingabringunum aftur bætt útí - hitað í gegn og borið fram í pönnunni.

isosunni.jpg

Með matnum vorum við einnig með nýjar kartöflur úr garðinum sem við höfðum tekið upp saman daginn áður. Það er meiriháttar, finnst mér, hvað grísirnir mínir höfðu gaman að því að taka upp kartöflurnar með mér.

_kartoflur.jpg

Kartöflurnar voru soðnar í söltuðu vatni í sex mínútur. Síðan settar í ofnskúffu með heitri andafitu og steiktar í smá stund, saltað og piprað og síðan sett inn í 200 gráðu heitan ofn í 30 mínútur.

salat_1101329.jpg

Með matnum gerði Valdís dóttir mín þetta fallega salat. Græn salatlauf úr garðinum, rauðar papríkur, vínber, rauðlaukur og svo niðurskorinn heimagerður mozzarellaostur. Smá olía, salt og pipar og balsamedik.

maturabor_um-1.jpg

Við drukkum gott vín með matnum. Terrazas de los Andes Malbec Reserva frá því árið 2008 sem er argentískt vín. Þetta vín er dökkt í glasi. Talsverður ávöxtur og krydd í nefið sem kemur líka fram í bragðinu. Gott eftirbragð - jarðbundið og langt. Gott vín sem er líka ágætt á veskið.

Bon appetit!

Tuesday, 19 July 2011

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli meðgráðaosti og heilbökuðum kartöflum




Eilífsdalur

Jæja - þetta verður síðasta færslan frá Lækjarkoti að sinni, því verr og miður. Þetta voru dásamlegir dagar í fallega Lækjarkotinu. Við vorum líka einkar veðurheppin, fengum íslenskt sumar rétt fyrstu dagana, en svo þegar komið var í Kjósina leit sólin fram úr skýjunum og dvaldi þar með okkur allan tímann. Og fátt er betra en íslensk sumarnótt, að sitja í heita pottinum og horfa út á spegilslétt Meðalfellsvatnið. Og halda svo veislur - mitt uppáhald.

Eins og kom fram í síðustu færslum vorum við með fullt hús gesta nær allan tímann. Og það var frábært. Þetta laugardagskvöld var engin undartekning - við vorum sennilega 12 fullorðin við borðið auk barna. Húsið var fullt af gleði, mat og góðum vínum. Svona eiga laugardagskvöld í sveitinni að vera.

Fórum og sóttum kjötið að Hálsi sem er í Kjósinni. Þar reka ábúendur litla verslun þar sem hægt er að kaupa vörur sem eru unnar á bænum, bæði nautakjöt og svo ýmsar sultur og fleira góðgæti sem húsfreyjan á bænum útbýr. Þetta er falleg lítil sveitaverslun og gaman að sjá að svona fyrirtæki þrífist. Hvet fólk til að líta þarna við.

á gítar

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli með gráðaosti, heilbökuðum kartöflum

furusveppir

Við fengum nokkur nautabein með steikunum okkar sem við notuðum í að undirbúa soðið fyrir sósuna. Fyrst var að nudda beinin með olíu, salta og pipra og svo setja á grillið við óbeinan hita í nokkrar mínútur til að brúna þau. Síðan var bara gert eins og á að gera, steikja gróft skorinn lauk, tvær sellerísstangir, tvær gróft skornar gulrætur og nokkur hvítlauksrif í olíu með salti og pipar þar til mjúkt. Þá er að bæta við beinunum og svo setja vatn þangað til að það flýtur yfir beinin. Nokkur lárviðarlauf og láta suðuna koma upp. Þegar hitinn eykst fer brúnlituð froða að birtast á yfirborðinu - allir púritanar myndu fleyta henni ofan af sem ég og gerði. Hvað gerist geri maður þetta ekki er erfitt að segja - en soðið yrði gruggugra en ella - en hvort að það hefði áhrif á bragðið verða gáfaðri menn en ég að greina frá um.

sveppir

Svo var bara að sjóða beinin eins lengi og tími leyfði og síðan að sjóða vökvann niður um sjötíu prósent. Sía soðið og leggja til hliðar. Pabbi og mamma áttu furusveppi sem æskuvinur pabba, Diddi fiðla og kona hans Ásgerður, höfðu tínt í Borgarfirðinum. Þau höfðu þurrkað þá þannig að þá þurfti að bleyta í þeim með heitu vatni. Leiðbeiningar kveða á um að maður eigi síðan að henda vatninu - en slíkt finnst mér fásinna, þannig að það fékk að blandast soðinu. Til að drýgja sveppina hafði ég einnig keypt nokkra sveppi sem ég skar niður þunnt. Steikti sveppina upp úr smjöri ásamt furusveppunum.

kjöt

Næsta skref var að búa til smjörbollu; 90 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti hitað í potti og svo var soðinu hellt saman (1 1/2 lítra) við og hrært stöðugt. Sveppunum var bætt saman við og suðan látin koma upp. 250 ml af rjóma var síðan bætt saman við, saltað og piprað. Soðið niður í nokkrar mínútur þangað til að að sósan var þykk og falleg.

ágrillinu

Það þurfti ekki að gera mikið við nautakjötið. Það var nuddað upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo látið hvíla á meðan að kolin á tunnugrillinu hans föður míns hitnuðu. Steikurnar voru síðan grillaðar í 2 mínútur á hvorri hlið þangað til að þær voru eldaðar eins og best er (að mínu mati) - medium rare.

af grillinu

Ef þetta er ekki girnilegt þá veit ég ekki hvað!

pabbimeðbrokkál

Við suðum brokkál stutta stund, en það var splúnkunýtt frá Frú Laugu á Laugalæk (fann búðina á Facebook), í söltuðu vatni. Þá bjuggum við til einfalda ostasósu - bita af Ljúflingi, bita af blámygluosti, skvettu af rjóma og dálitlu (!) smjöri; sett á eld þangað til að osturinn var bræddur.

brokkálssósa

Brokkkálið var svo sett í eldfast mót og svo var ostasósunni hellt varlega yfir. Saltað vel og piprað.

brokkálmeðsósu
Grilluðum einnig kartöflur með matnum, fyrst voru þær forsoðnar í nokkrar mínutur í söltuðu vatni, svo hristar með smá olíu, salti og pipar og svo slengt á grillið í 15-20 mínútur þangað til að maturinn var tilbúinn.

kartöflur

Með matnum drukkum við algerlega stórfenglegt vín - Montes Alpha M frá því 2006 sem er vín frá Chile. Þetta er vín sem er að mestu leyti gert út Cabernet Sauvignion 80%, Cabernet Franc 10%, Merlot 5% og Verdot þrúgum. Þetta vín keypti ég í tollinum á leið til landsins - það er ekki gefins og ég hef aldrei lagt í að kaupa þetta áður - en mig hefur langað mjög lengi að prófa það. Þeir sem lesa bloggið mitt vita hversu hrifinn ég er af víni frá þessum framleiðenda. Ég held ég þurfi varla að tíuanda það - Montes Alpha Cabernet Sauvignion er eitt af mínum uppáhalds vínum frá því að ég byrjaði að drekka vín að einhverju viti. Þetta er dökkt vín í glasi - fallega þykkt og lekur af börmunum þegar því hefur verið velt í glasinu. Bragðið af dökkum ávöxtum, jafnvel útí lakkrís, djúpt eikað og með löngu eftirbragði. Hlakka til að drekka það aftur.

matur-1

Bon appetit.


Thursday, 14 July 2011

Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri,rækjum og dásamlegri bláskel



sólarlagílækjakoti

Við höfum varið síðustu dögunum hérna í Lækjarkoti og hér hefur verið fullt hús gesta. Á föstudaginn ókum við feðgar til Reykjavíkur í leit að matföngum og fórum víða. Við komum við í fiskversluninni á Kirkjuteignum og sóttum keilu og blálöngu. Síðan stoppuðum við í Frú Laugu á Laugalæknum þar sem við sóttum bláskelina sem ég hef verið að dásama síðustu dagana. Pabbi átti humar og humarskeljar heima í Lönguhlíðinni sem við tókum einnig með okkur upp í sveit. Þessa súpu gerðum við feðgar saman - enda heitir súpan eftir því. Hún var elduð í sátt og samlyndi, svona að  mestu leyti - okkur greindi lítillega um hversu mikið af einu og öðru en náðum þó alltaf málamiðlun. Og úr varð þessi súpa ... sannkölluð óskasúpa.

Síðustu daga hef ég eldað og borðað mikið af fisk. Það á sér auðvitað einfalda skýringu. Það er vegna þess að íslenskur fiskur er svo ótrúlega góður. Þetta er eitt af því sem maður saknar mikið hérna úti. Ég hef oft skrifað um það áður. Þó reyna Svíar að bjóða upp á góðan fisk. En það er bara ekki hægt að keppa við þau gæði sem við höfum á Íslandi, að selja fisk sem var dregin upp úr hafinu daginn áður - eða um nóttina - ferskan strax daginn eftir.

Það var nóg um gesti í kotinu þennan dag. Auk mín og fjölskyldu minnar voru mamma og pabbi, tengdapabbi, mágkona mín og fjölskylda hennar, bróðir tengdapabba og konan hans ásamt barnabarni og svo vinafólk okkar með þrjú börnin sín. Þannig að hér var fullt hús af gleði. Og fátt passar betur í svona stórar óvæntar veislur en að elda súpu og brauð - og fátt betra. Og súpuuppskrift er alltaf hægt að stækka sársaukalaust.

Besta "like father like son" fiskisúpan með blálöngu, keilu, humri og dásamlegri bláskel


flatkakameðþorskalifur

Hráefnalisti

Blandað sjávarfang, t.d.keila, blálanga, bláskel, humar og rækjur.
2 stórir laukar
4-5 sellerísstangir
5-6  gulrætur
3-4 hvítlauksrif
2 handfylli af sveppum
4-5 greinar af timian
2-3 matskeiðum af olíu
Sallt og pipar
humarskel
4 l vatn
1 dós af tómatpúré
2 papríkur
2-3 vorlaukar
8-9 fallega sveppi
1 púrrulaukur
Engifer
Fiskikraftur
1 flaska hvítvín
750 ml rjómi
Knippi af timían
Garlic chilly sósa


Bjó til eldsnöggan forrétt handa gestunum. Þegar ég heimsótti Ísland í apríl þá gaf Vigdís vinkona mín mér að smakka birkireykta þorskalifur sem mér fannst afar ljúffeng. Ég hafði keypt nýjar flatkökur frá sveitabakaríinu Auðkúlu sem ég fékk í Frú Laugu í Laugalæknum (nýja uppáhaldsbúðin mín í Reykjavík) sem voru alveg sérlega bragðgóðar. Úr varð því þessi ákaflega einfaldi og rústík forréttur - flatkaka með birkireyktri þorskalifur og steinselju.

humarskel

Fyrsta skrefið í þessari súpugerð var að gera soð - það er eiginlega alltaf mikilvægasta skrefið í allri súpu eða sósugerð. Við áttum svo mikið af humarskel að það var ekkert annað í stöðunni en að gera kröftugt humarsoð.

soð

Við steiktum fyrst einn niðurskorinn stóran lauk, 2-3 sellerísstangir, 2-3 niðursneiddar gulrætur, nokkur hvítlauksrif, nokkra gamla niðursneidda sveppi og svo 4-5 greinar af timian í nokkrum matskeiðum af olíu. Saltað og piprað. Þegar þetta var orðið mjúkt og glájandi settum við fullt af humarskel í pottinn og steiktum í 5 mínútur þegar við bættum við einni dós af tómatpúré og steiktum áfram í fimm mínútur. Hrært vel í skelinni og hún mulin eins mikið og unnt var. Síðan var bætt við 4 lítrum af vatni, þannig að það flaut yfir, og suðan látin koma upp og þetta síðan soðið af krafti í 2-3 klukkustundir með lokið á. Síðan var soðið látið sjóða niður í 2/3 og svo síað og lagt til hliðar á meðan næstu skref eru stigin.

grænmeti

Við skárum síðan niður tvær sellerístangir smátt, einn heilan hvítan lauk, skárum tvær papríkur niður í þunna strimla, 2-3 gulrætur niður með skrælara, 2-3 vorlauka, 8-9 fallega sveppi og einn heilan púrrulauk. Og ekki má gleyma góðum bita af ferskum engifer! Grænmetið var fyrst steikt upp úr olíu þangað til að það var mjúkt og fallegt.

grænmetiísúpu

Þá bættum við saman við talsverðu magni af hvítvíni - kannski sem nemur heilli flösku og leyfðum áfenginu að sjóða burt. Þá helltum við soðinu saman við og leyfðum suðunni að koma upp á nýjan leik. Saltað og piprað. 750 ml af rjóma var hellt saman við og suðunni leyft að koma upp aftur. Smakkað til. Settum meiri fiskikraft, lauf af nokkrum greinum af timian, saltað og piprað og svo var nokkrum matskeiðum af chilli garlic sósu bætt saman við. Svona leikur maður sér þangað til að súpan sjálf er orðin bragðgóð.

fiskur2

Þegar maður sér fram á að fara að bera súpuna fram þá fer maður að bæta fisknum saman við. Fyrst keilunni og blálöngunni, svo bláskelinni, síðan humrinum og síðan var góðri handfylli af rækjum bætt saman við rétt áður en súpan var borin fram.

hvílíkfiskisúpa2

Fiskurinn tekur ekki nema 6-7 mínútur að eldast, humarinn 4-5 mínútur, bláskelinn eitthvað svipað og svo rækjurnar bara 2 mínútur. Skreytt með steinselju, eða öðru laufkryddi sem maður á út í glugga.

vafningsbrauð

Borið fram með heimagerði grilluðu brauði. Brauðið geri ég nær alltaf eins og hef margoft sett það inn á bloggið mitt. Fyrst að vekja ger í 300 ml af ylvolgu sykruðu (20 gr sykur) vatni. Blanda saman 500-700 gr af hveiti, 2,5 tsk af salti og 3 msk olíu í skál. Þegar gerið er vaknað er vökvanum hellt saman við. Hnoðað rækilega í 5-7 mínútur. Látið hefast þangað til að deigið hefur að minnsta kosti tvöfaldast. Svilkona mín, Inga Dóra, fékk síðan þessa fínu hugmynd að lemja deigið niður og deila niður í nokkra hluta, rúlla út í langa pulsu og síðan vefja í kringum birkigreinar. Penslað með olíu, saltað og piprað og svo grillað þangað til gullinbrúnt.

vafningsbrauðtilbúið

Með matnum drukkum við m.a. Peter Lehmann Layers hvítvín frá því 2010. Þetta vín er frá Ástralíu frá framleiðanda með sama nafni sem ég kann sérstaklega vel við. Þetta vín er blandað úr fimm ólíkum tegundum; Semillion, Chardonnay, Pinot gris, Sauvignion blanc og Muscat þrúgum. Þetta er ávaxtaríkt vín - pínulítið út í sætari kantinn og rann ljúflega niður með matnum. Þetta vín er líka á ansi góðu verði - undir tvö þúsund kall. Þannig að mér fannst ég fá mikið fyrir peninginn.

matur

Bon appetit!

Thursday, 7 July 2011

Heilgrillaður Hagavatnsurriði með sítrónuhollandaise og einföldumsoðnum kartöflum í Lækjarkoti


eldaðundirbláumhimni

Við erum búin að vera í eindæma góðu yfirlæti núna seinustu daga. Eins og ég nefndi í síðustu færslu þá erum við stödd á Íslandi um þessar mundir umvafin uppáhaldsfólkinu okkar; fjölskyldu og vinum. Mikið höfum við það gott! Það er alltaf gott að vera saknað en á á sama tíma verður maður pínu hryggur vegna alls þess sem maður missir af. En svona er það nú - og þá er ekkert annað að gera en að njóta þess tíma sem maður á með vinum sínum... er það ekki?

Vinir okkar, Vigdís og Bassi, keyptu hús við Bergstaðastræti nýverið og þarfnast mikilla viðgerða. Þau hafa unnið sleitulaust í húsinu seinustu vikur og mánuði og við höfum fylgst spennt með þeim í gegnum fésbókina. Núna um helgina höfum við fengið að aðstoða þau í garðinum en hann var vaxinn þéttum kerfli sem hafði tekið ástfóstri við bakgarðinn. Aldrei hafði ég séð annað eins. Hvílíkt rótarkerfi - maður fyllist bara lotningu fyrir þessu illgresi. Við grófum upp eins mikið og unnt var, síðan lögðum við dagblaðapappír yfir, svo moldarlag og því næst var tyrft yfir ósköpin. Vonum að þetta dugi til að uppræta þessa árans plöntu - sem er reyndar vinsæl til matargerðar, sér í lagi í franskri matargerð. Hefur sætt anísbragð!

urriðitilundirbúnings

Seinnipartinn í gær fórum við að útrétta og ég sótti fisk í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum. Mér finnst hún alveg frábær. Lenti á spjalli við fisksalann og við urðum sammála því að það væri skynsamlegast að prófa urriða sem hafði verið veiddur í net í Hagavatni stuttu áður. Við keyrðum síðan í glampandi sól sem leið lá upp í sumarhús foreldra minna við Meðalfellsvatn í Kjós. Ég og faðir minn slógum upp útieldhúsi - blíðan var þvílík - og þá er best að elda utandyra.

Það var líka sérlega gaman að börnin mín, Villi og Valdís og frændi þeirra Marteinn, gátu verið með mér í eldhúsinu. Þau voru spennt að fá að hjálpa til. Og ég var sérstaklega stoltur af dóttur minni sem hélt vel á spöðunum og stýrði verkinu af miklum sóma og skipaði bróður sínum og frænda fyrir í matseldinni. Við grilluðum fiskinn í stórri tunnu sem pabbi minn lét útbúa einhvern tíma fyrir löngu síðan en hefur lítið notað.

fiskur í Portugal

Hugmynd af þessum rétt er fengin úr nokkrum áttum; þegar ég var í Porto í Portúgal á ráðstefnu í byrjun apríl fórum gengum niður á höfn og settumst á fátæklegan veitingastað þar sem fiskurinn var grillaður úti á götu - hreint út sagt stórkostlegur. Síðan hafði ég einhvern tíma gert lax "en papillote" með karmelliseruðum sítrónusneiðum, sjá hér, og svo sá ég þennan girnilega urriða í borðinu hjá vinum mínum á Sundlaugaveginum. Og svona fór um sjóferð þá...

Heilgrillaður Hagavatnsurriði með sítrónuhollandaise og einföldum soðnum kartöflum í Lækjarkoti

ValdísogVilli

Það þarf vart að hafa mörg orð um eldamennsku eins og þessa - svo einföld var hún! Fyrst var auðvitað að setja upp þetta útieldhús - en það voru fá og snör handtök og pabbi og ég vorum ekki lengi að því (það tók svo lengri tíma að ganga frá - en það er önnur saga).

sítrónur

Það næsta sem var á dagskrá var að skera niður nokkrar sítrónur og steikja upp úr smjörklípu á pönnu, þar til þær tóku á sig gullinn lit og síðan leggja til hliðar í smástund á meðan fiskurinn er undirbúinn.

troðnirfiskar

Fiskarnir voru síðan þvegnir og þurrkaðir. Saltaðir og pipraðir að innan og síðan settar nokkrar sítrónusneiðar ásamt smá knippi af steinselju. Saltaðir vel að utan. Hita grillið vel og rækilega.

komnirágrillið

Fiskurinn er síðan grillaður við blússhita yfir kolum í fínu tunnunni hans föður míns. Ætli það hafi ekki tekið um 7-10 mínútur á hvorri hlið - það er lítið mál að sjá hvenær fiskurinn er tilbúinn, bara að kroppa aðeins í hann. Kosturinn við að elda fiskinn heilan er líka sá að það eru minni líkur að hann verði þurr - beinin og skinnið verja hann mögulegum mistökum kokksins.

þjóðernisást

Hollandaisesósan, sem er ein af móðursósunum í franskri matargerð, er gerð á eftirfarandi hátt (mín útgáfa er ekki eins og hin upprunalega - í sveitinni svindlar maður). Ein matskeið af dijon sinnepi er sett í skál ásamt sex eggjarauðum. 50 ml af rjóma er bætt saman við (púritanar munu eitthvað segja við þessu - en almennt er rjómi ekki notaður í smjörsósur) og síðan er einn teningur af fiskikrafti mulinn saman við. Hrært saman. Sett yfir vatnsbað og þegar blandan er farin að hitna og þykkna er teningum af köldu smjöri bætt saman við einn og einn í senn - samtals kannski 300 gr af smjöri (ég veit - mikið smjör!- það væri hægt að nota creme fraiche- ég hef gert bernaise með bara creme fraiche en slíkt var ekki til hérna í bústaðnum, sjá hér). Það verður að gæta sérstaklega að því að hita ekki sósuna um of - þar sem þá munu ekki eldast og verða að ommilettu. Það þarf því að halda í skálinu til að finna hversu heit hún er - hræra stöðugt - taka skálina af hitanum þegar maður finnur að hún er að ofhitna - og tempra hitann með því að bæta við smjöri. Og þá er ekkert mál að búa þessa sósu til.

Síðan setti ég nokkrar matskeiðar af ferskum nýkreistum sítrónusafa. Nú er mikilvægt að smakka sig æafran, salta og pipra eftir smekk.

sítrónuhollandaise

Kartöflurnar voru síðan soðnar eins og lög gera ráð fyrir. Settar í skál og velt upp úr smáræði af olíu og saltað og piprað.

grillaður

ChablisMeð matnum drukkum við þetta ágæta Chablis vín sem Snædís sótti í ÁTVR. Öll Chablisvín koma frá svæðinu í kringum smábæinn Chablis sem er í norðanverðu Búrgúndarhéraði. Þetta vín er framleitt af vínsamlagi þrjúhundruð vínbænda sem búa í kringum bæinn. Vínið fær nafn sitt einmitt frá ánni La Sereine sem rennur framhjá bænum. Bærinn er geysifagur. Við vorum þarna á ferðinni í fyrra þegar við ókum um norðausturhluta Frakklands í húsbíl. Eitt besta kvöldið var þegar við gistum í Chablis og eldaðuðum þennan gómsæta kjúklingarétt, sjá hér. En ég ætlaði að skrifa um þetta prýðisgóða La Chablisienne La Sereine Chablis frá því 2007. Þetta vín er fallega ljósgult á litin, sítrónukeimur ásamt léttum ávexti á tungu, smá sýra. Mjög gott hvítvín sem passaði vel með matnum.

komniráfat

Bon appetit!