Tuesday, 24 May 2011

Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum,hrísgrjónum og einfaldri sósu



Það eru búið að vera ljúft að vera í Lundi þessa seinustu daga. Seinustu helgi vorum við með götuveislu í Púkagrandanum líkt og í fyrra. Þetta var sannkölluð fjölskylduhátíð. Við byrjuðum að undirbúa þetta fyrir næstum tveimur mánuðum síðan. Þátttakan var alveg frábær og dagurinn heppnaðist alveg stórvel. Bæði ungir sem aldnir voru ánægðir með daginn. Geri betur grein fyrir því í næstu færslu.

Annars erum við hjónin ansi spennt. Við splæstum í ferð til Parísar í næstu viku. Erum búin að velja skemmtilegt hótel nálægt Eiffelturninum og erum að kortleggja hvað við ætlum að kíkja á og hvaða veitingastaði við ætlum að heimsækja. Það er búið að vera draumur okkar lengi að heimsækja París. Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að sjá að ég er ekki lítið snortinn af franskri matargerð og matarhefð. Frakkar kunna þetta!

Ég er auðvitað pínulítið stressaður, með ferðina, með þetta eldgos vofandi yfir mér - og ég vona auðvitað að þetta hafi ekki eins víðtæk áhrif og í fyrra þegar Evrópa lamaðist í rúma viku. Tók eftir frétt í morgun, að flugmenn Ryanair flugu í gegnum rauða svæðið í kringum Skotland og sáu hvorki ösku, þoku og ekki varð flugvélin fyrir neinu tjóni. Sjáum hvað setur - og vonum að eldfjallið fari nú að slaka á. Óska öllum þeim sem búa suður af Vatnajökli það besta - það fólk þarf raunverulega að líða fyrir þessar náttúruhamfarir. Mínar kvartanir eru auðvitað bara hjómið eitt í samanburði við það sem lagt er á það góða fólk. Gangi ykkur vel!





Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum, hrísgrjónum og einfaldri sósu
Þetta er réttur sem er fljótlegur og fantagóður. Hann er eiginlega tilbúinn á rétt rúmum tuttugu mínútum. Fyrst er að huga að því að setja hrísgrjónin yfir. Þau taka tæplega því tuttugu mínútur - þau eru auðvitað bara soðin eftir leiðbeiningum.



Næsta skref er að bræða tvær matskeiðar af smjöri og smávegis af jómfrúarolíu í heitri pönnu. Á meðan það er að bráðna - er kjúklingur flattur út í tæplega tveggja sentimetra þykkar sneiðar. Þetta er hægt að gera með kjöthamri, eigi maður engan slíkan þá getur maður bara lamið hann með nærlægu áhaldi - þung panna gerir alveg sama gagn. Smá ábending: hyljið bringurnar með plastfilmu eða setjið í poka áður en þig lúskrið á þeim - annars endar kjúklingasafinn útum allt. Síðan er kjúklingurinn saltaður og pipraður og smávegis af sætu papríkudufti sáldrað yfir og svo er bringunum skellt út í heita pönnuna og steikt í fimm mínútur á hvorri hlið.



Hitið 200 ml af vatni og setjið útí 1/2 - 1 tening af kjúklingakrafti - látið suðuna koma upp og geymið þangað til að búið að er að steikja kjúklinginn. Í öðrum potti hitið hálfan líter af vatni og þegar suðan er kominn upp, saltið vatnið og setjið tvö handfylli af strengjabaunum. Sjóðið skv. leiðbeiningum - þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur. Þegar baunirnar eru soðnar, hellið vatninu frá og setjið í skál. Síðan er smá skvettu af olíu blandað saman við, smá saxaðri ferskri steinselju, myntu og salti og pipar.



Girnilegt?!

Þegar kjúklingurinn er gegnumsteiktur er hann lagður til hliðar í eitt augnablik á meðan sósan er gerð. Það er auðvitað ekkert að því að setja kjúklinginn í heitan ofn (70 gráður) á meðan maður eldar sósuna. Fyrst setur maður 2 msk af hveiti á pönnuna og hrærir saman við fituna í pönnunni - við það verður til smjörbolla sem þarf að elda í nokkrar mínútur, til þess að elda burtu hveitibragðið. Síðan hellir maður kjúklingasoðinu saman við, smávegis í einu, og hrærir vandlega. 2 msk af creme fraiche hrært saman við, safa úr hálfri sítrónu, salti og pipar. Soðið í nokkrar mínútur.

Með matnum fengum við okkur hvítvínsglas. Í þetta sinnið fengum við okkur vín frá Nýja Sjálandi - Cloudy Bay Sauvignion Blanc frá því 2008. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Létt og gott vín - ávaxtaríkt á tungu með frískandi eftirbragði. Þetta vín passaði vel með matnum - sem var líka léttur og góður.



Tími til að njóta!



No comments:

Post a Comment