Monday, 30 May 2011

Mögnuð GRILLVEISLA fyrir hundrað manns; Naut, lamb, kjúklingur -bulgursalat, taichiki, pestó og heimagert brauð



Núna um seinustu helgi var hin árlega götuveisla Púkagrandans (núna má maður segja árlega þar sem þetta var í annað sinn hún var haldin!). Ég var meðstjórnandi í undirbúningsnefndinni sem í ár var undir stjórn Latífu í húsi nr. 36 og svo Signýjar Völu kollega míns úr húsi númer 7. Auðvitað komu fleiri nágrannar að skipulagi þessarar hátíðar. Ég gerði fátt annað en að huga að matnum og naut auðvitað liðsinnis Latífu, sem er kokkur. Það má líka snúa þessu við og segja að ég hafi liðsinnt henni - allaveganna unnum við ákaflega vel saman.



Þeir sem fylgjast með blogginu muna kannski eftir því að ég gerði grein fyrir veislunni í fyrra. Þá elduðum við heilgrillað lamb, nokkur lambalæri og svo hamborgara fyrir börnin. Veislan heppnaðist vel og það var sérstaklega gaman að fá að kynnast nágrönnum sínum svona vel. Í fyrra eignuðust við góða vini sem við höfum hitt reglulega síðan í fyrra. Alveg frábært.



Undirbúningurinn hefur líka verið skemmtilegur - við hittumst nokkrum sinnum vikunum fyrir stóra daginn og skipulögðum og deildum niður verkefnum. Svíar kunna að skipuleggja betur en flestir. Í götunni eru um 35 hús og 26 fjölskyldur voru skráðar til þátttöku. Við vorum með fjölbreytilega leiki fyrir börnin, hoppukastala sem vakti mikla gleði og svo auðvitað sameiginlegan kvöldverð. Við nutum einnig lifandi tónlistar. Þetta var stórskemmtilegt.

Mögnuð GRILLVEISLA fyrir hundrað manns; Naut, lamb, kjúklingur - bulgursalat, taichiki, pestó og heimagert brauð



Latífa sá um að panta inn allan mat í gegnum eldhúsið sem hún rekur. Á fimmtudagskvöldið komu Latífa og Signý Vala í heimsókn til mín og þá var sko brett upp ermarnar. Allt kjöt var hreinsað og þurrkað og lagt í ólíkar marineríngar.



Lambið var marinerað í olíu, hvítlauk, rósmaríni, rauðum chilli, sítrónusafa ásamt berkinum og auðvitað fullt af salti og pipar.




Nautið var marinerað í smáttskornum lauk, olíu, heilum helling af papríkudufti, salti og pipar.



Kjúklingabringurnar voru síðan marineraðar í thai sweetchilli sósu, hvítlauk, olíu, salti og pipar.




Svo gerðum við einnig marineraðar ólífur. Við höfðum keypt stóran dúnk af ólífum sem við veltum upp úr olíu, salti, pipar, chilli og svo kúmeni. Dúndurgóð og kraftmikil kryddolía.



Maturinn var settur í stór ílát og geymdur í ískáp þangað til á laugardagsmorguninn. Um morguninn söfnuðust nokkrir galvaskir karlar úr hverfinu og byrjuðu að setja upp tjaldið. Ég varði mestum hluta morgunsins í að útbúa grillið. Í þetta sinn var ekki eins ríkulegt úrval af steinum í boði eins og í fyrra þannig að ég brá á það ráð að grafa holu. Grindina átti ég frá því í fyrra.



Við fengum steina frá Hans Örtegren og Jóni Þorkeli. Ég klæddi síðan holuna að innan með álpappír. Reistum síðan útieldhús, gerðum smá skjólvegg. Og svo var ekkert annað að gera en að kveikja upp og byrja að grilla.


Á meðan nokkrir fullorðnir stóðu vaktina yfir grillinu fengu börnin að leika sér!



Hoppukastalar eru frábærir!



Latífa hafði yfirumsjón með brauðgerðinni. Hún fékk hjálp við frá Signýju og Snædísi. Fyrst vakti hún pressuger í skál, blandaði saman við mjólk, vatni, sírópi og salti og leyfði þessu að blandast í nokkrar mínútur í hrærivél. Síðan hellti hún mestmegnis hveiti, smá hveitihlíð og haframjöli rólega saman við þangað til að hún var kominn með fallegan deigklump. Sem fékk síðan að hefast í nokkrar klukkustundir.



Það er erfitt að segja nákvæmlega til með hlutföll þar sem Latífa eldar mest með hjartanu. Ætli hún hafi ekki sett 500 gr af vökva (blöndu af mjólk og vatni), einn klump af pressugeri, 2-3 msk af sírópi, 1 msk af salti og síðan 1-1,5 líter af hveiti - mest hvítu hveiti og svo kannski fjórðung hveitiklíð/heilhveiti. Ein svona blanda var nóg fyrir 2 brauðhleifa og mér finnst líklegt að við höfum bakað að minnsta kosti 20 brauðhleifa þegar allt kom til alls. Svo gerðu þær líka heilan helling af baguettum ekki með svo ólíkri uppskrift nema hvað það var einvörðungu notað hvítt hveiti. Deigið fékk að hefast í nokkrar klukkustundir áður en það var mótað í brauðhleifa, leyft að hefast aftur í að minnsta kosti þrjú korter áður en það var sett í heitan ofninn. Latífa vill ekki baka í blástri heldur einungis með "convection" - hún segir að brauðið bakist rólegar við það og verði betri. Það hlýtur bara að vera rétt því að brauðin voru stórkostlega vel heppnuð!



Ég sá um að útbúa tómatblönduna fyrir brúsketturnar og gerði það í litla útieldhúsinu sem við höfðum útbúið. Það er ljúft að standa útí í sólinni og elda. Og ekkert finnst mér segja "sumar" meira en bruchettur með fallegum rauðum sætum tómötum, basilíku, steinselju, góðri jómfrúarolíu og salti og pipar. Fátt er meira frískandi.



Við grilluðum fyrst brauðið í eitt augnablik á hvorri hlið og svo var tómatblöndunni raðað ofan á og svo var snittunum dreift í mannskapinn.



Stina í húsi númer 6 gerði bulgursalatið - Nóg af iceberg salati, tómötum, gúrku, papríku og svo bulgur. Latífa sá einnig um að gera taichiki sósuna, blöndu af jógúrt, smáttskornum hvítlauk, agúrku, salt, pipar og smá síróp fyrir til að fá smá sætu. Svo var einnig gert pestó úr olíu, sólkjarnafræjum, steinselju, salti og pipar.



Við drukkum með matnum úr búkollum sem höfðu verið sóttar yfir Eyrarsundið. Og auðvitað gátu menn síðan unnið á þorsta sínum með dönsku öli. Það hafði auðvitað verið sótt í sömu veifann!



Það virtist vera almenn ánægja með matinn. Hann brann aðeins að utan. Þetta voru nú stórar steikur eins og sést á myndunum en ekkert var að því sem var fyrir innan. Kjötið var að mínu mati fullkomlega eldað - en var notaður hitamælir sem sagði til um hvenær kjötið var tilbúið undir hnífinn og ofan í gestina. Þannig klúðrar maður öngvu! Nágrannar okkar virtust alltént kunna að meta matinn.

Sjáumst að ári.




Bon appetit!

Thursday, 26 May 2011

Gómsætt heimagert Gnocchi di Patate með heimagerðu Pestó



Það er langt síðan að ég gerði gnocchi síðast. Og það var meira að segja svo að ég bloggaði um það þegar ég gerði það seinast. Það var haustið 2007 og þá gerði ég gnocchi á sama hátt og nú nema hvað þá gerði ég afar einfalda og ljúffenga tómatsósu. Í þetta sinnið hafði ég gert heimagert pestó sem ég notaði á lambalæri og setti á bloggið mitt ekki fyrir svo löngu, sjá hér. Þar sem ég geri eiginlega alltaf of mikið var dálítill afgangur af pestóinu. Einhverjum dögum síðar átti ég síðan afgang af kartöflum og þá var ekki eftir neinu að bíða.

Þessum rétti kynntumst við fyrst þegar við vorum á ferðalagi um Piemonte hérað í norðanverðri Ítalíu fyrir 12 árum síðan. Þar er gnocchi algengur matur. Það var alger tilviljun að ég pantaði mér þennan rétt - ég hélt að ég hefði pantað pastað sem heitir sama nafni en fékk í stað þess skál með litlum kúlum hjúpuðum sósu. Gnocchi er öðruvísi undir tönn en pasta, mjúkt og deigkennt og að mér finnst -afar ljúffengt.

Það að gera hveitibollur - dumplings - er auðvitað engin nýjung og hefur verið gert flestum löndum síðastliðinn tvö þúsund ár. Kartöflupasta er hinsvegar nýrra á nálinni og var fyrst gert á sextándu öld þegar Spánverjar höfðu komið með kartöflur til ræktunar frá ferðum sínum til Suður Ameríku. Þá varð til þetta pasta - Gnocchi di Patate.

Gnocchi di patate með heimagerðu pestói


Hráefnalisti

1 kg kartöflur
 2 egg
1 msk jómfrúarolía
Salt og pipar
2 msk parmesan ostur
150 gr hveiti

Pestó

3 basillíkuplöntur
Handfylli ristaðar furuhnetur
70-100 gr grana padano ostur
Salt og pipar
2-3 msk jómfrúarolía


Í þetta skipti gerði ég hefðbundið kartöflupasta en það má gera eins og þessi uppskrift kveður á um með kartöflum og hveiti en það er vel hægt að blanda við pastadeigið, ricottaosti, sætum kartöflum, spínati, kryddjurtum eða það sem manni dettur í hug. Það er líka gaman að því að Valdís, dóttir mín, átti ekki í miklum vandræðum með að taka þátt gnocchigerðinni.

Eitt kíló af mjölmiklum kartöflum er soðið eins og vant er í söltuðu vatni. Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt frá og kartöflurnar flysjaðar og stappaðar. Við kartöflurnar er bætt 2 eggjum, 1 msk af jómfrúarolíu, smá Maldon salti og nýmöluðum pipar, 2 msk af nýrifnum parmesan osti og síðan 150 gr af hveiti (stundum þarf að bæta við meira hveiti til að deigið verði þétt). Hráefnunum er svo blandað vel saman og hnoðað í fremur þykkt deig. Smá bútar er klipnir af deiginu og hver bútur rúllaður út í langa pulsu, skorinn niður í munnbitastóra bita og rúllað varlega með gafli.



Kartöflupastað er soðið í miklu söltuðu vatni, pastað sekkur til botns og þegar það er tilbúið flýtur það upp á yfirborðið. Þá er það veitt upp úr (helst með götóttri skeið - þannig að vatnið lekið af.



Pestógerð er leikur einn. Það má nánast nota hvaða grænu lauf sem er og eiginlega hvaða hnetur sem er. Ég hef gert pestó úr basilíku, steinselju, klettasalati, kóríander, líka úr blöndu af hinu og þessu - m.a. notað smá rósmarín og timían - allt verður þetta þrusugott. Að nota ristaðar furuhnetur er líka klassíker, en það má líka sleppa því að rista þær eða nota aðrar tegundir af hnetum t.d. valhnetur eða pekanhnetur. Í þetta sinn gerði ég hefðbundið pestó; notaði lauf af þremur basillíkuplöntum, handfylli af ristuðum furuhnetum, 70-100 gr af rifnum grana padano osti, salt og pipar og svo auðvitað jómfrúarolíu þangað til að maður er komið með þá þykkt sem maður vill.

Með matnum vorum við bara með hvítvínstár úr búkollu. Við drukkum Drostdy-Hof Chardonnay Voigner úr búkollu. Ég kaupi nokkuð oft vín frá þessum framleiðanda. Þetta eru alltaf ansi góð kaup - gott verð. Þetta er vín frá Suður Afríku. Þetta er ljómandi gott vín á búkollu - mildur gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Ísskalt og frískandi.Bárum einnig heitan brauðhleif fram með matnum. Bara svona hleif sem maður kaupir hálfbakaðan, penslar með smá vatni og bakar þar til gullinbrúnt. Einfalt.



Bon appetit

Tuesday, 24 May 2011

Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum,hrísgrjónum og einfaldri sósu



Það eru búið að vera ljúft að vera í Lundi þessa seinustu daga. Seinustu helgi vorum við með götuveislu í Púkagrandanum líkt og í fyrra. Þetta var sannkölluð fjölskylduhátíð. Við byrjuðum að undirbúa þetta fyrir næstum tveimur mánuðum síðan. Þátttakan var alveg frábær og dagurinn heppnaðist alveg stórvel. Bæði ungir sem aldnir voru ánægðir með daginn. Geri betur grein fyrir því í næstu færslu.

Annars erum við hjónin ansi spennt. Við splæstum í ferð til Parísar í næstu viku. Erum búin að velja skemmtilegt hótel nálægt Eiffelturninum og erum að kortleggja hvað við ætlum að kíkja á og hvaða veitingastaði við ætlum að heimsækja. Það er búið að vera draumur okkar lengi að heimsækja París. Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að sjá að ég er ekki lítið snortinn af franskri matargerð og matarhefð. Frakkar kunna þetta!

Ég er auðvitað pínulítið stressaður, með ferðina, með þetta eldgos vofandi yfir mér - og ég vona auðvitað að þetta hafi ekki eins víðtæk áhrif og í fyrra þegar Evrópa lamaðist í rúma viku. Tók eftir frétt í morgun, að flugmenn Ryanair flugu í gegnum rauða svæðið í kringum Skotland og sáu hvorki ösku, þoku og ekki varð flugvélin fyrir neinu tjóni. Sjáum hvað setur - og vonum að eldfjallið fari nú að slaka á. Óska öllum þeim sem búa suður af Vatnajökli það besta - það fólk þarf raunverulega að líða fyrir þessar náttúruhamfarir. Mínar kvartanir eru auðvitað bara hjómið eitt í samanburði við það sem lagt er á það góða fólk. Gangi ykkur vel!





Pottþéttar pönnusteiktar kjúklingabringur með strengjabaunum, hrísgrjónum og einfaldri sósu
Þetta er réttur sem er fljótlegur og fantagóður. Hann er eiginlega tilbúinn á rétt rúmum tuttugu mínútum. Fyrst er að huga að því að setja hrísgrjónin yfir. Þau taka tæplega því tuttugu mínútur - þau eru auðvitað bara soðin eftir leiðbeiningum.



Næsta skref er að bræða tvær matskeiðar af smjöri og smávegis af jómfrúarolíu í heitri pönnu. Á meðan það er að bráðna - er kjúklingur flattur út í tæplega tveggja sentimetra þykkar sneiðar. Þetta er hægt að gera með kjöthamri, eigi maður engan slíkan þá getur maður bara lamið hann með nærlægu áhaldi - þung panna gerir alveg sama gagn. Smá ábending: hyljið bringurnar með plastfilmu eða setjið í poka áður en þig lúskrið á þeim - annars endar kjúklingasafinn útum allt. Síðan er kjúklingurinn saltaður og pipraður og smávegis af sætu papríkudufti sáldrað yfir og svo er bringunum skellt út í heita pönnuna og steikt í fimm mínútur á hvorri hlið.



Hitið 200 ml af vatni og setjið útí 1/2 - 1 tening af kjúklingakrafti - látið suðuna koma upp og geymið þangað til að búið að er að steikja kjúklinginn. Í öðrum potti hitið hálfan líter af vatni og þegar suðan er kominn upp, saltið vatnið og setjið tvö handfylli af strengjabaunum. Sjóðið skv. leiðbeiningum - þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur. Þegar baunirnar eru soðnar, hellið vatninu frá og setjið í skál. Síðan er smá skvettu af olíu blandað saman við, smá saxaðri ferskri steinselju, myntu og salti og pipar.



Girnilegt?!

Þegar kjúklingurinn er gegnumsteiktur er hann lagður til hliðar í eitt augnablik á meðan sósan er gerð. Það er auðvitað ekkert að því að setja kjúklinginn í heitan ofn (70 gráður) á meðan maður eldar sósuna. Fyrst setur maður 2 msk af hveiti á pönnuna og hrærir saman við fituna í pönnunni - við það verður til smjörbolla sem þarf að elda í nokkrar mínútur, til þess að elda burtu hveitibragðið. Síðan hellir maður kjúklingasoðinu saman við, smávegis í einu, og hrærir vandlega. 2 msk af creme fraiche hrært saman við, safa úr hálfri sítrónu, salti og pipar. Soðið í nokkrar mínútur.

Með matnum fengum við okkur hvítvínsglas. Í þetta sinnið fengum við okkur vín frá Nýja Sjálandi - Cloudy Bay Sauvignion Blanc frá því 2008. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Létt og gott vín - ávaxtaríkt á tungu með frískandi eftirbragði. Þetta vín passaði vel með matnum - sem var líka léttur og góður.



Tími til að njóta!



Wednesday, 18 May 2011

Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónummeð wasabesósu

Eins og ég hef oft nefnt hérna áður þá er ekki eins auðvelt að verða sér útum góðan fisk hér eins og heima á Fróni - það er nú eitt af því sem við Íslendingar getum montað okkur af ... gæðin á þeim fisk sem við fáum að kaupa í búðunum. Og hvað sem allir segja þá er hann að minnsta kosti helmingi ódýrari en sá fiskur sem ég er að kaupa hérna, frosinn, sem ku vera af Íslandsmiðum. Annars skilst mér að það sé byrjað að selja íslenskan fisk í Malmö í verslun sem heitir Gallerí Fisk. Ég á ennþá eftir að heimsækja þau!

Ég fékk bók Heston Blumenthal í afmælisgjöf frá brósa og Snædísi - The Big Fat Duck Cookbook - sem er mögnuð matreiðslubók. Þessi bók er samt miklu meira en það; þetta er sjálfsævisaga, pökkuð fallegum ljósmyndum, fallegum teiknuðum myndum og endalaus uppspretta innblásturs. Maðurinn er auðvitað galinn - en á mjög jákvæðan hátt. Hann hefur tekið matseld alveg á nýtt plan - vísindi og vísindalegar aðferðir eru notaðar óspart. Hann ræðir um upplifun á mat, ekki bara eitthvað fyrir bragðlaukana og lyktarskynið - heldur einnig fyrir augað, eyrun og jafnvel snertingu. Í bók sinni eru honum tíðrætt um bragðlaukana - salt, súrt, beiskt, sætt og svo umami (bragðlaukar eru sennilega flóknari en þetta - við virðumst skynja margar ólíkar tegundir af beiskju, kalk, fitu og jafnvel með sérstaka bragðlauka fyrir það sem bragðast svalandi).



Umami er eitthvað sem þýðist yfir á ensku savory (bragðmikið) og birtist æ oftar á síðum matreiðslubóka, tímarita og í blaðagreinum um mat. Umami er auðvitað ekkert nýtt á nálinni - því var lýst fyrst fyrir rúmri öld í Japan og hefur verið á tungum Vesturlandabúa núna seinustu árin. Umami er einkennandi bragð af mörgum mat; kjöti, ostum, soya sósu svo eitthvað sé nefnt. Marineraðar ansjósur eru oft notaðar sem bragðaukandi efni til að lyfta öðrum bragðeiginleikum upp á þennan hátt. Umami er oft tengt við MSG - sem er bragðaukandi efni - og mörgum líkar illa við af ólíkum ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hérna. Fyrir þá sem fá sér japanska mísósúpu áður en þeir fá sér súshí þá er hún einnig dæmigerð fyrir umami. Og því ekki að nota hana sem bragðaukandi efni.

Ofngrillaður lax með mísóhjúp, ofnbökuðu blönduðu grænmeti, hrísgrjónum með wasabesósu
Þetta er einfaldur réttur (my signature sentance). Ég hafði keypt mísósúpuduftsskammta - einn lítill poki fyrir einn bolla af súpu. Setti einn slíkan í pott, 150 ml af vatni, 3-4 msk af soya sósu og síðan eina matskeið af hunangi. Þetta sauð ég síðan rólega niður þangað til að einungis 30-40 ml af vökva var eftir. Leyfði því að kólna aðeins svo að það þykknaði og hægt var að pensla það á laxinn.




Skárum niður gula, rauða og græna papríku, kúrbít og svo rauðlauk. Setti í eldfast mót, velti upp úr smá jómfrúarolíu, salt og pipar og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. Suðum einnig hrísgrjón með matnum.



Setti ofnskúffu yfir gasloga og hitaði vel upp. Smá olíu í skúffuna og setti síðan 1300 gramma laxabita í ofnskúffuna, með roðið niður penslaði og síðan mísó "glazinum" sem ég hafði búið til. Steikti laxaflakið í nokkrar mínútur og setti síðan skúffuna inn í ofninn með grillið á fullu. Steikti í 15 mínútur eða þartil laxinn var eldaður.



Fann einnig 4 humarhala sem ég hafði átt afgangs í frystinum sem ég ákvað að elda með á sama hátt og með laxinn.



Gerði síðan einnig hvítasósu, 200 ml af creme fraiche, 2 hvítlauksrif, salt og pipar og svo 2-3 teskeiðar af wasabepaste. Hrærði saman og smakkaði til.




Drukkum ágætt hvítvín með matnum. Þetta er vín frá Chile - Sauvignion Blanc frá því 2010. Ég hef lengi kunnað að meta vín frá þessum framleiðanda. Ég hef oft nefnt það á þessari bloggsíðu að fyrsta vínið sem ég kunni að meta var frá þessum sama framleiðanda - Montes Alpha Cabernet Sauvignion - það er nú orðið ansi langt síðan. Alltént er þetta létt og frískandi hvítvín sem er stórgott með mat sem þessum. Þetta er ávaxaríkt vín - í þurrari kantinum með smá sýru á tungunni. Ljómandi gott og einnig vinalegt á veskið!



Monday, 16 May 2011

Það nýjasta af grillinu: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif meðmaískólfum



tómatar og basil

Sumarið er löngu komið hérna í Suður Svíþjóð. Veðrið hefur leikið við okkur síðastliðnar þrjár til fjórar vikurnar. Hitinn hefur farið yfir tuttugu stig og það er alveg ljóst að yngstu meðlimir fjölskyldunnar njóta sín fram í hið ýtrasta. Öll börnin í hverfinu eru úti að leika sér frá því þau koma heim úr skólanum og eru úti fram á kvöld. Hérna er allt fullt af barnafjölskyldum þannig að hér er ansi fjörugt. Þetta líkist dáldið því þegar kúnum er sleppt út á vorin - hoppa og gleðjast.

Og ekki leiðist manni þetta sjálfum - Það er eitthvað svo dásamlegt að fylgjast með vorinu. Sjá hvernig lífið hreinlega springur fram! Það er ekki annað hægt en að elska vorið. Og það kom snemma í ár - vonum að sumarið verði okkur gott. Og ekkert annað stendur til. Ég fer í frí eftir fjórar vikur. Við ætlum að koma í heimsókn til Ísland í byrjun júlí og vera heima í 12 daga. Ætli við reynum ekki að ferðast eitthvað um Frónið - Ísland er auðvitað best á sumrin.

Og eins og gefur að skilja - þá kallar svona veður á að maður standi úti við grillið. Við erum búin að grilla ýmislegt. Auk þess sem ég blogga um í þetta sinn höfum við grillað kjúkling, skötusel, pylsur, hamborgara að sjálfsögðu, ýmiskonar grænmeti; kúrbít, papríkur, eggaldin og kartöflur. Það er alltaf gaman að grilla. Ég er meira farinn að grilla á kolum en ég gerði áður. Ég á einnig gamalt gasgrill - sem bara hangir saman á ryði að utan og fitu að innan. Ég held alltaf að það sé á síðustu metrunum, það lýtur út eins og það sé að fara að hrynja - það hefur orðið alelda oftar en ég get talið - en þraukar samt. Sjáum hvort að það standi af sér sumarið.

Grillfréttir: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif með maískólfum

Þetta blogg inniheldur engar nýjungar - ég hef áður, vorið og sumarið 2009 bloggað um báða þessa rétti. En það er nú bara svo að suma rétti þarf að fjalla um oftar en einu sinni.

eldbökuð

Eldgrillaðar flatbökur

Eldgrillaðar flatbökur eru auðvitað veislumatur. Það er mikilvægt að gera botnana þunna, þannig að þeir eldist hratt og verði stökkir og góðir. Deigið er gert á eftirfarandi hátt; 2 tsk þurrger og 30 g af sykri er sett í 350 ml af ylvolgu vatni. Hrært saman og gerinu leyft að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur um 10-15 mín. 500 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hnoða deigið vel - þannig hefast það betur og bragðast betur. Þá er að leyfa því að hefast - í nokkrar klukkustundir. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

pizza

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano,

Drosdtysteinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, salami, sveppir, kapers, lauk. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía.

Borið fram með heimagerðri hvítlauksolíu, salti og pipar og nokkrum tárum úr rauðvínsbúkollu sem að þessu sinni var Drostdy-Hof Shiraz Pinotage. Þetta er vín sem ég hef ekki smakkað áður svo ég muni eftir. Ég hef bragðað Cape Red frá sama merki og auðvitað hvítvínin en ekki þetta . Þetta er fyrirtakspizzuvín - því er ekki að neita!  Þetta er bragðgott, frískandi rauðvín. Ágætis berjabragð og ljúft eftirbragð. Meira er ekki hægt að krefjast af víni á búkollu.

matur

Suðræn svínarif með maískólfum

Ég var með 3 heil svínarif, sem var búið að skera í tvo bita. Oft er mælt með því að taka himnuna innan úr rifjabúrinu - en ég lét hana bara vera - veit ekki hvort að það skiptir máli - heldur kannski inni raka í kjötinu, lógíst? Rifin lögð í stóra skúffu og 1,5 lítrum af eplasíder og safa úr 4-5 sítrónum  hellt yfir. Rifin fengu að liggja í þessari lausn í rúma tvo klukkutíma.

reykofn

Þá voru þau þurrkuð og þurri kryddmarineringu nuddað inn í kjötið. Fyrir þetta magn af kjöti útbjó ég þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar og einnig dáldið af chilli. Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í tvo klukkutíma.

Rifin voru grilluð við óbeinan hita - að mestu (eins og pláss leyfði - einstaka sinnum urðu einhver af þeim að liggja í hitanum) - rifjunum var reglulega snúið og staflað upp til að jafna eldunina - þetta tekur að minnsta kosti þrjár klukkustundir - sem gefur nóg tíma til að slaka á og sötra á nokkrum köldum bjórum! Þegar um 30 mínútur eru eftir af elduninni er BBQ sósunni penslað á. Þarna gefst færi á að gera sína eigin sósu; úr td. siderediki, tómatsósu, Worchestershire sósu, sykri, sinnepi, tabaskó og hluta af kryddinu sem fór á kjötið. Ég verð að játa að ég gerði það ekki - ég fór styttri leið - ég hafði dottið inn á sósu sem heitir Sweet baby Ray's barbeque sauce - og hún er góð! Lét mér nægja það.

Með matnum bárum við fram maískólfa - fátt er nú klassískara en slíkt - alltént með svona mat. Kólfunum var pakkað inn í álpappír og látið vera aftast á grillinu í rúma klukkustund. Það var ætlununin að fá sér gott rauðvín með þessum mat, en sumt kallar bara á aðeins eitt, sérstaklega svona kryddaður matur. Þannig að við fengum okkur bara bjór með matnum að þessu sinni! Og hann lukkaðist stórvel í þetta skiptið, kjötið lungamjúkt og bráðnaði í munni.

svínarif

Bon appetit!

Thursday, 5 May 2011

Ljómandi SJÖ klukkutíma lambalæri með ekta lambasósu ogostakartöflugratíni


undirbúningur

Hef nýlega byrjað að lesa eina af bókum Michael Pollan, In defence of Food, sem fjallar um hvernig við á Vesturlöndum meðhöndlum matinn okkar. Bæði hvernig hann er framleiddur, hvernig við förum með skepnurnar sem við síðan leggjum okkur til munns, hvernig ræktum grænmetið okkar, hvernig við förum síðan með hráefnið, hvaða efnum við blöndum saman við það og svo síðast en ekki síst hvar/hvernig við borðum. Þetta er áhugaverð lesning - talsvert í anda bókarinnar The Omnivores Dilemma sem ég las seinasta sumar sem einnig er lesning sem vekur mann til umhugsunar.

Við ræðum þetta mikið á heimilinu. Dóttir mín, Valdís, sem er 10 ára hefur mikinn áhuga á matargerð og hvernig við förum með dýrin. Við erum núna að horfa á myndina Food Inc saman í nokkrum hlutum og erum svona að velta fyrir okkur hvernig þetta fer allt fram - frá útsæði til franskrar kartöflu. Frá eggi til ofnbakaðs kjúklings. Það eru mikil viðbrögð um hvernig dýrum er slátrað. Grænmetið vekur færri spurningar - en það kemur kannski seinna.

Eitt af því sem hann nefnir inngangi bókar sinnar hittir - Manifestóið hans - alveg í mark hjá mér; maður á að borða mat! svo segir hann líka að maður eigi auðvitað að passa hversu mikið maður borðar og maður eigi að leggja áherslu á að borða grænmeti. Ég á oft erfitt með að passa magnið en ég held að á mínum borðum sé alvöru matur, eldaður frá grunni, gerður úr góðu hráefni - og mikið af grænmeti. Það sem Hr. Pollan er að tala um þegar hann er að tala um alvöru mat þá er hann að tala um ekta hráefni, ekki eitthvað bæti- og aukaefna bættan mat sem inniheldur efni sem engin skilur eða veit hvernig lítur út! Það er gaman að fylgjast með þeirri grósku sem núna er í gangi á Íslandi; vakningu um hvernig kjúklingar og svín eru "framleidd" og ósk eftir lífrænni framleiðslu! Virkilega áhugavert!

undirbúningur2

Jæja víkjum okkur að uppskrift dagsins. Hún er eins ekta og hægt er að hafa það! Ekta íslenskt lambalæri sem átti að vera í matinn á páskadag en vegna ofáts á lambaskönkum á föstudaginn langa og svo grilluðu læri hjá Jóni og Álfu á laugardaginn fyrir páska var ákveðið að geyma páskalambið í viku - fram að Valborgarmessu sem er haldin hátíðlega hérna í Svíþjóð.

Í bók Stéphane Reynauds, 365 good reasons to sit down to eat, er frábær uppskrift á blaðsíðu 162; Seven hours leg of lamb. Ég á nokkrar bækur eftir þennan franska matreiðslumann; Rotis og Ripallessem eru líka virkilega girnilegar bækur en uppáhaldið mitt er án efa Pork & Sons - sem er bara tileinkuð svínakjöti. Frábær matreiðslubók. Síðan sá ég einnig umfjöllun um þessa aðferð á síðum Fréttatímans fyrir nokkru - þar skrifa Þórir Bergsson og Gunnar Smári Egilsson frábæra pistla um mat, endilega kíkið á það. Það var ekki ekkert annað að gera en að prófa.

Ljómandi SJÖ klukkutíma lambalæri með ekta lambasósu og osta-kartöflugratíni

áleiðíofninn

Aðferðarfræðin er eins einföld og hugsast getur. Það eina sem gildir er að byrja snemma. Rölta niður í eldhús um hádeigisbilið og kveikja á ofninum. Stilla hann á 75-100 gráður (eftir ósk um hvernig kjötið á að vera eldað). Síðan er bara að raða hlutunum á sinn stað. Nokkrar gulrætur eru flysjaðar og skornar niður í grófa bita ásamt tveimur laukum, tveimur hvítlaukum og nokkrum sellerístöngum. Sett í ofnpott. Síðan er lambið nuddað með olíu, saltað og piprað og síðan sett ofan á grænmetið. Nokkur piparkorn eru sett með og svo 4-5 lárviðarlauf. Síðan er 6-700 ml af vatni sett í botninn á pottinum, nokkrum rósmarínlaufum dreift yfir. Lokið sett á pottinn, hann inn í ofn og svo var beðið í sjö klukkutíma.

DSC_0073

Að fimm og hálfum tíma liðnum byrjar maður að huga að kartöflugratíninu. Nokkrar karftöflur eru skornar niður og raðað í eldfast mót, smurt með hvítlauksolíu. Á milli laga raðar maður hvítmygluosti, kannski cheddar í næsta lag, mögulega blámygluosti. Einum pela af matreiðslurjóma er síðan hellt yfir, saltað og piprað og svo er auðvitað toppað með osti sem bráðnar vel, cheddar til dæmis.

ostagratín

Þegar lambið er tilbúið er það látið standa í nokkrar mínútur og á meðan útbýr maður sósuna. Soðinu er hellt í gegnum sigti og látið standa í smástund. Fitan flýtur upp á yfirborðið og henni fleytti ég af. Síðan útbjó ég smjörbollu í potti, 30 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti. Fyrst bræðir maður smjörið, svo er hveitið sáldrað yfir og eldað í nokkrar mínútur þannig að hveiti bragðið minnkar (það er gott að muna að eftir því sem maður eldar smjörbollu lengur þá minnkar geta þess að þykkja sósuna). Soðinu er síðan hellt varlega saman við - hrærið stöðugt. Síðan er ekkert annað að gera en að "balansera" sósuna: smá rjómaskvetta, salt, pipar og kannski smá rifsberjasulta.

lamb

Þegar lambið er búið að hvíla í smá stund er því rennt undir blússheitt grillið í ofninum - svo að það verði stökkt og girnilegt að utan.

Peter Lehmann shirazMeð matnum drukkum þetta ljúffenga rauðvín Peter Lehmann Futures Shiraz frá því 2007. Ég lengi verið hrifinn af vínum frá þessum framleiðanda. Ég er ennþá að vinna mig í gegnum það sem við keyptum þegar við komum tilbaka frá Austurríki og birgðum við okkur aðeins upp, m.a. af þessu ágæta víni.  Þetta er ljómandi gott vín. Dökkur litur, verkar þykkt. Ilmar af plómum, eik. Lifandi bragð, dökkur ávöxtur og eikað vín með góðu eftirbragði.

Ég hvet alla til að prófa þessa uppskrift. Bragðið af lambinu var alveg kyngimagnað - og kjötið hreint út sagt bráðnaði í munni. Alveg ógleymanleg máltíð!

lambnærmynd

Bon appetit!