Þeir sem fylgjast með blogginu muna kannski eftir því að ég gerði grein fyrir veislunni í fyrra. Þá elduðum við heilgrillað lamb, nokkur lambalæri og svo hamborgara fyrir börnin. Veislan heppnaðist vel og það var sérstaklega gaman að fá að kynnast nágrönnum sínum svona vel. Í fyrra eignuðust við góða vini sem við höfum hitt reglulega síðan í fyrra. Alveg frábært.
Undirbúningurinn hefur líka verið skemmtilegur - við hittumst nokkrum sinnum vikunum fyrir stóra daginn og skipulögðum og deildum niður verkefnum. Svíar kunna að skipuleggja betur en flestir. Í götunni eru um 35 hús og 26 fjölskyldur voru skráðar til þátttöku. Við vorum með fjölbreytilega leiki fyrir börnin, hoppukastala sem vakti mikla gleði og svo auðvitað sameiginlegan kvöldverð. Við nutum einnig lifandi tónlistar. Þetta var stórskemmtilegt.
Mögnuð GRILLVEISLA fyrir hundrað manns; Naut, lamb, kjúklingur - bulgursalat, taichiki, pestó og heimagert brauð
Latífa sá um að panta inn allan mat í gegnum eldhúsið sem hún rekur. Á fimmtudagskvöldið komu Latífa og Signý Vala í heimsókn til mín og þá var sko brett upp ermarnar. Allt kjöt var hreinsað og þurrkað og lagt í ólíkar marineríngar.
Lambið var marinerað í olíu, hvítlauk, rósmaríni, rauðum chilli, sítrónusafa ásamt berkinum og auðvitað fullt af salti og pipar.
Nautið var marinerað í smáttskornum lauk, olíu, heilum helling af papríkudufti, salti og pipar.
Kjúklingabringurnar voru síðan marineraðar í thai sweetchilli sósu, hvítlauk, olíu, salti og pipar.
Svo gerðum við einnig marineraðar ólífur. Við höfðum keypt stóran dúnk af ólífum sem við veltum upp úr olíu, salti, pipar, chilli og svo kúmeni. Dúndurgóð og kraftmikil kryddolía.
Maturinn var settur í stór ílát og geymdur í ískáp þangað til á laugardagsmorguninn. Um morguninn söfnuðust nokkrir galvaskir karlar úr hverfinu og byrjuðu að setja upp tjaldið. Ég varði mestum hluta morgunsins í að útbúa grillið. Í þetta sinn var ekki eins ríkulegt úrval af steinum í boði eins og í fyrra þannig að ég brá á það ráð að grafa holu. Grindina átti ég frá því í fyrra.
Á meðan nokkrir fullorðnir stóðu vaktina yfir grillinu fengu börnin að leika sér!
Hoppukastalar eru frábærir!
Latífa hafði yfirumsjón með brauðgerðinni. Hún fékk hjálp við frá Signýju og Snædísi. Fyrst vakti hún pressuger í skál, blandaði saman við mjólk, vatni, sírópi og salti og leyfði þessu að blandast í nokkrar mínútur í hrærivél. Síðan hellti hún mestmegnis hveiti, smá hveitihlíð og haframjöli rólega saman við þangað til að hún var kominn með fallegan deigklump. Sem fékk síðan að hefast í nokkrar klukkustundir.
Það er erfitt að segja nákvæmlega til með hlutföll þar sem Latífa eldar mest með hjartanu. Ætli hún hafi ekki sett 500 gr af vökva (blöndu af mjólk og vatni), einn klump af pressugeri, 2-3 msk af sírópi, 1 msk af salti og síðan 1-1,5 líter af hveiti - mest hvítu hveiti og svo kannski fjórðung hveitiklíð/heilhveiti. Ein svona blanda var nóg fyrir 2 brauðhleifa og mér finnst líklegt að við höfum bakað að minnsta kosti 20 brauðhleifa þegar allt kom til alls. Svo gerðu þær líka heilan helling af baguettum ekki með svo ólíkri uppskrift nema hvað það var einvörðungu notað hvítt hveiti. Deigið fékk að hefast í nokkrar klukkustundir áður en það var mótað í brauðhleifa, leyft að hefast aftur í að minnsta kosti þrjú korter áður en það var sett í heitan ofninn. Latífa vill ekki baka í blástri heldur einungis með "convection" - hún segir að brauðið bakist rólegar við það og verði betri. Það hlýtur bara að vera rétt því að brauðin voru stórkostlega vel heppnuð!
Ég sá um að útbúa tómatblönduna fyrir brúsketturnar og gerði það í litla útieldhúsinu sem við höfðum útbúið. Það er ljúft að standa útí í sólinni og elda. Og ekkert finnst mér segja "sumar" meira en bruchettur með fallegum rauðum sætum tómötum, basilíku, steinselju, góðri jómfrúarolíu og salti og pipar. Fátt er meira frískandi.
Við grilluðum fyrst brauðið í eitt augnablik á hvorri hlið og svo var tómatblöndunni raðað ofan á og svo var snittunum dreift í mannskapinn.
Stina í húsi númer 6 gerði bulgursalatið - Nóg af iceberg salati, tómötum, gúrku, papríku og svo bulgur. Latífa sá einnig um að gera taichiki sósuna, blöndu af jógúrt, smáttskornum hvítlauk, agúrku, salt, pipar og smá síróp fyrir til að fá smá sætu. Svo var einnig gert pestó úr olíu, sólkjarnafræjum, steinselju, salti og pipar.
Við drukkum með matnum úr búkollum sem höfðu verið sóttar yfir Eyrarsundið. Og auðvitað gátu menn síðan unnið á þorsta sínum með dönsku öli. Það hafði auðvitað verið sótt í sömu veifann!
Það virtist vera almenn ánægja með matinn. Hann brann aðeins að utan. Þetta voru nú stórar steikur eins og sést á myndunum en ekkert var að því sem var fyrir innan. Kjötið var að mínu mati fullkomlega eldað - en var notaður hitamælir sem sagði til um hvenær kjötið var tilbúið undir hnífinn og ofan í gestina. Þannig klúðrar maður öngvu! Nágrannar okkar virtust alltént kunna að meta matinn.
Sjáumst að ári.
Bon appetit!