Við erum kominn heim til Svíþjóðar og raunveruleikinn blasir við á nýjan leik. Það er alltaf erfitt að byrja aftur að vinna eftir langt skíðafrí! Við ókum frá St. Michael í Austurríki á föstudaginn síðastliðinn eftir frábæran skíðadag í glampandi sól og logni. Sannkallaður sæludagur.
Við skíðuðum í Katchberg og Aineck, öll stórfjölskyldan - mamma, pabbi og bróðir minn voru einnig með í för. Svona dagar geta ekki annað en verið góðir. Í hádeginu fengum við okkur hádegisverð hjá bónda, Schlögelberger, sem ræktar krónhirti og margir réttir á matseðlinum státa af hráefni frá honum sjálfum. Við fengum okkur Hirchbraten mit Knödel und Preiselbeeren (krónhjartarsteik með brauðbollum (dumplings), sultu og brúnni sósu) - sælgæti! Við náðum eiginlega að skíða allan daginn. Í lok dags hlóðum við bílinn og keyrðum af stað í átt til Svíþjóðar. Við náðum að aka rúmlega 400 km - og dvöldum á litlu hóteli rétt sunnan við Nurnberg og á laugardeginum náðum við að keyra rúmlega 1000 km heim í Púkagrandan í Lundi.
Það var bæði sætt og súrt að koma heim. Auðvitað er alltaf gott að koma heim! Þar er auðvitað best að vera - en það er svo gott að vera í skíðafríi. Og núna er því lokið... því miður. En þá er ekkert annað að gera en að fara að hlakka til þess sem er framundan. Vinna og svoleiðis - sem er ekki alveg eins spennandi ... En það verður alltaf næsta ár!
Þegar heim var komið á laugardagskvöldið elduðum við kjúkling á rotisserí-tein í ofninum með einfaldri sveppasósu og bökuðum kartöflum. Það hjálpaði aðeins við að minnka Alpasöknuðinn. Auðvitað ekki alveg. Núna er hversdagurinn kominn aftur og við reynum að elda hollan og góðan mat.
Í gær vorum við með lax með soya sósu sem ég hef greint frá áður hérna á blogginu - en í kvöld reyndi ég að gera eitthvað nýtt! Satt best að segja langaði mig mest í Spaghetti Carbonara - en beikon er ekki í boði um þessar mundir. En grænmeti liggur hátt á listanum - þannig að úr varð Spaghetti alla vegitar "ara" - nema hvað ég notaði Bavette pasta, sem eru svona flöt, aðeins ávöl, rör. En að öðru leiti var aðferðafræðin og uppskriftin eiginlega óbreytt - nema grænmetið kom í stað beikonsins.
Ljúffengt Bavette alla vegitari "ara" með parmaosti, heimagerðu hvítlauksbrauði og einfaldasta salatinu
Fyrst var að skera niður grænmetið. 4-5 hvítlauksrif, ein meðalstór rauðlaukur - skorin niður smátt og steiktir í smávegis af jómfrúarolíu. Bætti síðan útí hálfum púrrulauk skorskornum í sneiðar, hálfur kúrbítur og síðan 15 sveppir skornir í fjórðunga. Steikt við lágan hita í 10-15 mínútur. Saltað og piprað. Síðustu mínúturnar hellti ég 50 ml af matreiðslurjóma saman við og lét sjóða niður um sirka helming. Haldið heitu.
Hrærði síðan saman fjórum stórum eggjum, saltaði og pipraði, 30 gr af rifnum parmaosti, handfylli af smáttskorinni steinselju og basil. Lagt til hliðar um stund þar til að pastað er tilbúið.
Sauð fullan pott af vatni, 2-3 tsk af salti. Hugmyndin er að fyrir hver 100 gr af pasta skal maður hafa einn líter af sjóðandi söltu vatni. Að salta vatnið er líka mikilvægt, það opnar pastað betur þannig að það tekur betur í sig sósuna.
Þegar pastað er tilbúið þarf að hafa hraðar hendur. Hella vatninu frá, hella grænmetinu yfir og síðan eggjablöndunni, hræra vel og setja lokið aftur og láta standa í 2 mínútur. Þannig eldast eggjablandan og verður að silkimjúkri sósu.
Borið fram með heimagerðu hvítlauksbrauði (og þó - baguettuna keyptum við útí búð). Notuðum meira að segja Lautrec hvítlauk í hvítlauksolíuna. Rósahvítlaukur frá Lautrec mun vera einn sá besti
í heiminum. Ég keypti hann í Frakklandi í ágúst síðastliðnum og konan sem seldi mér hann sagði að hann ætti að haldast fínn í rúmt ár. Tók núna eftir því að hann er farinn að þorna þannig að það var ekkert annað að gera en að nota hann í alla matargerð - ekki bara á tyllidögum!
Með matnum fengum við okkur smáræðis hvítvínstár. Við höfðum að sjálfsögðu stoppað í Bordershop á leiðinni frá Þýskalandi og keypt smáræði inn af bjór og léttvíni. Við kipptum með nokkrum glerjum af Peter Lehmann sem er alltaf á góðu verði í þessari fljótandi verslun. Vínin frá Peter Lehmann eru alltaf góð kaup. Peter Lehmann Chardonnay 2008 er alveg ljómandi gott hvítvín. Er klassískt Chardonnay og hefur alla þá kosti sem slíkt vín á að að bera. Ilmar af ávöxtum, sömuleiðis á tungu, smjörkennt og eikað. Ljómandi gott.
Svo er bara ekkert annað að gera en að setja pastað í skál, rífa parmaost yfir og njóta. Þessi réttur heppnaðist ljómandi vel og verður án efa aftur á borðum í Púkagrandanum.
Bon appetit!
No comments:
Post a Comment