Sunday, 20 March 2011

Frábær grænmetistagína með kjúklingabaunum, kartöflum og gulrótum meðkúskús og salati



í potti

Ég held áfram að reyna við grænmetisréttina. Þessi réttur var á boðstólnum núna í seinustu viku. Er ennþá eitthvað að reyna að bauka við þetta manifestó sem lagt var upp með í upphafi árs - þó verður að viðurkennast að við höfum brotið reglurnar nokkuð oft. Þó oftast bara af illri nauðsyn - það þurfti að klára matarafganga! Tengdamóðir mín segir enga dyggð göfugri en að vera nýtinn!

Ég hef síðustu vikurnar sankað að mér nokkrum bókum um grænmetismat sem margar hverjar eru ansi góðar. Auðvitað átti ég talsvert af matreiðslubókum sem innhéldu margar góðar uppskriftir - en þetta var ansi góð afsökun fyrir því að fá sér nokkrar bækur í viðbót. Ég veit ekkert betra en að blaða í matreiðslubókum, renna í gegnum uppskriftina, skoða myndirnar og spekúlera í því hvernig ég myndi elda þennan rétt.

Fyrsta matreiðslubók Yotam Ottolenghi - Ottolenghi - er sannarlega góð til innblástrar, einnig nýjasta bók hans Plenty - sem er samsafn af grænmetisréttum sem hann hefur skrifað fyrir The Guardian. Síðan hef ég keypt eina svona The Complete Vegiterian Cookbook eftir Sarah Brown sem tekur saman uppskriftir sem voru skrifaðar fyrir Readers Digest. Bókin er  svosum ágæt, en eins og allar svona  "complete" bækur, þá eru þær ekkert voðalega "complete". Bróðir minn keypti eina sem er líka ansi skemmtileg, The Moosewood Cookbook,  en gallinn við hana að það vantar allar ljósmyndir. Ég kýs alltaf heldur bækur með myndum en án mynda! Margar uppáhalds matreiðslubækurnar mínar eru samt án mynda; The Silver PalateMatur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur, frönsku biblíurnar; Escoffier, Larousse Gastronomique, hin ítalska - The Silver Spoonog svo mætti lengi telja. Þó skreyta myndir gjarnan endurútgáfur þessara titla. Jæja, snúum okkur núna að matnum.

Gómsæt grænmetistagína með kjúklingabaunum, kartöflum og gulrótum með kúskús og salati

Hráefnalisti

1 1/2 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
3 msk jómfrúarolía
1 tsk kúmen
1 1/2 tsk túrmerik
2 tsk möluð kóríanderfræ
1 tsk Harissamauk
2 dósir niðursoðnir tómatar
Vatn
Grænmetiskraftur
Salt og pipar
10 kartöflur
4 gulrætur
1/2 paprika
1 dós kjúklingabaunir
1 msk hungang

Einn og hálfur rauðlaukur skorinn í sneiðar, 4 hvítlauksrif skorinn í þunnar sneiðar og steikt í 3 msk af jómfrúarolíu við heldur lágan hita í 5-10 mínútur. Laukurinn á ekki að brúnast - bara verða mjúkur og karmelliserast. Þá var einni tsk af kúmeni, 1 1/2 tsk túrmeriki, 2 tsk af nýmöluðum kóríander fræjum, 1 tsk af Harissamauki - steikt í smá stund með lauknum, rétt til að vekja kryddin. Þá var 2 dósum af niðursoðnum tómötum bætt saman við, jafnmikið af vatni, grænmetiskraft og auðvitað salt og pipar. Síðan var 10 kartöflum skornar í heldur stóra bita, 4 gulrætur í þykkum sneiðum, hálf rauð papríka í í bitum bætt saman við og suðan látin koma upp. Saltað og piprað. Bætti síðan við einni dós af kjúklingabaunum og fékk af krauma áfram í 20 mínútur. Síðan var kássan smökkuð til með salti og pipar, sætt með 1 msk af góðu hunangi. Hrært vel saman.

meðlæti

Þetta var ekki alveg grænmetisréttur - því 10 mínútum áður en maturinn var tilbúin braut ég fjögur egg út í kássuna (þetta er auðvitað alveg "optional") Síðan var handfylli af skorinni ferskri steinselju dreift yfir.



Borið fram með kúskús og síðan einföldu salati; blönduð grænlauf, tómatar, agúrkur, gul og rauð paprika og síðan smávegis af fetaosti.

Þessi réttur kom sérstaklega á óvart - oft finnst mér grænmetisréttir skorta bragðdýptina sem oft fylgir góðum kjötréttum en þessi réttur náði einhvern vegin að mæta öllum mínum væntingum. Við fengum okkur smá hvítvínstár með matnum. Ég hafði keypt Two Oceans Sauvignion Blanc hvítvín í systeminu - búkollu til að eiga í kælinum. Þetta eru prýðiskaup. Fölgult á litinn, sítrus ávöxtur á tungu, perur, þurrt og gott.

Það hefði ekki verið verra að bera þennan rétt fram með líbönsku flatbrauði.

matur

Bon appetit!

1 comment:

  1. Guðrún Grænmetisæta22 March 2011 at 18:44

    Húrra fyrir grænmetisréttum!

    Ég hef lengi verið aðdáandi síðunnar þinnar, en sem fiskétandi grænmetisæta hefur verið erfitt fyrir mig að apa eftir uppskriftunum þínum. En undanfarið hef ég galdrað upp úr pottunum hvern dásemdarréttinn á fætur öðrum og kann ég þér miklar þakkir fyrir einfaldar en ó svo ljúffengar uppskriftir. Meira svona!

    ReplyDelete