Wednesday, 30 March 2011

Stórgott ofngrillað lambalæri með heimagerðu pestó og rauðumpiparkornum, ofnsteiktu rótargrænmeti og rauðvínsdreitli



lambalæri

Þennan rétt gerði ég seinasta laugardagskvöld. Ætlaði auðvitað að vera búinn að gera skil á þessu fyrr en stundum nær frestunaráráttan tökum á manni, það er nú bara þannig. Það var góð stemming um helgina hérna í Lundi, þrátt fyrir kuldakastið, þá var næstum heiðskýrt - og það vakti vonina um að vorið væri á næsta leiti. Við brugðum okkur niður í bæ og reyndum að ganga sólarmegin í tilverunni. Nokkur smáblóm voru byrjuð að stinga sér upp út jörðinni og blómstra og bærinn iðaði af lífi.

Það kom okkur skemmtilega á óvart að læknanemar í Lundi voru að frumsýna sitt Toddyspets - sem er árleg skemmtun sem hefur verið haldin í hávegum síðan fyrir meira en 100 árum síðan. Þetta er uppákoma hérna í Lundi og þá standa stúdentar fyrir ýmsum kjánagangi, leiki fyrir börn, dreifa nammi, selja grínblað og síðan setja á svið sýningu um kvöldið sem ku vera ansi sniðug. Ég hef þó ekki ennþá gerst svo góður að fara á sýninguna en börnunum mínum fannst gaman að fylgjast með leikjunum og síðan mjög gaman að fá nammi.

Við komum við í Saluhallen og ég spjallaði við kunningja mína hjá slátraranum, Holmgrens. Festi kaup á þetta pínulitla lambalæri, það minnsta sem ég hef eldað, vó 1675 gr. Það var allaveganna ekki sem verst - við vorum ekki mörg í mat. Og það var meira að segja afgangur! Jæja...best að vinda sér í uppskriftina.

Stórgott ofngrillað lambalæri með heimagerðu pestó og rauðum piparkornum, ofnsteiktu rótargrænmeti og rauðvínsdreitli

Ég bjó nýverið til hefðbundið pestó sem ég notaði með pastarétt í seinustu viku. Ég hafði gert aðeins of mikið og því datt mér í hug að það væri hægt að nota afgangana á þennan máta. Drýgði þó aðeins með olíu svo ég gæti smurt lambalærið vel inn.

pestó

Að gera pestó er einfalt. Það má nánast nota hvaða grænu lauf sem er og eiginlega hvaða hnetur sem er. Ég hef gert pestó úr basilíku, steinselju, klettasalati, kóríander, líka úr blöndum þar sem ég hef blandað hinu og þessu saman - ma. notað smá rósmarín og timían - allt verður þetta þrusugott. Að nota ristaðar furuhnetur er líka klassíker, en það er ekkert sem bannar að nota t.d. valhnetur eða pekanhnetur. Einhvern tíma hef ég líka notað möndlur, nema hvað það varð ansi væmið. Í þetta sinn gerði ég hefðbundið pestó; notaði lauf af þremur basillíkuplöntum, handfylli af ristuðum furuhnetum, 70-100 gr af rifnum grana padano osti, salt og pipar og svo auðvitað jómfrúarolíu þangað til að maður er komið með þá þykkt sem maður sækist eftir - en það fer auðvitað bara eftir smekk.

DSC_0005

Fyrst skar ég 3-4 sellerístangir, 1 1/2 lauk, 2-3 gulrætur, nokkur hvítlauksrif, gróft niður og setti í botninn á ofnpottinum. Lambalærið var þvegið og síðan þurrkað og lagt í ofnpottinn. Salti og pipar nuddað inn í kjötið. Síðan var pestóinu smurt ríkulega á lærið og síðan nokkrum rauðum piparkornum dreift yfir. Setti síðan 2-3 rauðvínsglös, notaði Drostdy-Hof sem ég átti á búkollu inn í skáp og síðan jafnmikið af vatni. Síðan stakk ég hitamæli í kjötið, lokið á og setti í 100 gráðu heitan ofn og eldaði þar til að kjarnhitinn var 65 gráður. Þá var lambið tekið út og látið hvíla í 20-30 mínútur á meðan sósan var útbúin. Á meðan var kveikt á grillinu á ofninum og rétt áður en allt var tilbúið var smávegis af salti stráð á lambalærið og það grillað í eitt augnablik undir grillinu.

steikjagrænmeti

Sósan var leikur einn. Gerði smjörbollu, 30 gr af smjöri hitað í potti, síðan 30 gr af hveiti og hrært saman. Smjörbollan tryggir að sósan verði þykk og gljáandi. Síðan hellti ég soðinu af lambinu í gegnum sigti og síðan hræði ég síaða soðið saman við smjörbolluna. Bætti við smá salti og pipar og hnífsoddi af rifsberjasultu og hrærði. Woila!

steiktgrænmeti

Með matnum bárum við fram ofnsteiktar kartöflur og gulrætur sem var gerð eftir þeim reglum sem ég setti fram hérna á blogginu mínu fyrir skemmstu, sjá hérna. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa aðferð; flysja, forsjóða, skaka, sáldra hveiti saman við, steikja í heitri ofnskúffu með fitu af eigin vali og síðan baka þar til gullinbrúnt og dásamlega girnilegt! Við gerðum einnig einfalt salat með grænum laufum, smátt skornum rauðlauk, kúrbít, radísum.

lambalærimatur

Með matnum drukkum við vín sem við keyptum einnig í Bordershop þegar við renndum þar framhjá þegar við vorum á heimleið frá Austurríki. Gallo Sonoma County Cabernet Sauvignion frá því 2007. Þetta er vín frá Bandaríkjunum, Sonoma sýslu sem liggur rétt norðan við San Fransisco og er í grennd við Napadal sem margir þekkja. Við hjónin fórum þangað sumarið 2008 og skelltum okkur einn dag í vínsmökkunarferð um þessar slóðir. Góðar minningar. Þetta vín er ljómandi gott. Er dökkt í glasi, kraftmikill ilmur af dökkum ávöxtum, súkkulaði. Svipaðir tónar á tungu, eikað með kraftmikið eftirbragð. Sver sig í ætt við mörg önnur góð Cabernet Sauvignion vín - munnfyllir af öllu!

matur

Bon appetit!

Friday, 25 March 2011

Besti heilgrillaði "rotisserie-style" kjúklingurinn með sveitafrönskum, sveppasósu og fersku tricolore salati



kjúklingur2

Þegar ég var lítill var gjarnan eldaður heilgrillaður kjúklingur á sunnudagskvöldum við mjög svo góðar undirtektir annarra fjölskyldumeðlima. Mamma átti það til að umlykja kjúklinginn kartöflum ásamt öðru rótargrænmeti, nudda kjúklingin með olíu og krydda og grilla svo þangað til að húðin varð gullin og stökk. Með þessum rétt bar hún gjarnan fram rjómasveppasósu - sem var alveg afbragð. Ég hef margoft leikið eftir uppskriftina hennar mömmu á einn eða annan hátt og jafnvel greint frá því hérna á blogginu mínu (fyrir þá sem hafa áhuga þá er hægt að googla eftirfarandi: kjúklingur site:ragnarfreyr.blog.is .... þá kemur vel í ljós hversu hrifinn ég er af því að elda kjúkling)

Þegar ég fór til Spánar í fyrsta skipti sá ég fyrst kjúkling á teini, pollos asados! Þetta voru sérstakir sölustaðir sem seldu ekkert annað grillaðan kjúkling á teini. Ég man þegar ég smakkaði þetta í fyrsta skipti. Hvílíkt og annað eins hvað kjúklingur var safaríkur og húðin stökk og knassandi góð - nánast eins og mjúkt kex og kjötið lungamjúkt. Ég stoppaði við á veitingastaðnum í smástund og fylgdist með þeim elda, sá hvernig þeir söfnuðu fitunni/vökvanum sem rann af kjúklingum í rennu og reglubundið pensluðu fuglinn með vökvanum. Dísus...hvað mér fannst þetta gott... já og finnst ennþá!

POLLOS asados

Eftir að ég eignaðist almennilegan ofn í fyrsta skipti þá hef ég gert svona kjúkling af og til. Þetta er auðvitað hin fullkomnasti "comfort" matur. Þessi réttur er eins og íslenska maltið; bætir, hressir og kætir. Í þetta sinnið datt mér í hug að í staðinn fyrir að bera kjúklinginn fram einungis með soðinu sem rann af við eldamennskuna að búa til eitthvað sem líktist sósunni hennar mömmu. Og viti menn...ég held bara að það hafi tekist!

Besti heilgrillaði "rotisserie-style" kjúklingurinn með sveitafrönskum, sveppasósu og fersku tricolore salati

2 kjúklingar
30 gr smjör
2 msk jómfrúarolía
Salt og pipar
2 msk paprikuduft
Vatn

Sósa

15 sveppir
Salt og pipar
Jómfrúarolía
800 ml soð af fugli
200 ml rjómi
Maizenamjöl

Tricolore salat

1 Mozzarellaostur
Hanfylli ferskur basil
3-4 tómatar
1 rauðlaukur
Jómfrúarolíu
Sítrónusafa
Salt og pipar

Sveitafranskar

800 gr kartöflur með hýði
Olía til djúpsteikingar
Salt

Þetta var engan vegin flókin eldamennska. Þetta segi ég oft og það á sérstaklega við núna! Ætli það flóknasta í ferlinu hafi ekki verið að þræða kjúklinginn upp á tein og síðan festa hann það kyrfilega að hann snúist örugglega í sína hringi undir grillinu.

Fyrst tók ég klípu af smjöri, kannski 30 gr, og setti í pott með álíka mikið af jómfrúarolíu. Þetta hitaði ég þangað til að smjörið var bráðið. Penslaði síðan kjúklinginn vandlega í alla króka og kima þannig að allt yfirborð var hjúpað smávegis af fitu. Síðan var kjúklingurinn kryddaður á einkar einfaldan hátt; nóg af salti og pipar, heilmikið af papríkudufti. Síðan var ekkert annað enn að koma honum fyrir í blússheitum ofni með grillið á fullu. Það er alltaf erfitt að segja hversu lengi á að elda kjúklinga vegna þess að það fer eftir þyngdinni. Best er að nota hitamæli og tryggja að kjarnhitinn nái 84 gráðum - og þá er allt í lagi. Ég setti um það bil líter af vatni, með smá krafti, í fatið sem lá undir fuglinum til að tryggja að ég fengi allan vökva frá kjúklingum, bæði til að hella yfir og einnig til að eiga í sósuna.

á teini

Sósan var gerð á eftirfarandi hátt. 15 sveppir voru skornir í sneiðar og síðan steiktir í olíu/smjöri við heldur lágan hita þar til fallega gullnir. Látnir standa þangað til að kjúklingurinn er tilbúinn og bíður framreiðslu. Þá er soðinu af fuglinum hellt varlega á pönnuna (800 ml), saltað og piprað, 200 ml af rjóma bætt saman við og þykkt með smáræði af maizenamjöli. Soðið upp og soðið við lágan hita til að bragðið af mjölinu hverfi.

sveitafranskar

Bróðir minn sá um franskarnar eins og oft áður. Í þetta sinn reyndi hann að líkja eftir sveitafrönskum, þannig að hýðið fékk að vera á. Franskarnar voru gerðar eins og lög gera ráð fyrir: Steiktar í tvígang. Fyrst við aðeins lægri hita í 4-6 mínútur og síðan teknar upp úr og látnar liggja á pappír og síðan aftur við um 180 gráðu hita þar til fallega gullinbrúnar og stökkar. Saltaðar!

tricolore

12527Með matnum bárum við fram þetta prýðisgóða salat, sem er ekkert annað en ítalska hugmyndin - salado tricolore - fært í eilítið annan búning. Tricolore er hin sígildi réttur þar sem maður raðar upp þroskuðum niðursneiddum tómötum, með niðursneiddum mozzarellaosti ásamt basílíku blaði á milli laga. Ég gerði það sama nema hvað ég bar salado tricolore fram á beði af blönduðum grænum laufum og síðan sáldraði smávegis af smáttskornum rauðlauk saman við. Auðvitað sáldraði ég síðan smá jómfrúarolíu yfir, ferskum sítrónusafa og svo saltaði og pipraði.

Með matnum fengum við okkur ansi gott rauðvín. Coto Vintage Crianza frá því 2006. Þetta vín hef ég drukkið einu sinni áður - en var enn ánægðari með það núna í þetta skiptið. Það passaði ljómandi vel með Pollos Asados. Þetta vín er upprunið frá Spáni og gert úr Tempranillo þrúgum. Það fær að liggja á eikartunnum í 12 mánuði og síðan í flöskum í 2 ár áður en það er sett á markað. Þetta vín er dökkt í glasi, kryddað og smakkar af dökkum ávexti, kirsuberjum, ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. Þrælgott vín!

kjúklingur

Bon appetit!

Sunday, 20 March 2011

Frábær grænmetistagína með kjúklingabaunum, kartöflum og gulrótum meðkúskús og salati



í potti

Ég held áfram að reyna við grænmetisréttina. Þessi réttur var á boðstólnum núna í seinustu viku. Er ennþá eitthvað að reyna að bauka við þetta manifestó sem lagt var upp með í upphafi árs - þó verður að viðurkennast að við höfum brotið reglurnar nokkuð oft. Þó oftast bara af illri nauðsyn - það þurfti að klára matarafganga! Tengdamóðir mín segir enga dyggð göfugri en að vera nýtinn!

Ég hef síðustu vikurnar sankað að mér nokkrum bókum um grænmetismat sem margar hverjar eru ansi góðar. Auðvitað átti ég talsvert af matreiðslubókum sem innhéldu margar góðar uppskriftir - en þetta var ansi góð afsökun fyrir því að fá sér nokkrar bækur í viðbót. Ég veit ekkert betra en að blaða í matreiðslubókum, renna í gegnum uppskriftina, skoða myndirnar og spekúlera í því hvernig ég myndi elda þennan rétt.

Fyrsta matreiðslubók Yotam Ottolenghi - Ottolenghi - er sannarlega góð til innblástrar, einnig nýjasta bók hans Plenty - sem er samsafn af grænmetisréttum sem hann hefur skrifað fyrir The Guardian. Síðan hef ég keypt eina svona The Complete Vegiterian Cookbook eftir Sarah Brown sem tekur saman uppskriftir sem voru skrifaðar fyrir Readers Digest. Bókin er  svosum ágæt, en eins og allar svona  "complete" bækur, þá eru þær ekkert voðalega "complete". Bróðir minn keypti eina sem er líka ansi skemmtileg, The Moosewood Cookbook,  en gallinn við hana að það vantar allar ljósmyndir. Ég kýs alltaf heldur bækur með myndum en án mynda! Margar uppáhalds matreiðslubækurnar mínar eru samt án mynda; The Silver PalateMatur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur, frönsku biblíurnar; Escoffier, Larousse Gastronomique, hin ítalska - The Silver Spoonog svo mætti lengi telja. Þó skreyta myndir gjarnan endurútgáfur þessara titla. Jæja, snúum okkur núna að matnum.

Gómsæt grænmetistagína með kjúklingabaunum, kartöflum og gulrótum með kúskús og salati

Hráefnalisti

1 1/2 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
3 msk jómfrúarolía
1 tsk kúmen
1 1/2 tsk túrmerik
2 tsk möluð kóríanderfræ
1 tsk Harissamauk
2 dósir niðursoðnir tómatar
Vatn
Grænmetiskraftur
Salt og pipar
10 kartöflur
4 gulrætur
1/2 paprika
1 dós kjúklingabaunir
1 msk hungang

Einn og hálfur rauðlaukur skorinn í sneiðar, 4 hvítlauksrif skorinn í þunnar sneiðar og steikt í 3 msk af jómfrúarolíu við heldur lágan hita í 5-10 mínútur. Laukurinn á ekki að brúnast - bara verða mjúkur og karmelliserast. Þá var einni tsk af kúmeni, 1 1/2 tsk túrmeriki, 2 tsk af nýmöluðum kóríander fræjum, 1 tsk af Harissamauki - steikt í smá stund með lauknum, rétt til að vekja kryddin. Þá var 2 dósum af niðursoðnum tómötum bætt saman við, jafnmikið af vatni, grænmetiskraft og auðvitað salt og pipar. Síðan var 10 kartöflum skornar í heldur stóra bita, 4 gulrætur í þykkum sneiðum, hálf rauð papríka í í bitum bætt saman við og suðan látin koma upp. Saltað og piprað. Bætti síðan við einni dós af kjúklingabaunum og fékk af krauma áfram í 20 mínútur. Síðan var kássan smökkuð til með salti og pipar, sætt með 1 msk af góðu hunangi. Hrært vel saman.

meðlæti

Þetta var ekki alveg grænmetisréttur - því 10 mínútum áður en maturinn var tilbúin braut ég fjögur egg út í kássuna (þetta er auðvitað alveg "optional") Síðan var handfylli af skorinni ferskri steinselju dreift yfir.



Borið fram með kúskús og síðan einföldu salati; blönduð grænlauf, tómatar, agúrkur, gul og rauð paprika og síðan smávegis af fetaosti.

Þessi réttur kom sérstaklega á óvart - oft finnst mér grænmetisréttir skorta bragðdýptina sem oft fylgir góðum kjötréttum en þessi réttur náði einhvern vegin að mæta öllum mínum væntingum. Við fengum okkur smá hvítvínstár með matnum. Ég hafði keypt Two Oceans Sauvignion Blanc hvítvín í systeminu - búkollu til að eiga í kælinum. Þetta eru prýðiskaup. Fölgult á litinn, sítrus ávöxtur á tungu, perur, þurrt og gott.

Það hefði ekki verið verra að bera þennan rétt fram með líbönsku flatbrauði.

matur

Bon appetit!

Tuesday, 15 March 2011

Ljúffeng Sushiveisla: Heimagert ferskt og djúpsteikt sushi og grænmetií tempúra!



jón skenkir sake

Dóttir mín fékk þá flugu í höfuðið fyrir viku síðan - um það leið sem við vorum að renna í hlaðið frá Austurríki að næstu helgi við yrðum að gera sushi og bjóða vinum okkar í mat. Alls ekki versta hugmynd sem hún hefur fengið. Við erum nokkrir nágrannar sem höfum til skiptis á að efna til svona sushiveislna. Og það er alltaf gaman að gera og borða sushi.

Ég hef líka haft þann háttinn á að bjóða fólki snemma og svo hjálpast menn að að gera sushi-ið. Það er miklu einfaldara en margur heldur að skera niður hráan fisk og vefja inn í hrísgrjón og þang. Einhversstaðar heyrði ég að það væri tólf ára nám að verða Sushi Master. Sá hlýtur að vera góður í skera fisk! Alltént gilda sömu reglur í sushigerð og annarri matargerð - það verður að vanda hráefnisvalið. Því betra sem hráefnið - því betra verður sushi-ið.

Að öllum ólöstuðum þá gerir Sigrún Þorsteinsdóttir besta sushi sem ég hef smakkað. Sigrún er mikill matgæðingur og heldur úti ljúffengri (og verðlaunaðri) heimasíðu - Cafe Sigrún. Einhverntíma á því herrans ári 2007 var okkur hjónum boðið heim til vinafólks okkar, Óla og Elvu. Þar hafði Sigrún boðist til að gera sushi - og það var frábært. Ég lærði margt af henni - og hún fer líka óhefðbundnar leiðir - notar ýmislegt grænmeti sem ekki er hefð fyrir í japanskri matargerð og svo auðvitað grillað laxaroð - sem er frábært í sushi. Takk Sigrún!

Til að setja tóninn fyrir þessa færslu þá fannst mér viðeigandi að setja hlekk á lag eftir Meiko Kaji sem er japönsk leik- og söngkona. Hún hefur verið vinsæl í Japan um árabil en varð þekkt á vesturlöndum þegar Quentin Tarrantino notaði lag hennar - The Flowers of Carnage - í kvikmyndina Kill Bill.

Annars hafa Japanir átt hug minn allan þessa síðustu daga af augljósum ástæðum. Óska þeim alls hins besta á þessum hörmungartímum!


Ljúffeng Sushiveisla: Heimagert ferskt og djúpsteikt sushi og grænmeti í tempúra!

Nori blöðin eru gerð úr sjávarþangi sem er ræktað við strendur Japans. Þanginu er auðvitað safnað, síðan pressað og rúllað út í þunn blöð og í lokin ristað. Blöðin eru yfirleitt grænleit en geta tekið á sig dökkari grænan/svartan lit við geymslu. Svona blöð fær maður í öllum verslunum núorðið. Wasabe er oftast selt sem duft eða sem mauk. Það er unnið úr piparótinni Wasabia Japonica og getur verið ansi sterkt. Byrjendur ættu því að fara varlega. Ég kaupi líka alltaf pæklaðan engifer - sem er ansi sætur. Hann er gott að taka á milli bita til að hreinsa bragðlaukanna. Fyrir þá sem finnst wasabe vera alltof sterkt má alltaf þynna það út með því að blanda því saman við mayonaise eða creme fraiche. Sumir myndu kalla þetta algert guðlast en maður verður að aðlaga matinn að sýnum eigin bragðlaukum og gesta sinna.

DSC_0038

Fyrsta skrefið í sushigerð er að huga að hrísgrjónunum. Sushi hrísgrjón er það sem kallast "short grain" hrísgrjón og innihalda mikið af sterkju sem gerir það að verkum að grjónin klístrast saman við og eftir suðu. Reyndar innihalda þau svo mikla sterkju að flestir framleiðendur ráðleggja manni að skola þau nokkrum sinnum í köldu vatni áður en þau eru soðin. Þumalreglan er að maður skal skola þau þangað til að vatnið verður nokkurn veginn hreint og vel gegnsætt (í byrjun er það alveg skýjað)

Þá er að sjóða þau eins og reglur gera ráð fyrir. Þegar vatnið er gufað upp er potturinn tekin af hlóðunum og hrísgrjónin látin standa í pottinum í 10 mínútur áður en eru þau lögð í tréskál/trébretti og blanda af hrísgrjónaediki, sykri, salt og mirin hellt varlega jafnt yfir grjónin (á móti hverjum 600 gr af hrísgrjónum: 1/2 bolli (125 ml) edik, 1/4 bolli (55g) sykur, 1/2 tsk salt og nokkrir dropar af mirin).

Hrísgrjónunum er síðan snúið varlega með trésleif með einni hendi á meðan maður blakar blaði (blævæng eigi maður hann til) til að kæla grjónin. Þau eiga að vera við herbergishita þegar maður byrjar að nota þau í sushi-ið.

hrísgrjón

Tempúradeigið var fljótgert. Hálfur bolli af hveiti og sama magn af kartöflumjöli, 1 tsk af lyftidufti er hrært saman. Síðan er einum bolla af ísköldu sódavatni blandað saman við. Ég skar niður sæta kartöflu, kúrbít þunnt niður og velti upp úr deiginu og djúpsteikti og einnig nokkrum sugarsnaps baunaum. Deigið gerði ég bara rétt áður en það var notað. Það er vel kalt þegar það fer í heita olíuna og þannig verður það extra stökkt og knassandi. Þegar það byrjar að fá á sig lit er það tekið úr pottinum og sett á eldhúsþurrku, þannig að olían drjúpi af, og síðan fært yfir á disk. Saltað lítillega. Sætu kartöflurnar þurfa aðeins lengri eldunartíma en t.d. kúrbíturinn og baunirnar.

tempúra

Borið fram með "dipping" sósu gerðri úr 4 msk soya, 2 msk af mirin, 3 msk af ediki, 1/2 msk sykur og 1-2 cm af smátt skornu engifer. Þessi sósa var líka borin fram með djúpsteikta sushi-inu.

Við vorum þrjú saman sem vorum í sushigerðinni. Undirritaður ásamt Signýju Völu (sem er þaulvön) og síðan Jón Þorkell sem var að snúa úr fimm ára löngu sushigerðarleyfi. Hann stóð sig með miklum sóma, enda handlaginn fram í fingurgóma. Við vorum ansi frjálsleg með hráefnið og brutum reglur í hvívetna.

Við vorum með þrjár tegundir af sjávarfangi; ferskan lax undan ströndum Noregs, Kóngakrabbafætur og svo íslenskan humar. Ljúffengt. Við notum síðan ýmislegt grænmeti; agúrku, ommilettu, gulrót, aspas, vorlauk, avakadó ásamt ýmsu fleiru. Svo settum við grillað laxaroð í nokkrar rúllur. Settum wasabe í sumar og pæklaðan engifer í aðrar. Bara nota hugmyndaflugið. Grænmetið er auðvitað skorið þunnt niður í langar ræmur til að passa vel í rúllurnar.

Við gerðum nokkrar tegundir af maki rúllum.

maki

Gerðum einnig Uru-maki rúllur, þar sem grjónin liggja utan á. Það er einfaldara er margur heldur. Bara leggja plastfilmu á bambusmottuna, síðan lag af hrísgrjónum, svo Noriblað og að lokum fyllingin. Rúlluð upp á nákvæmlega eins hátt og gert er með hefðbunda makirúllu. Það er þó erfiðara að skera þær niður og það verður að nota flugbeittan hníf svo að þær losna ekki í sundur.

Það sést ekki á myndinni en þeim var síðan velt upp úr sesamfræjum og rauðum kavíar.

rúllur

Signý gerði nokkrar tegundir af nigiri sushi, með humri og laxi. Undir fisknum er vaninn að setja smávegis af wasabe.

nigiri

Jón Þorkell skar niður afganga af sjávarfanginu og stillti upp á disk - sashimi

sashimi

Ég tók tvær rúllur af maki bitum, skar í viðeigandi stóra bita, skellti ofan í tempúradeigið og svo djúpsteikt þar til þær voru stökkar og gullnar að utan.

djúpsteikt sushi

Með matnum gæddum við okkur á japönsku sake víni sem Jón og Álfa komu með og svo bar ég fram með matnum Peter Lehmann Chardonnay hvítvín. Þetta er sama vínið og ég var með í seinustu færslu. Við keyrðum í gegnum Bordershop í Þýskalandi á leiðinni frá Austurríki og ég kippti með nokkrum flöskum sem ég hafði geymt inní ísskáp.




Peter Lehmann Chardonnay 2008 er eins og ég hef nefnt áður alveg ljómandi gott hvítvín. Klassískt Chardonnay. Ilmar af ávöxtum, sömuleiðis á tungu, smjörkennt og eikað. Ljómandi vín - borið fram vel kælt með matnum. Namminamm.

matur

Bon appetit!

Wednesday, 9 March 2011

Ljúffengt Bavette alla vegitariana með parmaosti, heimagerðu hvítlauksbrauði og einfaldasta salatinu


undirbúningur

Við erum kominn heim til Svíþjóðar og raunveruleikinn blasir við á nýjan leik. Það er alltaf erfitt að byrja aftur að vinna eftir langt skíðafrí! Við ókum frá St. Michael í Austurríki á föstudaginn síðastliðinn eftir frábæran skíðadag í glampandi sól og logni. Sannkallaður sæludagur.

Við skíðuðum í Katchberg og Aineck, öll stórfjölskyldan - mamma, pabbi og bróðir minn voru einnig með í för. Svona dagar geta ekki annað en verið góðir. Í hádeginu fengum við okkur hádegisverð hjá bónda, Schlögelberger, sem ræktar krónhirti og margir réttir á matseðlinum státa af hráefni frá honum sjálfum. Við fengum okkur Hirchbraten mit Knödel und Preiselbeeren (krónhjartarsteik með brauðbollum (dumplings), sultu og brúnni sósu) - sælgæti! Við náðum eiginlega að skíða allan daginn. Í lok dags hlóðum við bílinn og keyrðum af stað í átt til Svíþjóðar.  Við náðum að aka rúmlega 400 km - og dvöldum á litlu hóteli rétt sunnan við Nurnberg og á laugardeginum náðum við að keyra rúmlega 1000 km heim í Púkagrandan í Lundi.

Það var bæði sætt og súrt að koma heim. Auðvitað er alltaf gott að koma heim! Þar er auðvitað best að vera - en það er svo gott að vera í skíðafríi. Og núna er því lokið... því miður. En þá er ekkert annað að gera en að fara að hlakka til þess sem er framundan. Vinna og svoleiðis - sem er ekki alveg eins spennandi ... En það verður alltaf næsta ár!

Þegar heim var komið á laugardagskvöldið elduðum við kjúkling á rotisserí-tein í ofninum með einfaldri sveppasósu og bökuðum kartöflum. Það hjálpaði aðeins við að minnka Alpasöknuðinn. Auðvitað ekki alveg. Núna er hversdagurinn kominn aftur og við reynum að elda hollan og góðan mat.

Í gær vorum við með lax með soya sósu sem ég hef greint frá áður hérna á blogginu - en í kvöld reyndi ég að gera eitthvað nýtt! Satt best að segja langaði mig mest í Spaghetti Carbonara - en beikon er ekki í boði um þessar mundir. En grænmeti liggur hátt á listanum - þannig að úr varð Spaghetti alla vegitar "ara" - nema hvað ég notaði Bavette pasta, sem eru svona flöt, aðeins ávöl, rör. En að öðru leiti var aðferðafræðin og uppskriftin eiginlega óbreytt - nema grænmetið kom í stað beikonsins.

Ljúffengt Bavette alla vegitari "ara" með parmaosti, heimagerðu hvítlauksbrauði og einfaldasta salatinu

Fyrst var að skera niður grænmetið. 4-5 hvítlauksrif, ein meðalstór rauðlaukur - skorin niður smátt og steiktir í smávegis af jómfrúarolíu. Bætti síðan útí hálfum púrrulauk skorskornum í sneiðar, hálfur kúrbítur og síðan 15 sveppir skornir í fjórðunga. Steikt við lágan hita í 10-15 mínútur. Saltað og piprað. Síðustu mínúturnar hellti ég 50 ml af matreiðslurjóma saman við og lét sjóða niður um sirka helming. Haldið heitu.

ápönnunni

Hrærði síðan saman fjórum stórum eggjum, saltaði og pipraði, 30 gr af rifnum parmaosti, handfylli af smáttskorinni steinselju og basil. Lagt til hliðar um stund þar til að pastað er tilbúið.

Sauð fullan pott af vatni, 2-3 tsk af salti. Hugmyndin er að fyrir hver 100 gr af pasta skal maður hafa einn líter af sjóðandi söltu vatni. Að salta vatnið er líka mikilvægt, það opnar pastað betur þannig að það tekur betur í sig sósuna.

Þegar pastað er tilbúið þarf að hafa hraðar hendur. Hella vatninu frá, hella grænmetinu yfir og síðan eggjablöndunni, hræra vel og setja lokið aftur og láta standa í 2 mínútur. Þannig eldast eggjablandan og verður að silkimjúkri sósu.

DSC_0538

Peter LehmannBorið fram með heimagerðu hvítlauksbrauði (og þó - baguettuna keyptum við útí búð). Notuðum meira að segja Lautrec hvítlauk í hvítlauksolíuna. Rósahvítlaukur frá Lautrec mun vera einn sá besti

í heiminum. Ég keypti hann í Frakklandi í ágúst síðastliðnum og konan sem seldi mér hann sagði að hann ætti að haldast fínn í rúmt ár. Tók núna eftir því að hann er farinn að þorna þannig að það var ekkert annað að gera en að nota hann í alla matargerð - ekki bara á tyllidögum!

Með matnum fengum við okkur smáræðis hvítvínstár. Við höfðum að sjálfsögðu stoppað í Bordershop á leiðinni frá Þýskalandi og keypt smáræði inn af bjór og léttvíni. Við kipptum með nokkrum glerjum af Peter Lehmann sem er alltaf á góðu verði í þessari fljótandi verslun. Vínin frá Peter Lehmann eru alltaf góð kaup. Peter Lehmann Chardonnay 2008 er alveg ljómandi gott hvítvín. Er klassískt Chardonnay og hefur alla þá kosti sem slíkt vín á að að bera. Ilmar af ávöxtum, sömuleiðis á tungu, smjörkennt og eikað. Ljómandi gott.

bavette

Svo er bara ekkert annað að gera en að setja pastað í skál, rífa parmaost yfir og njóta. Þessi réttur heppnaðist ljómandi vel og verður án efa aftur á borðum í Púkagrandanum.

Bon appetit!

Tuesday, 1 March 2011

Alpablogg: Heil- og langeldaður grís með rótargrænmeti í frábærristemningu á afmælisdaginn




IMG_2442

Það er búið að vera lítið um að vera á bloggsíðunnni minni síðustu tólf daganna eins og lesendur hafa kannski tekið eftir. En það er ekki vegna þess að það hefur verið neitt letilíf á manni - aldeilis ekki! Eins og ég hef nefnt í síðustu færslum þá höfum við haft augun á Austurísku Ölpunum síðustliðna mánuði! Og hingað erum við nú loksins komin. Algerlega stórkostlegt. Við ókum af stað í fyrir rúmri viku, á fimmtudagseftirmiðdegi, strax eftir að vinnu lauk. Við dvöldum eina nótt í Wittstock - sem er smábær í Norður Þýskalandi - einna helst þekktur fyrir bardagann sem þar var háður 1636 þar sem Svíar börðust og sigruðu Þjóðverja. Hótelið sem við gistum á mun vera á sama stað og bardaginn var háður. Daginn eftir ókum við síðan sem leið lá - 900 km til St. Michael í Lungau héraði í Salzburgerland. Tveggja vikna skíðafrí framundan - er eitthvað betra?

Við erum búinn að vera að skíða núna í rúma viku, í Grosseck-Speiereck, Katchberg og Obertauern. Og það er búið að vera frábært. Við höfum fengið sól í fimm daga af sjö - en það hefur verið skítakuldi og rok! En samt frábært. Við höfum verið hérna með góðum vinum okkar, úr vinahópi sem hefur fengið nafnið The Fab 8, nema hvað! Tveir komust ekki vegna anna. Hérna var kollagar mínir frá Sviss, Skotlandi, Englandi, Þýskalandi og tveir frá Íslandi (núna Svíþjóð). Svo voru líka nokkrar vinafjölskyldur frá Lundi á hóteli í nágrenninu.

Ég hélt upp á 35 ára afmælið mitt á fimmtudaginn síðastliðinn. Það var alveg einstakur dagur frá upphafi til enda. Grísirnir mínir fóru í skíðaskólann um morguninn - og við hin tókum stefnuna á Obertauern. Við vorum kominn um klukkan tíu á skíðin og fórum hringinn, Tauernrunde, í glampandi sól og í frábærum félagsskap. Færið var frábært! Um kvöldið var síðan veisla á Skihotel Speiereck. Alveg einstök stemming. Myndin var tekin af undirrituðum áður en hann lagði af stað ásamt vinum sínum niður brekkurnar í Obertauern þann 24.febrúar 2011.

ragnarobertauern

Alpablogg: Heil- og langeldaður grís með rótargrænmeti í frábærri stemningu á afmælisdaginn

Það verður tekið fram að ég eldaði ekki neitt í þessari færslu - aðrir sáu um vinnuna. Ég tók ekki einu sinni tappann úr flöskunni, Harold vinur minn sá um það. Ég sat bara og naut veitinganna.

heilsteiktsvín

Núna vildi svo til að slátrarinn kunni nokkur orð í ensku og gat svarað spurningum mínum, en hann var mjög leyndardómsfullur og vildi lítið gefa upp hvernig grísinn var eldaður. Ég fékk uppgefið að grísinn væri lagður í léttan pækil (sem er blanda af vatni, salti, sykri í ákveðnum hlutföllum og oft bragðbættur með kryddjurtum). Síðan er grísinn eldaður við lágan hita í meira en sólarhring. Það þarf varla að geta sér til um en að grísinn verður allur lungamjúkur. Þannig að hver einasti biti hreinlega bráðnar í munni. Það er nánast svo að það finnst enginn munur á lund og kinn - allt hreinlega hefur eldast svo vel - namminamm.

svínskorið

Með matnum var svo borið fram ofnbakað rótargrænmeti, bragðbætt með timian og rósmarín. Einnig hafði Haddi kokkur útbúið Waldorf salat og síðan ljúffenga soðsósu.

svínakjöt

Þar sem ég átti afmæli hafði Haddi búið til Pavlóvu handa okkur - Pavlova er, jú, ein besta kaka sem hefur verið fundin upp. Haddi setti kiwi og jarðaber á kökuna og hún smakkaðist frábærlega. Ég hef oft gert hana sjálfur og gert skil á því á blogginu mínu, hérna er dæmi um pavlovugerð mína.

pavlova

Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, RODA I Reserva 2005. Harold Köndgen, svissneski vinur okkar og kollegi, er mikil vínunnandi og hann kynnti mig fyrir þessu víni þegar við kynntumst í Portúgal fyrir fjórum árum síðan. Hann er vínáhugamaður fram í fingurgóma og var mjög ánægður þegar hann sá þetta vín í hillum ÁTVR - sérstaklega var hann, á þeim tíma, ánægður með verðið. Vegna reglna um álagningu á áfengi eru dýr vín oft ódýrari en erlendis. Hann keypti 2-3 flöskur sem við nutum saman.

RODA

Þetta er kraftmikið vín. Mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu, hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Samt eru þetta margverðlaunuð vín, kannski ekki að undra þegar maður les manifesto framleiðendanna, þeirra Mario og Carmen - http://www.roda.es/english/index.html. Það má deila um það hvort að svona vín passi vel við heilsteiktan grís. Sitt sýnist hverjum. Stemmingin á hótelinu var alltént frábær og það var á hreinu allt var þetta hreinasta afbragð. Það var spjallað, hlegið og drukkið fram eftir kvöldi.

Mæli með því að þið kíkið í heimsókn - það er venja að bjóða upp á heilsteiktan grís á miðvikudagskvöldum á Skihótel Speiereck. Við eru svo heppinn að fá að njóta þess tvisvar - þar sem við verðum hérna svo lengi.

hotelmynd

Bon appetit.