Tveir pastaréttir í röð! Það verður að segjast að það er ansi mónótón! Það var þó ekki lagt upp með slíkt. Mín hugmynd var að gera ommilettu á franska vísu með sömu hráefnum - en ég varð að lúta lægra haldi fyrir heimilisfólki sem stakk upp á að gera annað. Maður getur ekki alltaf fengið að ráða. Ég verð að hugga mig við að þetta er þó enn í anda manifestósins - og núna var komið að því að gera fisk.
Þessi réttur er auðvitað byggður á Spaghetti Carbonara - sem er einn af mínum uppáhalds spaghetti réttum. En lífið getur ekki verið endalaust beikon. Svoleiðis er það nú bara. Þessi útgáfa myndi teljast sem svona "spin off" í hollari kantinum. Reyktu bleikjuna hef ég verið svo heppinn að fá frá Íslandi. Tengdafaðir minn, Eddi, er veiðimaður fram í fingurgóma og er duglegur að bera í mig reyktan fisk. Takk Eddi minn!!!
Annars var ég að fá mér nýja myndavél. Vonast til þess að hún verði til að myndirnar á síðunni minni verða fallegri. Maturinn á líka að gleðja augað.
Silkimjúkt Spaghetti með reyktri bleikju, rauðlauk og kapers. Namminamm!
Þetta er ansi fljótlegur réttur. Og hann má gera á 10 mínútum - öllu fljótlegra verður það ekki.
Fyrst er að sjóða vatn, ríkulega saltað og síðan sjóða gott spaghetti eftir leiðbeiningum. Á meðan eru hin hráefnin undirbúin. Fimm egg sett í skál og þeytt saman með 2 msk af léttum creme fraiche. Saltað og piprað. Síðan er heill rauðlaukur skorinn heldur smátt niður. 250 g af reyktri bleikju er síðan skorinn niður þunnt.
Þegar spaghettíið er al dente, þarf að hafa hraðar hendur. Vatninu er hellt frá. Eggin, bleikjan, rauðlaukurinn og svo 2 msk af kapers er hrært saman við rjúkandi heitt spaghettíið og svo er lokið sett á og leyft að standa í 2-3 mínútur. Við þetta eldast sósan og bleikjan. Saltað og piprað.
Borið fram með einföldu salati, kannski smá brauðhleif og hvítvínstári - eigi maður slíkt skilið á annað borð.
Bon appetit.
Vildi að ég hefði verið á staðnum!
ReplyDeleteSæll.
ReplyDeleteFyrir löngu benti ég þér á að myndskreyta bloggfærslur þínar á moggablogginu og þú fórst eftir því. Þá var ég reyndar á öðru notendanafni sem við skulum láta liggja á milli hluta :)
Nú ætla ég að benda þér á nýja kynslóð matseldarbloggs sem finna má á www.foodwishes.com.
Þar eldar chef John misholla rétti, með Le Creuset pottum og pönnum og segir okkur skemmtilega brandara til að halda okkur við efnið.
Það væri gaman að sjá hjá þér eitt lítið myndband, en ef þú ert ekki þannig stemmdur, þá gætir þú alltént haft gaman af John og hans tilburðum í eldhúsinu, hafir þú ekki vitað af honum áður.
Gangi þér annars vel í eldhúsinu. Ég fylgist reglulega með þér og hef gaman af.
Sæll Björn
ReplyDeleteHafðu þakkir fyrir góð ráð. Núna hef ég meira að segja fjárfest í nýrri myndavél til að gera áhugamáli mínu betri skil.
kíki á bloggið sem þú bentir á!
Sé til hvort að ég taki áskoruninni um myndband.
mbk, Ragnar