Núna er aftur kominn virkur dagur. Og þá vík ég aftur að manifestóinu - það þýðir ekkert að gefast upp strax þrátt fyrir smá frávik strax á fimmtudaginn í seinustu viku. Og á mánudögum er löng hefð fyrir því að hafa fisk. Þetta auðvitað góður vani á mörgum íslenskum heimilum. En það er engin kúltur fyrir þessu í hérna í Svíþjóð. Það er meira að segja svo að hérna í á Skáni tíðkast það að loka fiskbúðum á mánudögum enda oft um hráefnafæð á þessum dögum að því að mér skilst mér á kaupmönnunum.
Anthony Bourdains sagði í bók sinni The Kitchen Confidentia "that you should never order fish on a monday" og gaf síðan góðan skýringu á því. Það væri vegna þess að sá fiskur hafði verið pantaður inn vikunni áður og væri því orðin gamall. Auðvitað var hann að ræða um veitingastaði en það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta ætti við margar fiskbúðir á meginlandinu. Á Fróni er þetta auðvitað ekkert vandamál. Góður fiskur er vaninn ekki undantekningin.
Ég átti fisk í frystinum sem ég gat tekið út. Átti eitt ræfilslegt smálúðuflak sem hefði ekki dugað upp í nös á ketti en ásamt nokkrum bitum af steinbít varð þetta nóg í máltíð fyrir fjölskylduna. Steinbítur er ógurlega ljótur fiskur og var ásamt skötuselnum lengi vel hent aftur í sjóinn varð einhver sjómaður svo óheppinn að fá þessa skepnu á línuna hjá sér. Þetta þykir matfiskur góður - en ég verð að segja að ég kann meira við skötuselinn! Hann er jú humar fátæka mannsins (þó kostar hann hvítuna úr augunum). Myndina fékk ég lánaða af heimasíðu Sævars Þórs Ásgeirssonar - vona að hann fyrirgefi mér lánið.
10. janúar: Steinbíts- og smálúðufiskibollur með hvítlaukssósu, kartöflum með dilli og salat
Að gera fiskbollur er einfalt. Ég var með um 700 gr af fiski sem ég setti í gegnum hakkavél, síðan einn og hálfan lauk, 2-3 hvítlauksrif, nóg af salti, sítrónupipar, kúfaða skeið af grófu dijon sinnepi, 3 egg og kannski rétt rúman bolla af hveiti. Síðan er bara að hita blöndu af smjöri og olíu á stórri pönnu og þegar hún er orðin heit - byrja að steikja fiskibollur. Steikja við miðlungshita þar til gullinbrúnar á öllum hliðum og steiktar í gegn.
Borið fram með soðnum kartöflum og þegar tilbúnar, 1 msk af olíu hellt yfir og saxað ferskt dill. Gerðum einnig gott salat - með grænum laufum, rauða papríku, tómat, rauðlauk og smávegis af fetaosti.
Með matnum var ég með sömu sósu og gerði með laxinum. Hún var svo ári góð að það var ekkert úr vegi að endurtaka leikinn. 3-4 matskeiðar af létt creme fraiche, 2 tsk af hvítlauksolíunni góðu, safi úr hálfri sítrónu, salt og pipar eftir smekk.
Bon appetit.
No comments:
Post a Comment