Í vor bloggaði ég um götuveislu sem var haldin í götunni okkar í Pukgränden í Lundi, sjá hérna. Þar kynntumst við mikið af góðu fólki sem eru nágrannar okkar. Snædís og ég vorum í undirbúningsnefndinni ásamt öðrum. Síðan þá höfum við í undirbúningsnefndinni hist nokkrum sinnum. Hjónin í númar 18 buðu okkur í sumarhúsið sitt í Smálöndunum í sumar og þar reyndum við að veiða villisvín. Gekk þó ekki það skiptið en við borðuðum með þeim frábæra villibráð, sjá hér. Núna hafði húsbóndinn veit bæði elg og dádýr og sendi okkur síðan nokkra góða bita, elgsinnanlæri, dádýrsleggi og svo smávegis af elgshakki. Ekki leiðinlegt að eiga svona vini!
Haustin hérna eru eins og heima - góður tími fyrir veiðimenn og alla þá sem kunna njóta villibráðar. Þetta er tími gæsanna, andanna, hreindýrs og rjúpnanna á Íslandi en hérna úti hefur náttúran upp á aðeins meira að bjóða, elg, villisvín, dádýr og fasana. Mér finnst sérstaklega gaman að elda villibráð - það hefur eitthvað hátíðlegt yfirbragð og stundum finnst mér eins og það eigi bara heima á hátíðum eins og jólunum - en þá kemst maður ekki yfir allt og því er þjóðráð að borða þetta oftar.
Mér finnst það alltaf eiga vel við að bera fram eldaða ávexti með villibráð - það kemur í staðinn fyrir að bera góða sultu með matnum (sem á líka oft vel við). Eitt útilokar auðvitað ekki annað. Oft hef ég steikt epli í smjöri með smá rósmaríni en í þetta skiptið átti ég fullt af sænskum perum. Það var ekki síðra.
Mér finnst það mikilvægt þegar elduð er villibráð að leyfa henni að njóta sín eins og hægt er þannig að bragðið nái að koma fram og aðrir réttir á matseðlinum séu til stuðnings en yfirgnæfi ekki. Sum krydd finnst mér líka eiga betur við en önnur, bergmynta, timian, salvía - arómatísk krydd, einiber og þar fram eftir götunum. Og svo auðvitað salt og pipar. Allavega fékk lærið einfalda meðferð. Það var nuddað upp úr olíu, saltað og piprað og svo var heilmikið af timian nuddað inn í kjötið. Lagt á beð af niðursneiddum gulrótum, sellerí og hvítum lauk, nokkrum lárviðarlaufum, nokkrum piparkornum í ofnpotti. Hitamæli komið fyrir og svo bakað við 150 gráðu hita þangað til að kjarnhiti náði 62 gráðum. Þá var kjötið tekið út og látið hvíla í hálfa klukkustund. Allur vökvi sem hefur safnast fyrir í fatinu er tekið til hliðar og notaður í sósuna.
Sósugerðin var heldur einföld þetta skiptið. Ég átti til fullt af heimagerðu lambasoði - sem varð til snemma í haust þegar ég var að elda fyrir fótboltagarpana, sjá hér. Ég hafði rænu á því að spara allan vökva sem rann af lærunum og ekki fór í sósuna (sósupottarnir tóku bara ekki meira). Soðið var hitað í potti, soði af dádýrinu bætt saman við. Átti líka karljóhann sveppi í frystinum sem ég týndi í Danmörku í haust sem ég lét líka út í sósuna. Þykkt með smjörbollu. Bætti rjóma saman við og sauð niður. Bragðbætt með smávegis heimagerðri brómberjasultu og smá bita af mygluosti. Salt og pipar, bingó.
Bárum fram kartöflugratín með matnum. Flysjaði kartöflur og sneiddi örþunnt með mandólíni. Smurði síðan eldfast mót með hvítlauksolíu. Svo var ekkert annað að gera en að raða kartöflum í fatið og læddi á milli nokkrum tegundum af ostum, sem hann faðir minn hafði keypt inn (hann er mikill ostamaður). Síðan rjómi ... auðvitað - blanda af matreiðslu og venjulegum, salt og pipar. Þá var ekkert eftir en að setja rifinn ost ofaná og síðan bakað í ofni í 5-6 korter. Namminamm.
Gerði líka steikt spínat. Fyrst steikti ég heimagert beikon og síðan var 300-400 gr af spínati bara sett ofan á. Salt og pipar. Síðan lok ofaná og spínatið hreinlega hverfur ofan í heitt beikonið. Þetta er ári góður réttur - salt og reykt beikonið gefur spínatinu kraftmikið bragð sem mér fannst passa vel með villibráðinni.
Eins og nefnt var að ofan gerði ég líka steiktar perur. 2-3 grænar perur voru flysjaðar og sneiddar niður og síðan steiktar með nokkrum rósmarín nálum. Þær voru steiktar þangað til að þær fengu á sig fallegan lit.
Með matnum drukkum við þetta ágæta Rioja vín sem ég hef keypt nokkrum sinnum áður, kaupi oft nokkrar í senn - þannig að þetta er oft til inn í skáp hjá mér. Coto de Imaz Rioja Reserva er spánskt tempranillo frá því 2004. Kraftmikið Roija vín; þykkt og dökkt. Ilmar af vanillu og eik. Vínið ku hafa fengið að liggja á eikartunnum um skeið. Bragðið er gott, þétt og í því mikill ávöxtur.
Bon appetit.
No comments:
Post a Comment