Monday, 22 November 2010

Örblogg: Gorganzolasósa með svínakjöti - hvílíkt og annað eins!

Þetta er bara svona örblogg. Smá rafræn bragðprufa úr eldhúsinu mína. Erum búinn að vera með góðan gest um helgina. Tengdafaðir minn, Sigurður Eggert ... Eddi - er búinn að vera hjá okkur síðan á miðvikudagskvöldið. Alltaf gott að fá hann í heimsókn. Auðvelt að gleðja þann góða mann.

Ég gerði mitt besta til að hafa hann glaðan. Á fimmtudaginn vorum við með kjúklingaréttinn sem ég bloggaði um seinast. Á föstudagskvöldið eldaði Eddi, gerði lambahrygg. Hann var ágætur að mér fannst en tengdó var ekki nógu ánægður. Í gærkvöldi vorum við með steik og guinness böku sem heppnaðist mjög vel, sjá hér. Í kvöld gerði ég síðan svína - yterfile - sem mér finnst miklu betra en lundin þar sem það hefur aðeins meiri fitu og er þannig safaríkari.

Saltaði og pipraði vel, og stráði síðan smá möluðu fennel utan á kjötið og steikti kjötið aðeins að utan og bakaði síðan inn í ofni þar til kjarnhiti varð um 75 gráður. Bárum kjötið fram með kartöflum, góðu salati og síðan þessari frábæru sósu.

Örblogg: Gorganzolasósa með svínakjöti - hvílíkt og annað eins!
Skar einn lauk niður smátt, 2 hvítlauksrif og steikti í smá smjöri og olíu þar til mjúkt og fallegt. Saltaði og pipraði. Síðan 200 ml af creme fraiche og síðan 150 gr af Galbani gorganzolaosti og bræddi saman. Saltaði og pipraði eftir smekk. Ótrúlega bragðgóð sósa.

Skar einnig niður tvö græn epli niður, í litla ferninga, og steikti með nokkrum söxuðum rósmarínlaufum og bar fram með kjötinu. Passaði rosalega vel saman. Svínakjötsbiti sem bráðnaði í munni með sósunni og eplabitunum. Namminamm.

Bon appetit!