Ég vona að þessi færsla verði til þess að lesendur ákveði að bjóða mörgum vinum eða fjölskyldu í heimsókn og gleðjist saman yfir mat og drykk. Réttir eins og þessir eru sönnun þess að það er hægt að elda mikið af góðum mat - mjög góðum mat - fyrir marga án þess að það dældi hjá manni veskið of harkalega. Í þennan rétt eiga að fara bitar sem gjarnan eru ódýrir, en það þarf tíma til þess að gera þá ljúffenga og mjúka. Þannig er það eiginlega með flesta "óvinsælu" bitana af skepnunum: lambaframpartinn, svínahnakkann, eða skottbitann af nautinu. Allt eru þetta ljúffengir bitar af dýrinu - það þarf bara að "nudda" þá aðeins til að fá það besta úr þeim.
Þannig var nefnilega að við hjónin ákváðum að bjóða nokkrum nágrönnum í mat um helgina. Við buðum fjórum pörum ásamt börnunum þeirra. Ætli við höfum ekki verið eitthvað yfir tuttugu þegar allt var talið með. Og það var gaman. Börnin fengu að borða á undan svo var þeim komið fyrir uppi með leikföng eða fyrir framan sjónvarpið. Við skáluðum í G&T og síðan góðu rauðvíni. Og það var spjallað og hlegið og svo undir miðnættið var meira að segja sungið. Kæru gestir ... það var frábært að fá ykkur í heimsókn.
Svona eldamennska er mikið í uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Þetta er ekki tískueldamennska - ekkert fusion, ekkert verið að raða hlutum upp í turna eins og tíðkast á mörgum fínum veitingahúsum. Þetta er alvöru matur. Með einföldum en góðum hráefnum. Sem með smávegis nostri ná að ljóma og gleðja bragðlaukana. Ekkert við þessa matreiðslu er flókið - en hún er tímafrek. Og á þessum síðustu og verstu tímum - þá held ég að tímanum sé ágætlega varið í eldhúsinu! Eða hvað?
Annars er þetta í annað sinn sem ég blogga um þennan rétt. Og hann á það skilið - svo góður er hann. Þetta var eitt af þeim fyrstu réttum sem ég bloggaði um og hefur lengi verið uppáhald á mínu heimili. Það hefur engu máli skipt hversu mikið af þessari kjötsósu ég hef gert - hún hefur nær undantekningalaust klárast. Einn af mínum bestu vinum Börkur Sigþórsson gerir líka ljúffenga útgáfu af þessum rétti - kannski að hann deili því með okkur í athugasemdunum eða á Facebook.
Eins og nefnt var áður þá er það eina sem þessi uppskrift krefur er tími! Það má eiginlega ekki elda þetta á skemmri tíma en svona 2-3 klukkutímum - en það þarf ótrúlega lítið af hafa fyrir þessu - Og þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þess ber að geta að ég var að elda fyrir rúmlega tuttugu manns
Rúmlega 4 kíló af nautakjöti, mest bitum frá nautaöxl og skottbitar (ossobuco) er þvegið og þurrkað. Saltað vel og piprað og látið bíða á meðan grænmetið er undiðbúið og steikt. 2 heilir hvítlaukar er saxaður niður og sömu örlög hljóta 4-5 fremur stórir laukar - hvítir eða rauðir - það skiptir eiginlega ekki máli. 3-4 gulrætur eru flysjaðar og skornar í smáa bita og einnig þó nokkrar stangir af sellerí. Stór pottur er settur á hlóðirnar og grænmetið er steikt í vænum slurk af olíu - það er sennilega óþarfi að nota extra virgin olíu til að steikja upp úr - margir kokkar segja að svoleiðis olía missi sitt sérstaka bragð við steikingu og því sé óþarfi að spandera góðri olíu í slíkt - ég nota bara það sem hendi er næst! Mikilvægt er að brúna ekki grænmetið.
Þegar laukurinn er orðin glær er kjötið sett útí og brúnað á öllum hliðum í hóflegum skömmtum - passa sig að setja ekki of mikið af kjöti í einu í pottinn - annars sýður það bara. Við viljum að það brúnist. Saltað og piprað á milli. Kjötið er sett á disk á meðan allt er brúnað - mikilvægt að passa allan safa af kjötinu - ekkert má fara til spillis! Þegar búið er að brúna kjötið hellti ég einni flösku af rauðvíni saman við grænmetið - sauð áfengið og bætti síðan kjötinu saman útí aftur.
Þá setti ég 5 dósir af góðum niðursoðnum tómötum útí og jafnmikið af vatni. 2 litlar dósir af tómatapaste er einnig sett út. Mikilvægt er að grænmetið og kjötið sem gjarnan festist við botninn á pottinum losni frá þegar vökvinn er settur úti. Saltað og piprað á nýjan leik.
Ef fólk vill krydda á þessum tímapúnkti er mikilvægt að nota bara kryddjurtir sem þola langa eldun eins og lárviðarlauf eða rósmarín. Ég bjó til vönd af kryddjurtum; rósmarín, lárviðarlauf, timian, majoram.
Suðan er látin koma upp og leyft að sjóða í 1-2 klukkustundir með lokið á. Þá er lokið tekið af pottinum og svo fær rétturinn að malla og sjóða rólega niður. Þetta þarf að sjóða niður minnst um helming. Það er auðvelt að sjá hvenær kjötið er tilbúið - þá fer það eiginlega sjálft að detta í sundur og renna af beinunum. Smakka - ef réttinn vantar meiri kraft - t.d. ef lítið af beinum var með kjötinu þarf stundum að setja kraft - en yfirleitt ekki!
Þegar rétturinn fer að verða tilbúinn þá er rétti tíminn til að setja fleiri kryddjurtir sem þola minni eldun eins og basil og steinselju. Skera kryddið niður og hræra saman við sósuna. Mikilvægt er að smakka sósuna til á þessum tímapúnkti. Stundum eru tómatarnir súrir og þá þarf að sæta sósuna annað hvort með sykri eða jafnvel syndga með tómatsósu. Mikilvægt er að salta og pipra vel - alltaf Maldon og nýmalaðan pipar.
Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni með smá olíu. Þegar pastað er að verða tilbúið er vatninu hellt af því - best að láta pasta í gróft sigti og hrista vatnið vel af - hafa hraðar hendur hér því að pastað þarf að komast aftur í pottinn. 2-3 ausur af sósu er sett yfir pastað og hrært vel þannig að það tekur allt rauðan lit. Látið standa í tvær til þrjár mínútur. Pastað sogar inn í sósuna og verður alveg frábært á bragðið.
Borið fram með fersku salati og svo baguette til að þrífa sósuna af diskinum í lok máltíðar. Ef einhver afgangur er af matnum - þá verður hann bara betri á degi tvö og jafnvel á degi þrjú.
Við vorum með ágæt vín með matnum. Ég keypti Coto Vintage Rioja frá því 2004 sem er á spánskt Rioja rauðvín gert úr 100 prósent tempranillo þrúgum. Þetta er ljúffengt vín. Dökkt og þykkt vín, kryddað í nefi með dökkum berjum og jafnvel súkkulaði á bragðið. Fjári gott vín og var líka vinalegt við pyngjuna.
Bon appetit!