Wednesday, 25 August 2010

Frakklandsferð: Steiktur kjúklingur með kantarellum og Chablis hvítvíní dásemdar Chablis

IMG_2667


Eftir tvo ljúfa daga í smábænum Epernay í hjarta Champagne héraðsins lá leiðin suður eftir sveitavegum í áttina til Búrgúndarhéraðs. Búrgúnd var fyrr á tímum sjálfstætt ríki í Evrópu áður en að það varð hluti af Frakklandi. Héraðið er auðugt, öflugur landbúnaður, nautagriparækt og svo auðvitað búrgúndarvín. Og ekki vín af lakari kantinum. Þekktast á alþjóðavísu er kannski Chablis í norðvesturhluta héraðsins og síðan hefðbundin búrgúndarrauðvín suður af Dijon í átt að bænum Beaune.
IMG_2686


Fyrsta stoppið á leiðinni var Chablis, sem er smábær - þar búa einungis 2700 íbúar sem á einhvern hátt tengjast víniðnaðnum sem umlykur bæinn. Þurrt hvítvín hefur verið aðalmálið í Chablis í aldaraðir. Undir lok nítjándu aldar var vínviður á yfir hundrað þúsund ekrum og var Chablis hvítvín flutt útum gjörvalla Evrópu og miklu víðar. Sveppasýking í vínvið sem tröllreið Evrópu 1893 lagði Chablis nánast í rúst og féll framleiðsla niður í kringum 500 ekrur á nokkrum áratugum. Vínræktin í héraðinu tók ekki við sér fyrr en um miðja tuttugustu öldina. Uppbygging hefur síðan verið upp á við en er langt frá því að vera í nánd við það sem var fyrir 120 árum síðan. Þessi litli bær ersérstaklega fallegur. Maður upplifir að keyra aftur í tímann. Við lögðum bílnum í bæjarkantinum og gengum um bæinn og keyptum í matinn. Kjúklingabringur og kjúklingaleggi hjá slátrarnum, kantarellur og creme frais frá fallegri grænmetis og ostabúð, Chablisvín frá einum vínræktenda og svo héldum við út í sveitina.
IMG_2673


Fengum að leggja bílnum á vínekru Jean Marc Brocard sem var 5 km fyrir utan bæinn. Þar gátum við lagt hliðina á gömlum kirkjugarði sem lá upp að yfirgefinni kirkju. Útsýnið var stórkostlegt, horfðum framhjá kirkjunni yfir vínekrurnar - hvílík stemming. Tókum fram grillið og gashelluna. Lékum okkur með útidótið með krökkunum og þegar það fór að halla að kvöldi hófst ég til handa við kvöldverðinn. Yann Tiersen lék undir - hljómskífan úr kvikmyndinni Amelie hefur sjaldan verið eins viðeigandi.

Steiktur kjúklingur með kantarellum og grilluðu camenbertgratíni

kantarellur
Fyrst var að skera niður sveppina - 300 gr af nýjum ilmandi kantarellusveppum -  ásamt einum gulum lauk og nokkrum rifjum af rósahvítlauk. Steikt í smá smjöri/olíu þangað til að mjúkt og karmelliserað. Saltað og piprað. Sett í skál. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og steiktur á sömu pönnu og sveppirnir þangað til hann hefur brúnast létt að utan. Glasi af Chablis hvítvíni var þá bætt á pönnunni - áfengið soðið út og leyft að sjóða niður um þriðjung. Þá er sveppnum/lauknum bætt aftur á pönnuna ásamt 300 ml af creme frais, tveimur matskeiðum af Dijon sinnepi ásamt meira salti og pipar.


kjúklingur


Með matnum gerði ég einnig kartöflugratín. Niðursneiddar og flysjaðar kartöflur voru lagðar í álpappír semhafði verið smurður með smá jómfrúarolíu. Setti á milli nokkrar sneiðar afcamenbert osti, kannski 50-60 ml af rjóma, hvítvínsskvettu, smá mjólk, salt og pipar. Álpappírnum vafið utan um - með smá gati á toppnum til að hleypa loftiúr (þannig sýður vökvinn niður og þykknar). Ætli gratínið hafi ekki fengið 5-6 kortér á grillinu. Það var mikið spjallað undir Chablis himninum og því tók eldamennskan aðeins lengri tíma. Að vera lengi að elda hefur líka aldrei drepið neinn!

namminamm


Að sjálfsögðu fengum við síðan kalt og þurrt ávaxtaríkt Chablis frá nærliggjandi vínekru - Jean Marc Brochard Petit Chablis frá 2009. Þvílíkt og annað eins. Stemmingin var meiriháttar.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment