Langeldaður lambaframpartur með ferskum hvítlauk og rósmarín og splunkunýjum hvítum strengjabaunum
Ég hafði hringt í Holmgren slátrara og lagt inn pöntun fyrir frampartinum - mér fannst það öruggara. Hann átti þetta auðvitað til. Þegar ég kom á staðinn sýndi hann mér hvað hann átti af bitum og þá kom hann fram með heilan frampart – hægri og vinstri. Ég bað hann um að hluta hann niður og taka hálsinn af þannig að skepnan kæmist inní ofninn hjá mér.
Fyrst hellti ég nokkrum matskeiðum af olíu í botninn, síðan dreifði ég ferskum lárviðarlaufum, 7-8 rósmaríngreinum, reif í sundur 2 ferska hvítlauka, salt, piparkorn. Frampartarnir voru síðan nuddaðir með olíu, salti og pipar og síðan lagðir á ofnfatið. Fleiri hvítlauksrifjum var svo dreift yfir ásamt fleiri rósmaríngreinum. Fatinu var síðan pakkað þétt inn í álpappír þannig að hann var vel lokaður. Ofninn hafði verið hitaður í fullan hita en síðan lækkaður niður í 160-170 gráður þegar kjötið var sett inn. Þarna fékk steikin að eldast í rúmar fjórar klukkustundir.
Kjartan, bróðir minn, tók að sér sósugerðina og var aðferð Ragnars Blöndal kokks, sem við kynntumst við undirbúning afmælis foreldra minna, höfð til hliðsjónar. Sveppir voru skornir í teninga, kannski 300 gr af sveppum, sem voru síðan steiktir í 50-60 gr af smjöri. Fyrst gáfu sveppirnir frá sér vökva sem síðan gufaði upp og þá byrjuðu sveppirnir að ristast í smjörinu. Saltað aðeins og piprað. Síðan var bætt við lambasoði og matreiðslurjóma og soðið við lágan hita í klukkustund. Auðvitað var öllum vökva af kjötinu bætt í sósuna. Niðurstaðan var kraftmikil og góð sveppasósa með talsverðu bragði af rósmaríni - enda engu til sparað með rósmarínið á kjötið.
Það er alltaf markaður á Martenstorgi á laugardögum (kannski öðrum dögum líka). Þar er hægt að fá ferskt grænmeti frá bændum í nálægum sveitum. Á milli Lundar og Dalby er falleg Gårdsbutik (bændabúð) sem er líka með sölubás á torginu. Ég keypti nýjar sænskar vaxbaunir – sem eru í raun eins og hvítar strengjabaunir. Snædís fékk að sjá um þær. Steikti þær þangað til mjúkar í hvítlauksolíu og smá hvítvíni.
Með matnum vorum við með Peter Lehmann Shiraz frá því 2008. Lehmann vínin eru frá Ástralíu og hef ég oft haft þau á borðum eins og færslur mínar bera vitni um. Þetta ástralska Shiraz er kraftmikið vín, þó ekki eins „full bodied“ og Cabernet Sauvignion. Aðeins kryddað, dökkt á litinn, þykkt og blómkennt, sem hefur fengið góðar mótttökur af víndómurum víða. Ég var mjög ánægður.
Um matinn er þetta að segja; Hann var alveg ótrúlega góður - þó að ég segi sjálfur frá. Kjötið var svo meyrt að það féll algerlega áreynslulaust af beinunum. Hnífurinn var alveg óþarfur - bara svona meira til skrauts. Kjötið var svo meyrt að það bráðnaði í munninum, milt lambakjötsbragð (ekki eins villt á bragðið og íslenskt lambakjöt) með ljúfum hvítlauks og rósmarín keim. Hvet alla til að prófa þessa uppskrift - framparturinn hefur verið vanræktur af mér (og kannski fleirum) en ekki lengur. Þessi réttur er "instant klassíker".
Bon appetit!
Pistlarnir þínir eru frábærir - takk fyrir að deila með okkur! Ástríða þín á matargerð skín skært í gegnum pistlana! Þetta er með því betra sem maður les um matargerð á íslensku!
ReplyDelete