Það hefur skipt á með skini og skúrum núna seinustu vikurnar. Svíar eru orðnir ansi langeygir eftir sumrinu. Ég segi þeim í gríni að þeir séu núna að upplifa íslenskt sumar – rigning og rok. Svo kíkir maður á íslensku veðurspárnar og verður fullur öfundar. Við höfum alltént reynt að nýta og njóta sumardagana þegar þeir koma. Núna á þriðjudaginn kom einn slíkur, glampandi sól eftir hádegi og heitt og rakt. Þá þýðir ekkert annað en að grilla.
Ég er farin að fara meira og meira að grilla á kolum. Það er auðvitað aðeins meira vesen en þegar maður er búinn að prófa fram og tilbaka gas og kolagrill þá er vinningshafin augljós - kolin! Og það er ekki bara stemmingin við að kveikja upp í kolagrillinu - reykurinn skilar sér líka í bragðinu af matnum. Og svo má svo sannarlega leika sér með reykinn - henda sagi eða bara þurrum spýtum og þannig fá ennþá meira bragð af reyknum.
Marineraðar BBQ style svínakótilettur með maísstöngli og fersku salati.
Þessi uppskrift er í grunninn ekkert svo frábrugðin svínarifjunum sem ég hef áður bloggað um – nema hvað kryddblandan sem ég notaði til þess að krydda grísinn var aðeins frábrugðnari. Ég útbjó þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt-papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar, fennel fræjum, smá kúmen, þurrkað rósmarín, chilli - everything but the kitchen sink! . Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í rúman klukkutíma.
Maður þarf ekkert að vera hræddur við að það sé nóg af fitu á kjötinu - bróðurpartinn af henni sker maður hvorteðer burtu að eldun lokinni. Fitan tryggir að kjötið verði safaríkt og bragðríkt - það er enginn vitleysa - sú fullyrðing að góða bragðið sé í fitunni. Fitan eykur þó á líkunum á því að það kvikni í grillinu - gæta vel að hitastjórn. Vatnsbrúsi til að sprauta á eldinn kemur þar að góðum notum.
Grillaði kótiletturnar sirka 8-10 mínútur á hvorri hlið – snéri þeim reglulega. Þegar helmingur var liðin af eldunartímanum smurði ég á BBQ sósu – Sweet baby Ray’s BBQ sauce – where sauce is the boss. Ég hef gert mína eigin, en á virkum dögum þá verður maður að vinna aðeins tíma. Og svo skemmir það ekki að sósan er fjári góð.
Vafði maísnum inn í álpappír og grillaði í góðar 40 mínútur aftast á grillinu. Með matnum vorum við einnig með gott salat, fersk græn lauf, avacadó, tómatar og steinselja.
Við fengum okkar rauðvínsglas með matnum – það verður nú stundum að lyfta sér upp, eða hvað? Við áttum til flösku af El Coto Rioja frá árinu 2008. Þetta er prýðisgott Rioja vín, ögn kryddað, fremur léttur ávöxtur og ágætt eftirbragð. Þetta er ágætt vín til að vera með svona grillmat – sem er heldur bragðmikill. Vínið yfirgnæfir ekki né hverfur með svínakjötinu.
Þetta reyndist alveg ljúffengur matur. Bon appetit!
Sæll Ragnar,
ReplyDeleteTakk fyrir flott blogg. Hjá hvaða slátrara kaupir þú kjötið þitt ?
Sæll asdf
ReplyDeleteÉg versla oft við Holmgrens í Saluhallen - mér finnst þeir alveg frábærir.
mbk, Ragnar
thanks this is good blog. Top Rated Pellet Smokers
ReplyDelete