Síðasta vika hefur verið einkar ljúf í Púkagrandanum. Foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, komu í heimsókn núna á fimmtudaginn í seinustu viku. Þau sluppu rétt inn á Kastrúp áður en honum var lokað vegna eldgosins í Eyjafjallajökli. Maður sér þetta fyrir sér sérstaklega dramatískan hátt - öskuþokan nagandi í stélið á flugvélinni sem rétt sleppur til lendingar áður en myrkt öskuregnið umlykur flugvélina...en mér skilst að það hafi verið heiðskýrt. Hvað um það!
Það var frábært að hafa þau hjá okkur - við vorum búin að sakna þeirra. Við lögðum okkur fram við að elda góðan mat handa þeim; fyrsta kvöldið var sætkartöflusúpa með heimagerðum súrdeigsbaguettum, á föstudagskvöldið heimagerðar flatbökur, á laugardagskvöldið vorum við með appelsínugljáðar andabringur, á sunnudag Pukgranden Fried kjúkling (bloggið er á leiðinni), á mánudag ofnbökuð þorskhnakkastykki, á þriðjudag ofnbakaðar kjúklingabringur með gorganzolasósu og í gær Spaghetti Carbonara. Við spjölluðum, hlógum, fórum í gönguferðir og lékum okkur. Þetta var frábær helgi! Mamma og Pabbi - takk fyrir okkur!
Annars hefur garðurinn minn átt hug minn allan síðustu vikurnar. Ég ákvað síðastliðið sumar - eftir að kryddjurtaræktunin mín gekk svo vel - að ganga skrefinu lengra. Núna er ég búinn að útbúa sjö fermetra grænmetisgarð - búin að setja niður kartöflur og gulrætur. Svo er ég búinn að smíða nokkur (heldur sjúskuð) ker fyrir jarðaber og kryddjurtir. Síðan er ég með smá ræktun innandyra sem á síðan að flytja út í garð þegar hlýnar.
Kryddjurtir og grænmeti - garðrækt á fullri ferð; verkefni sumarsins
Þetta er nú bara smá yfirferð. Tók samt ekki mynd af grænmetisgarðinum - hann er enn sem komið er bara moldarflag.
Hérna er verið að rækta upp tvær tegundir af kúrbít. Að sjálfsögðu grænn og síðan gulur. Fátt finnst mér betra en salat með grilluðum kúrbít.
Þessi mynd er náttla úr fókus - en ég læt hana fylgja. Þetta eru tvær tegundir af tómötum, rauðir og svo gulir kirsuberjatómatar. Í öðru svipuðu gróðurhúsi er ég með tvær tegundir af chilli og svo rauða kirsuberjatómata.
Hérna eru ítalskar barlotti baunir og svo venjulegar butter baunir að verða til.
Nokkrar kryddjurtir: Mejoram, sítrónumelissa, grísk bergmynta, venjuleg bergmynta, rósmarín, lárviðarlauf og önnur rósmarínplanta - vinæl í eldhúsið.
Í þessu keri (sem ég smíðaði sjálfur - eins og sést á klaufalegu handbragðinu) er ég með tvær tegundir af jarðaberjum, Korona og Polka. Síðan er ég með nokkrar tegundir af timian - önnur vinsæl kryddjurt í eldhúsið.
Hérna er ég svo með lofnargjörð, salvíu, fáfnisgras. Í kassanum sem ekkert virðist vera ennþá í er ég að rækta graslauk, dill og síðan tvær tegundir af steinselju.
Útí grænmetisgarðinum er ég búinn að stinga niður kartöflum, gulrótum. Set um helgina niður radísur og flyt kúrbítinn út.
Sjáum hvernig sjálftþurftarbússkapurinn gengur.
Bon appetit.