Við ætluðum að vera sérstaklega metnaðarfull þessi jólin og gera laufabrauð. Þetta væri þá í fyrsta sinn sem við tækjum upp á því. Mamma leiddi verkið áfram - Þar sem við erum öll heldur reynslulítil við laufabrauðgerð var byrjað á að leita að uppskriftum á Netinu - og í tiltækum bókum. Að sjálfsögðu var flett upp í Helgu Sigurðardóttur og uppskrift hennar varð fyrir valinu.
Við ætluðum að baka laufabrauð - en það gekk ekki alveg sem skyldi til að byrja með - en viti menn - mistök sem við gerðum í byrjun við brauðgerðina urðu hin skemmtilegustu! Úr laufabrauðsdeginu urðu til dásamlegar flatkökur. Það virtist ekki vera svo langur vegur á milli flatkaka og síðan laufabrauðs.
Mamma, Snædís, Valdís og vinkona hennar voru duglegar við að skera út laufabrauð. Mamma og pabbi höfðu keypt gullfallegt laufabrauðsjárn úr látúni. Það mun vera maður á Akureyri sem handsmíðar þessi forláta verkfæri. Þungt og fór vel í hendi.
Laufabrauðsgerð í Púkanum. Laufabrauð eftir hefð og einnig ljúffeng mistök
Fyrst voru það mistökin; ekki að uppskriftin sé einhver mistök - deigið varð bara einhvern veginn undarlegt á litin og við ákváðum að gera flatkökur úr því fremur en að henda því. Uppskriftin er fengin frá Helgu Sigurðardóttur - Matur og drykkur (sem mun hafa verið metsölubók þessi jól). Fyrst var að setja 1 tsk salt, síðan 750 gröm af hveiti, svo 250 gr rúgmjöl, síðan 1/2 texkeið matarsódi (í stað hjartasaltsins - sem við áttum ekki til). Þá er 6 dl flóaðri mjólk hrært saman við. Mjólkin var hituð að suðu. Þurrefnin sett í skál og mjólkinni hrært út í - og deigið hnoðað í hrærivél.
Rétt er að taka fram að Helga reiknar með því að ekki þurfi að vera rúgmjöl í uppskriftinni - en við ákáðum að hafa það með!
Okkur þótti deigið ekki líkjast laufabrauðsdegi - og höfum grun um að hlutföllin hafi ekki verið rétt hjá okkur - líklega fór ekki nema 1/2 kg af hveiti í deigið og það varð því heldur dökkt! Okkur leist ekki á að steikja það í olíunni - en gerðum tilraun til að steikja eina útflatta sneið á þurri pönnu. Viti menn! Af pönnunni kom þunn flatkaka - hreint dásamleg á bragðið með íslensku smjöri. Allt deigið var flatt út og bakað á pönnunni með þessum hætti. Þetta verður frábær viðbót við hangikjötsveisluna sem við ætlum að halda á annan í jólum.
Nú var uppskriftinni breytt - og rúgmjölið tekið út - og deigið sýndist nú líkara því sem við væntum. Fjölskyldan settist öll að skurði og til urðu laufabrauðslistaverk í öllum gerðum og stærðum.
Gleðilega rest!
Sæll Ragnar
ReplyDeleteÞó ég hafi lengi vitað af tilvist þessarar síðu og heyrt frásagnir af margrómaðri matargerð þinni þá hef ég aldrei farið inn á hana fyrr en nú. Var að leita að hugmyndum varðand eldun á gæsabringum. Nú liggja hér fjórar góðar í maríneringu og hlakka ég til að borða þær með bláberjasósu á morgun. Ætla einnig að hægelda gæsalæri samkvæmt uppskrift sem ég fann hjá á vef skotveiðfélagsins. Það var gaman að lesa af jólahaldi fjölskyldunnar og bið ég fyrir kærar kveðjur til foreldra þinna og reyndar ykkar allra. Nú er búin að eyrnamerkja síðuna þína og á eftir að kíkja oft inn á hana í framtíðinni. Gleðilegt ár - Guðný Helga
Mjólkin í laufabrauðið var allt of heit, þið hefðuð átt að kæla hana þannig að hún yrði ilvolg kveðja Hallfríður
ReplyDeleteMjólkin í laufabrauðið var allt of heit, þið hefðuð átt að kæla hana þannig að hún yrði ilvolg kveðja Hallfríður
ReplyDelete