Wednesday, 23 December 2009

Einstakir íslenskir forréttir að hætti föður míns innblásnir af þekktumuppskriftum - lausnir í kreppunni?

snjóhús


Eins og kom fram í fyrri færslu þá hef ég fengið fjölskylduna mína í heimsókn yfir hátíðarnar. Það er virkilega notalegt. Þröngt vissulega en notalegt. Það verður að segjast að það getur verið erfitt að vera síðastur í sturtu þar sem heita vatnið getur klárast og þá þarf að hafa hraðar hendur. Sannarlegur kattaþvottur. Annars var notalegt í kotinu í gærkvöldi. Kom seint heim úr vinnunni - var á síðdegisvakt í Helsingborg - og á móti mér tók gömul jólatónlist (ekkert andskotans "ef ég nenni" með Helga Björns) og fjölskyldan að skera út laufabrauð. Frábært.

Það er kalt í Lundi og það hefur kyngt niður snjó. Sá mesti sem hefur sést hér í áraraðir. Við þessu virðast Svíar á flatlendinu á Skáni ekki kunna að bregðast og annars glæsilegt kerfi og þjóðarsál brotnar niður hraðar en maður getur sagt; Gústaf kóngur lengi lifi! (eða stutt eftir því hvort maður er konungsinni eður ei). Svíar sem venjulega eru þolinmóðir og umburðalyndir í umferðinni - hleypa gangandi vegfarendum yfir götur, hleypa bílum framfyrir sig og taka tilllit til hjólreiðamanna hafa nú farið í gegnum hamskipti. Enginn stoppar við gangbrautir (af hreinum ótta við hálkuna og stjórnleysið sem fylgir því að renna örfá sentimetra - en ekki lengra þar sem þeir keyra á sjö kílómetra hraða). Ökumenn gefa ógnandi tákn þegar reynt er að smeygja sér inní umferðina og hjólreiðamenn, sem lögum samkvæmt þurfa að hjóla á götunni, eru hreint og klárt í bráðri lífshættu. Ekki að ég sé nokkuð að ýkja, alls ekki.

Þessir forréttir eru smá snúningur föður míns á tvo hefðbundna rétti - annars vegar fois gras du entier með rauðlaukssultu borið fram á hvítlauksbrauði og hinsvegar parmaskinka með melónusneið. Faðir minn var með færeyskt blaklið nýverið í heimsókn og bauð þeim m.a. upp á uppá lifrarpylsu steikta í hvítlauksolíu, borin fram eins og fois gras. Mér fannst þetta hreint ekki besta hugmyndin en hann fékk tækifæri til að elda þetta fyrir okkur. Hann gerði einnig salat með melónum og tvíreyktu kinda-innralæri. Namminamm.
Pabbi útskýrir snilldina við þetta


Einstakir íslenskir forréttir að hætti föður míns innblásnir af þekktum uppskriftum - lausnir í kreppunni?


Foreldrar mínir komu með ýmislegt þjóðlegt góðgæti að heiman í kreppunni - lifrarpylsu, blóðmör, smjör, sælgæti og hangikjöt (ef heimaframleiðslan skyldi klikka). Í þennan fyrri rétt - sem vissulega var einfaldur - notaði hann alíslenska lifrarpylsu - ferska auðvitað - hina súru kalla ég ekki matvæli. Fyrst var að karmellisera rauðlauk í smjöri, salta og pipra og steikja við lágan hita í 15-20 mínútur. Ef auka þarf á sætuna má skvetta sírópi á pönnuna. Þá er sneið af hvítu brauði steikt upp úr hvítlauksolíu þar til fallega gullið og síðan lifrarpylsan. Þegar allt er tilbúið er brauðið sett á disk, síðan pylsan og svo skreytt með rauðlaukssultunni.
lifrarpylsa gras du agneiu


Salatið var líka einfalt. En það er líka oftast best. Fyrst klettasalat, síðan sneiðar af góðri melónu, svo næfurþunnar sneiðar af tvíreyktu kinda-innralæri, góð jómfrúarolía, salt, pipar og nokkur basillauf.
hangikjötssalat


Þetta var borið fram með góðu rauðvíni - náði nú ekki að smella mynd af flöskunni - En við vorum með Montecillo Crianza Roija frá því 2006. Þetta er ansi gott vín og á ágætu verði. Þetta er fremur létt Rioja. Montecillo er líka með betri útgáfur af Rioja, með bláum og síðan svörtum miða - Reserva og gran reserva. Allavega þá er þetta ágætlega kryddað vín, bragðgott með léttu ávaxtabragði.

No comments:

Post a Comment