Friday, 7 August 2009

Gómsæt grilluð lambapylsa með steinseljukartöflumús, grilluðum lauk, skánsku sinnepi og títuberjasultu

saluhallen_i_lund.jpg Ég hef verið að dunda mér síðan að ég flutti hingað að kynna mér pylsumenningu þeirra Svía - korv. Eins og frændur þeirra í Danmörku þá er hér ágætisúrval af pylsum í ýmsum stærðum og gerðum. Þeir sem hafa búið í Svíþjóð eða búa þar núna hafa án efa prófað það helsta - Falukorv, Lantkorv, prinskorv og fleiri tegundir. Flestar þessara pylsna eru ágætar til síns brúks en teljast seint til þess að vera herramannsmatur. Maður verður meira að segja pínuleiður þegar lesið er í gegnum innihaldslýsinguna. Sumar pylsurnar innihalda alveg niður í 30 prósent kjöt! Hins vegar er hægt að komast í feitt þegar maður kynnst slátrara. Eftir því sem ég kemst næst þá eru hérna í bænum eru tveir afbragðsslátrarar og ég skipti oftar við þann sem er í Saluhallen. 

Saluhallen er lítil "verslunarmiðstöð" sem var sett á laggirnar vorið 1909. Sagan segir að hún hafi verið reist vegna aukinna krafna um hreinlæti sem þótti ábótavant á söluvögnum sem stóðu undir berum himni á Stóratorginu og prönguðu  með fisk og kjöt. Þarna er ostabúð, bakari, kaffihús, nokkrir veitingastaðir, fisksali og svo þessi prýðisgóði slátrari - Holmgren & Co. Þeir gera sínar eigin pylsur - margar tegundir - og þær eru allar ansi góðar. Þessi er eiginlega mitt uppáhald. Þetta er sennilega blanda af svína og lambahakki, með ilmríkum kryddjurtum, sölt og bragðmikil. 

Þetta verður svona örfærsla - til að halda þessu lifandi!

Gómsæt grilluð lambapylsa með steinseljukartöflumús, grilluðum lauk, skánsku sinnepi og títuberjasultu

Þetta var eldamennska eins og hún gerist auðveldust. Hita grillið, stinga fín göt á pylsuna svo að hún springi ekki í hitanum, Grilla pylsuna. Skera lauk í skífur, pensla hann með olíu og svo grilla laukinn That's it!

Til að gera kartöflumúsina; sjóða 700 gr af flysjuðum kartöflum (best að flysja þær eftir á - þannig halda þeir meira af bragði sínu við suðuna, salta vatnið ríkulega. Þegar þær eru tilbúnar er bara að stappa, bæta við smá mjólk, smá sykri, salti, pipar, ögn af smjöri, og svo ferskri smátt skorinni flatlaufssteinselju. 

Borið fram með skánsku sinnepi - sem er fremur sætt, grófkornasinnep ansi bragðsterkt. Klassískt er að bera fram títuberjasultu með nær flestum mat sem borin er fram í Svíþjóð - steiktum strömming, steiktri síld, kjötbollum, pylsum, skinkum ... nær öllu.

Bon appetit. 

pylsa.jpg

 


No comments:

Post a Comment