"Sumarið er tíminn" söng Bubbi einhvertíma og rataðist þar rétt á munn. Sumartíminn er frábær - varla finnst sú hræða sem er ósammála því. Mér finnst einhvern veginn sumarið hafa byrjað snemma í apríl, þá urðu veðraskipti hérna á Skáni - sólríkir dagar sem fóru að lengjast. Núna hefur verið brakandi sól - heitt í dag var nánast erfitt að vera til. Nærri þrjátíustig í forsælu og loftið þykkt með raka þannig að maður flaut nánast um - í svitabaði - dásamlegt - allavega finnst mér það.
Ég átti sumarleyfi í dag, eiginlega einn af fáum frídögum sem ég tek mér í sumar - er að vinna smá aukavinnu á hinum ýmsustu stöðum bæði innan og utan héraðs - þannig að það verður lítið úr sumarleyfinu þetta árið. Alltént átti ég daginn fyrir mig og mína. Ég og Valdís fórum í hjólatúr í dag eftir hádegi og hjóluðum niður í bæ og keyptum rauðsprettu í Saluhallen. Það var gott úrvalið hjá þeim í dag - mikið af fallegum fiski. Rauðsprettan var hvít og ilmaði af fersku hafinu þannig að ég lét slag standa og keypti nokkur flök - mamma ætti að vera stolt af mér - ég er farin að fá að lykta af öllum fiski áður en ég kaupi hann. Mamma gerði þetta alltaf hér áður fyrr bæði þegar við bjuggum í Englandi þegar ég var níu ára og síðan þegar ég var 18 ára þegar við bjuggum í Kanada. Dísus hvað ég skammaðist mín...en svo kemur bara á daginn að þetta er pottþétt leið til að meta fisk - "trust your nose" .
Ég fór í skvass seinnipartinn - maður svitnaði nánast við það eitt að skipta um föt. Eftir skvassið var ég svitablautur í gegn og ákvað að hjóla heim án þess að fara í sturtu. Þegar út var komið hafði þykknað upp og nokkrir dropar byrjað að falla til jarðar. Ég ákvað því að hafa hraðan á. Þegar ég hafði stigið upp á hjólið gerði algert úrhelli - og ég meina úrhelli - ég hef aldrei lent í öðru eins. Á nokkrum sekúndum umbreyttust göturnar í beljandi fljót. Það var eins og sturtað væri úr...ekki fötu...ekki baðkari - kannski sundlaug! Ég bý í 7 mínútna fjarlægð frá íþróttasalnum og hjólatúrinn heim var eins og ég væri að hjóla í grunnu vatni. Eldingar lustu niður og þrumurnar fylgdu örstutt á eftir. Sjaldan hef ég verið eins glaður að koma heim. Það var því ljóst að áform mín um að elda á pallinum höfðu orðið að engu!
Sumarleg steikt rauðspretta með steinselju- og kaperssósu, salati og auðvitað nýjum kartöflum
Mér hefur aldrei gengið vel að steikja fisk. Það verður bara að segjast. Mér hefur farið það betur úr hendi að grilla eða baka fisk - ekki að steikja. Núna síðustu mánuði hef ég legið yfir bókum Rick Stein sem er breskur sjónvarpskokkur á miðjum aldrei sem gerir frábæra þætti - bland af ferðaþáttum og matreiðslu. Hann rekur líka veitingahús í Padstow í suðvesturhluta Englands og meira að segja matreiðsluskóla sem mig langar einhvern tíma til að prófa að fara í.
Hann treystir á einfaldleikann - sem kannski mætti segja um þennan rétt - Gunnar Helgi Kristinnson er af öðrum skóla - hann er líka í miklu uppáhaldi hjá mér - meira vegna skrifanna og húmorsins sem einkennir skrif hans - tja ég hef nú bara lesið eina bók eftir hann, Fiskiveislu fiskhatarans. Hann segir að það sé mikilvægt að drekkja fisknum í eins miklu af sósum og svoleiðis þannig að ekkert minni á slepjulegt bragðið af sjávarlífverunni. Sjálfum finnst mér fiskur góður - nema ýsan - en við skulum ekki fara út í þá sálma aftur - nóg skrifaði ég í seinustu færslu um blessaða ýsuna.
Rauðsprettan var þvegin, þurrkuð, lögð í hveiti, því næst blöndu af eggi og mjólk og því næst ferska brauðmylsnu - ekkert Paxo dótari - ég tók hvítt brauð - ristaði það í smá stund - rétt til að þurrka það, svo í matvinnsluvél og svo í skál þar sem hún beið rauðsprettunnar. Eftir stutt kynni beint á heita pönnunna þar sem væn klípa af smjöri beið hennar - freyðandi. Á meðan flökin voru steikt stakk ég þeim sem voru tilbúin í volgan ofn. Það þarf nokkrar atrennur að steikja 12 örþunn rauðsprettuflök. Hvers vegna fersk mylsna? Fyrir það fyrsta hef ég ekki hugmynd um hvað í an%&/anum fer í brauðmylsnu úr búð, svo er hún ljót á litinn og hefur einkennilegt málmkennt saltbragð - treystið mér þetta er betra!
Sósan var einföld; fullt af ferskri steinselju var skorin smátt niður, sett í skál, svo 3 msk af kapers, ein dós creme fraiche 15%, einnig skorinn smátt niður, svo 1 hvítlauksrif, salt, pipar, safi úr hálfri sítrónu og svo 1 tsk sykur. Öllu blandað vel saman og svo leyft að standa í nokkrar mínútur í ísskáp áður en hún var borin á borð.
Kartöflurnar voru nýjar -fyrsta uppskeran kemur skömmu fyrir "midsommar" sem var fyrir 10 dögum síðan. Svíar virðast elska nýjar kartöflur með dilli - og hvað er ekki að elska. Þetta er fjandi gott, soðnar í vel söltuðu vatni, sett í skál, smá olía, maldon salt og svo ríkulega af dilli.
Með matnum vorum við einnig með salat sem tengdamóðir mín gerði, græn falleg lauf, papríkur, safaríkir tómatar, nokkur sólblómafræ.
Með matnum drukkum við ljúffengt hvítvín - Peter Lehmann Chardonnay Barossa frá því 2007. Mér áskotnuðust nokkrar flöskur nýverið af þessu víni. Það er langt síðan að ég drakk þetta vín síðast en grunar að það verði stutt í að það verði aftur. Þetta er gullið og fallegt vín í glasi, ávaxtaríkt í nefi - sætir ávextir - pera eða ferskja (át eina svoleiðis í hitanum í dag - kannski þess vegna sem mér datt það í hug). Svipaðir tónar á tungu - smjörkennt eins og Chardonnay vilja vera.
Bon appetit.