Saturday, 4 April 2009

Magnaður hægeldaður marókóskur kjúklingur með saffran, cous cous, fallegu salati.

saffran Vorið er komið í Lundi. Síðustu daga hefur veðrið leikið við okkur, glampandi sól, heiðskýrt, vorfuglar syngja og dagurinn í dag var frábær. Heiðskýrt og tæplega 18 stiga hiti. Tengdafaðir minn, Sigurður Eggert - kallaður Eddi kom í heimsókn á fimmtudaginn og vill eigna sér heiðurinn af veðráttunni. Við fórum í langan göngutúr í dag niður í bæ og keyptum í matinn. Eddi tók að sér að sjá um matinn fyrir kvöldið í kvöld - en það verður efni í færslu á næstunni.

Ég hef lengi verið að undirbúa að gera rétt sem þennan. Ég var búinn að vera að horfa á krukku í kryddskúffunni minni með saffran og langaði til að gera eitthvað sem innihélt saffran. Saffran er krydd sem maðurinn hefur ræktað í meira en 3000 ár. Lengi vel trúðu menn á læknandi mátt jurtarinnar en hún hefur verið notuð í meðferð við rúmlega 90 mismunandi sjúkdómum frægast í meðferð við svarta dauða sem reið yfir Evrópu á 14 öld. Saffran var notað í Evrópu fyrst á tímum Rómverja en mun hafa horfið með fallandi veldi þeirra. Það átti svo innreið sína aftur með kryddið vakið innrás araba í sunnanverða Evrópu. Það verður ekki tekið út með sældinni að rækta þessa jurt. Hvert blóm gefur af sér nokkra þræði. Það skýrir líka verðið. Kílóið kostar fleiri hundruð þúsund. 

Þessi réttur er ekki gerður eftir neinni einni uppskrift heldur samsuða úr mörgum uppskriftum sem ég hef lesið í gegnum tíðina. Ég kenni réttinn við Marókkó því einhvern veginn finnst mér þessi krydd einhvern veginn eiga rætur að rekja til suðurhluta Mi maturinn á leið í ofninn ðjarðahafsins - kanil, sítrónur, kúmen, túrmerik og saffran. Hvort þetta sé síðan rétt má rökræða. Nýleg umfjöllun í Sydsvenskan - sem er morgunblað sem við erum áskrifendur af - var með umfjöllun um hvað verður matur framtíðarinnar - nú þegar tími hins ítalska, franska, kínverska eldhús væri senn að líða - matur frá miðausturlöndum. Ekki að ég sé sammála því að sólin sé sest á franska eldhúsið en matur sem ég kenni við Miðausturlönd er góður - Seiðandi, flókin djúp brögð sem æsir bragðlaukana.

Magnaður hægeldaður marókóskur kjúklingur með saffran, cous cous, fallegu salati.

tilbúinn á borðinu Fyrst var að vekja kryddið á pönnunni. Ég setti smá smjör/olíu á pönnu og þegar smjörið var farið að freyða þá setti ég kúfaða teskeið af papriku- dufti, engiferidufti, túrmeriki, hálf teskeið af kúmeni, ein teskeið af nýmuldu allspice. Lyktin verður megn - kraftmikill og dásamleg á sama tíma. Þá eru kjúklingaleggir og upplæri - næstum tvö kíló alls. Ástæðan fyrir því að ég nota leggi og upplæri er sú að það kemur svo mikill kraftur frá bitum með beinum. Bringur henta síður í langa eldamennsku - eiga það til með að þorna.  Þegar ég var búinn að steikja kjúklinginn að utan og hann orðið fallega gulrauður og gullinn var hann lagður til hliðar í eldfast mót á meðan sósan var útbúinn.

salatið-1 Þá var einn grófskorinn rauðlaukur, einn skarlottu- laukur, fjórar flysjaðar gulrætur skornar í stóra bita og svo fimm niðursneiddir plómutómatar steiktar í smá stund. Því næst um það bil 600 ml af heimagerðu kjúklingasoði, 1 glas af hvítvíni, safi úr hálfri sítrónu og svo setti ég nokkrar sneiðar af sítrónum úti sem fékk að malla með. Einnig setti ég þrjú lárviðarlauf, 1 kanilstöng, mikið af salti og pipar. Þetta fékk svo að sjóða í klukkustund. Sósan var svo sett yfir kjúklinginn, papríkudufti og einni klípu af saffran þráðum dreift yfir og svo var þetta ofnbakað í 30-40 mínútur. 

 Með matnum var ég með cous cous og svo fallegt flatt salat. Þunnskornar paprikur, rauðlaukur, agúrkur, radísur og ólífur. Við drukkum Montecillo Crianza 2006 rioja rauðvín. Þetta vín passaði vel bragðmiklum matnum. Þetta er létt rauðvín, fremur ljóst á litin. Lyktin minnir á sætan ávöxt og bragðið er á sömu tónum.

Lokaútgáfan

 

 


2 comments:

  1. ALGER SNILLD!

    Þessi réttur er svo góður að ég veit ekki hvort ég verði aftur söm eftir hann. Takk fyrir frábæra uppskrift. Og bara frábært blogg!

    ReplyDelete
  2. Kærar þakkir Harpa!
    Manni hlýnar um hjartarætur að fá svona athugasemdir!
    Gaman að rétturinn heppnaðist vel!
    Bon appetit, Ragnar

    ReplyDelete