Sunday, 8 February 2009

Ljúffengur hlynsírópsgljáður lax með steiktum kartöflum, polkabeðum með ríkotta osti og góðu salati

valdis_og_amma.jpg Mamma, pabbi og bróðir minn voru hérna yfir hátíðarnar og það var frábært að hafa þau hérna hjá okkur þó þröngt væri í koti. Mamma er búinn að vera allt síðasta haust í Toronto í Canada að sinna doktorsnámi sínu í kennslufræðum. Í farteskinu yfir hafið hafði hún með sér nokkur blöð LCOB food and wine - sem er svona Gestgjafi þeirra Kanadamanna. Fallegt blað. Í þessu mikla blaði sem er nánast eins og auglýsingableðill rakst ég á girnilega laxauppskrift sem var nokkuð á þá veg sem ég gerði í kvöld. Maður verður nú að geta heimilda. Að sjálfsögðu með breytingum - þannig að ég geti nú tekið heiðurinn af þessu?!

Í uppskriftinni var að finna hvítar beður. Eitthvað sem ég sá ekki í búðinni hér. Gott úrval af rauðbeðum og svo eitthvað sem heitir Polkabeður. Ég sá þessar polkabeður í búðinni á mánudagskvöldið - og það verður nú að segjast að ég hafði enga hugmynd um hvað þetta var þegar ég skellti þessu með öðrum vörum í körfuna. 

kartoflur_og_polkabe_ur.jpg Við eldum oft lax - hvað fiska varðar þá er lax í miklu uppáhaldi. Dóttir mín er líka sérstaklega hrifinn af laxi. Ekki er verra hvað hann er hollur. Einstaka sinnum hefur tengdafaðir minn gaukað að okkur laxi - en þá helst reyktum sem hann hefur veitt sjálfur. Hann lætur reykja fyrir sig í Útey - sem ég held að sé á Laugarvatni - og ekki vantar hvað hann er bragðgóður. Hann stendur fyrir sínu - helst einn á báti, kannski á ristuðu brauði, með smátt söxuðum rauðlauk og blautri eggjahræru og kannski smá sýrðum rjóma. Hann er það kraftmikill að hann er erfiður að nota í mat, eins og pastarétt- það er kannski þannig með allan taðreyktan fisk.

Laxinn sem við elduðum þetta kvöld var keyptur ferskur í nærlægri matvöruverslun. Hann ku hafa verið upprunninn í Noregi - eldisfiskur. Mig grunar að þetta hafi verið lax alin í keri frekar en sjóalinn þar sem hann var frekar feitur. Ef maður kemst ekki í villtan lax, þá vel ég sjóalinn - sá fiskur hefur þurft að hafa fyrir því að berjast við sjávarföllin og verður fyrir vikið vöðvamikill og mun  minna feitur en sá sem hefur fengið að vaxa í straumlausu keri. En allt er hey í harðindum. Laxinn var bleikur og fallegur. Lyktaði meira að segja vel - ég var þó litinn hornauga þegar ég bað um að fá að lykta af flakinu. Mamma hefði verið stolt af mér hefði hún séð til mín - en hún er fræg fyrir þessa hegðun - og hefur oft fengið háð að launum. 

salat.jpg Hlynsírópsgljáður lax með steiktum kartöflum, polkabeðum með ríkotta osti og góðu salati og ljúffengu hvítvíni

Stórt beinhreinsað laxaflak var sett í eldfast mót og smurt með eins og tveimur matskeiðum af 100 prósent hreinu kanadísku hlynsírópi. Fatið var svo sett inn í 200 gráðu heitan ofn og bakaður í 15-20 mínútur þar til eldaður í geng. Þá var gróft skorinn flatlaufssteinselja stráð yfir. 

Ég flysjaði nokkrar kartöflur og þessar umtöluðu polkabeður - sem voru hvítar en með svona bleikum röndum - undarlegt. Þær voru skornar fremur smátt niður og svo steiktar á pönnu þar til mjúkar í geng. Saltað og piprað vel. 

Laxinn var lagður á diskinn, pipraður rækilega, ásamt kartöflunum og beðunum, og smávegis af Ricottaosti lagt með - svona til að þjóna sem sósa með matnum.

salat2.jpg Vorum með fallegt salat með matnum, klettasalat, smátt skornar gular paprikur, vínber, radísur í sneiðum og smávegis basillauf - bara svona til skrauts.

Með matnum fengum við okkur Fleur de Cap Chardonnay sem er hvítvín frá Suður Afríku. Gott vín, lyktin minnir á sætan ávöxt og kannski smá vanillu. Þetta er milt og ávaxtaríkt Chardonnay - eikað með góðu eftirbragði. Passaði vel með matnum. Chardonnay er hvítvín sem auðvelt er að hugnast. Chardonnay er svona Cab Sauv hvítvínanna. Bragðgóð og ljúf vín - hvað annað vill maður!

matur_a_disk.jpg


No comments:

Post a Comment