Þennan rétt eldaði ég heima hjá Jónasi kollega mínum og Hrund eiginkonu hans laugardagskvöldið áður en ég stakk af í hérað. Ég fékk að sjálfsögðu góða hjálp frá Jónasi. Álhildur og Jón Þorkell borðuðu einnig með okkur. Við kjöftuðum að sjálfsögðu fram eftir kvöldi, að sjálfsögðu um ástandið á Íslandi, og ekki óraði manni fyrir þeim atburðum sem áttu svo eftir að eiga sér stað á Íslandi. Djöfull er ég stoltur af Íslendingum um þessar mundir - búsáhaldabyltingin, mótmælin, afsagnir ráðherra og fjármálaeftirlits og svo stjórnarslit. Loksins. Til hamingju!
Allavega...þessi vefur á ekki fjalla um pólitísk eða samtíma málefni - annað en það sem sett er í pottana eða pönnuna hjá mér. En það er bara ekki hægt að byrja á færslu á blogginu án þess að nefna þetta á nafn. Þetta er sögulegt...sama hvað stuttbuxnadrengirnir segja!
Þessi matur byggir á uppskrift sem ég sá í bók Nigellu Lawsson, bresku matargyðjunnar, Feast. Þar var hún með hrísgrjónafylltan kjúkling innblásin frá Georgíu. Mín uppskrift er svona blanda af hennar og síðan kannski einhverju sem maður myndi kenna við suðurstrendur miðjarðarhafsins. Notaði - kúmen, kóríander og svoleiðis. Ilmurinn í eldhúsinu var frábær. Allir höfðu góða matarlyst.
Ljúfengur bulgurfylltur kjúklingur með taizhiki sósi, flatbrauði með svörtum baunum og ofnbökuðum nípum og gulrótum
Fyllingin var einföld. Fyrst steikti í smáttskorin rauðlauk, 4 hvítlauksrif, 1 gulrót í smávegis af jómfrúarolíu. Síðan setti ég fullt af bulgur útí, salt og pipar og steikti í smástund. Þá setti ég kröftugt kjúklingasoð, meira salt og pipar, dáldið af kúmeni og kóríanderdufti útí og sauð í 15 mínútur. Síðan setti ég hálfskorna kirsuberjatómata, hálfan niðurskorin kúrbít og handfylli af saxaðri flatlaufssteinselju. Þessu var síðan troðið inn í 3 kjúklinga...gerði náttúrulega alltof mikið og setti restina í álpappír og bakaði með kjúklingum. Allur vökvinn sem rann af kjúklingum við eldunina var svo hellt í könnu sem var svo hellt aftur yfir bulgurið í álpappírnum. Lítið annað var gert við kjúklinginn fyrir eldun fyrir utan að nudda með olíu og salta og pipra. Bakað þangað til gullið og fallegt - kannski eina og hálfa klukkustund.
Gerði ljúffengt flatbrauð með matnum. Flatbrauð var einfalt, 500-600 gr af hveiti, 2 tsk af salti, 4 msk af ágætri olíu. 2 tsk af geri er vakin í volgri mjólk og er þessu síðan hrært saman. Hellti um 200 ml af sænskri filmjölk saman við ásamt smá skvettu af vatni þar til að ég var kominn með mjúkt og meðfærilegt deig. Því var leyft að hefast rúmar tvær klukkustundir, þangað til að það hefur tvöfaldast. Biti og biti er klipinn af deiginu, og svörtum baunum blandað saman við deigið, það síðan flatt út, penslað með jómfrúarloíu og steikt á pönnu þar til gullið og girnilegt.
Skar einnig niður nokkrar nýpur og gulrætur í fjóra hluta á lengdina, sáldraði olíu yfir og svo salti, pipar og dáldið af heilu kúmeni. Bakað í ofni í rúma klukkustund. Gerði líka einfalda kalda sósu til að hafa með matnum. Stór dós af tyrkneskri jógúrt, 2-3 smátt skorinn hvítlauksrif, 2 msk síróp, handfylli af niðurskorinni flatlaufssteinselju og svo helli kjarnhreinsaðri niðurskorinni gúrku (hver sneið í fjórðungum). Þetta er svona dæmigerð jógúrtsósa sem ég geri oft. Passar með næstum flestu.
Með matnum drukkum við góð vín. Ég keypti Peter Lehmann - The Barossa - Cabernet Sauvignion - frá árinu 2006. Vínið er dökkt á litin, djúprautt - næstum svarrautt. Fær lit sinn með því að gerjast með berjahýðinu í 7 daga. Það fær svo að eldast á eikartunnum í 12 mánuði. Þetta er kröftugt vín, klassískt Cabernet, munnfylli af ljúffengu berjabragði, tannín og jafnvel aðeins kryddað.