Það eru að koma jól. Það fer ekki framhjá neinum. Það er ljúf stemming hérna í Lundi. Bróður minn kom á miðvikudaginn var og mamma og pabbi komu á föstudagskvöldið. Það var stórkostlegt að hitta þau aftur. Ég, og við öll, erum búinn að sakna þeirra mikið. Þau verða hjá okkur yfir hátíðarnar. Grísirnir mínir voru ekkert smá glöð að hitta þau. Villi og Valdís voru sko búinn að sakna ömmu Lilju og afa Ingvars. Verð með einhverjar færslur yfir hátíðirnar um jólamatinn. Kannski náum við að vera eitthvað sniðug.
Það er ágætt að elda fisk fyrir þessa miklu kjöthátíð. Eldaði þennan rétt á dimmu mánudagskvöldi núna fyrir að verða viku síðan. Jónas, Hrund og guttinn þeirra hann Hrafnkell komu og borðuðu með okkur. Eldri strákurinn þeirra var staddur á fróni og var því augljóslega ekki á staðnum. Við höfum notið þeirra forréttinda að vera umkringd frábærum vinum hérna á Skáni, margir af mínum bestu vinum mínum úr læknadeildinni og fjölskyldur þeirra eru hérna líka í sömu erindagjörðum og það er ómetanlegur styrkur af því að vera með svona gott fólk í kringum sig.
Við höfum reynt að hafa þá reglu að hafa fisk á mánudagskvöldum núna í haust. Góðan fisk er erfitt að fá hérna á Skáni. Það hefur verið reynt. Maður er alltof góðu vanur frá Íslandi hvað fiskinn snertir. Samanburðurinn er ansi óhagstæður. Hér er hægt að kaupa ferskan fisk í Saluhallen sem liggur að Marteinstorgi sem er í miðbænum. Í Saluhallen eru nokkrir skemmtilegir veitingastaðir og nokkrar prýðisverslanir; ostabúð, slátrari og fisksali. Ég hef ekki lagt í að versla við hann...það er eitthvað við lyktina við stallinn. Fiskur á að lykta eins og fiskur, ferskur og á að minna á hafið. Allir sem hafa rekið trýnið ofan í ferskt sjávarfang vita hvað ég er að tala um.
Sjávarfangið sem ég hef fengið hefur því verið fengið frá Íslandi. Vinir okkar í Danmörku, Kristinn og Helga, hafa verið svo almennileg við okkur að gauka að okkur bæði ýsu og þorsk. Af frábærum gæðum. Frábært. Við erum á leið til þeirra í skötuveislu á Þorláksmessu. Það verður í fyrsta sinn sem ég mun bragða á skötu. Ég hef gert mitt besta að láta kæsta skötu ekki verða á vegi mínum þar sem ég hef þá stefnu að prófa allt að minnsta kosti einu sinni, en núna verður ekki undankomu auðið. Það er víst hægt að deyfa bragðið með nokkrum snöfsum. Þá er maður fær í flestan sjó.
Ofnbakaður þorskur með steinselju og fetapestó, hrísgrjón, brauðhleif og hvítvínstári
Rúmlega kíló af þorski, mest hnakkastykkjum, var lagt í eldfast mót. Smávegis af jómfrúarolíu var sáldrað yfir og saltað og piprað. Vænt búnt af ferskri flatlaufssteinselju er skorið eins smátt niður og hægt er (pestóið er auðveldast að gera í mortéli, matvinnsluvél - en bæði mitt er fast í Geymslum og bíður flutnings til meginlandsins) og sett í skál. Ferskur fetaostur er líka skorin smátt niður, nokkrar hnetur - ég notaði paranötter - sem ég held að séu kallaðar brasíluhnetur á íslensk, jómfrúarolía, nokkur smáttskorinn hvítlauksrif, salt, pipar. Allt þetta var skorið niður eins smátt og hægt var! Ég notaði nýja Global Deba hnífinn sem ég gaf sjálfum mér í jólagjöf, bit bara öðrumegin, beittur eins og rakvél (hef kynnst því á eigin skinni). Pestóið er hrært vel saman og smurt yfir fiskflökin. Ég átti 200 ml af matreiðslurjóma sem ég hellti líka yfir og bakaði í ofni þar til fiskurinn var tilbúinn. Ég er með hefðbundinn ofn sem byggir á leiðni (convection) og þetta tók alveg góðar 20-25 mínútur við 180 gráður. Þetta hefði tekið mun skemmri tíma í venjulegum blástursofni.
Með matnum var borið fram hrísgrjón, brauðhleifur og einfalt grænt salat með laufum, niðurskornum tómötum, gulum paprikum og ólífum
Með matnum fengum við okkur Lindemans Chardonnay úr belju sem var vel kalt og frískandi. Gott og lifandi kassavín. Glitraði vel í glasinu. Það er ekkert svo slæmt að fá sér tár úr belju þó að fátt sé betra en að draga tappa úr góðri vínflösku.
Verði ykkur að góðu! Og gleðileg jól!
Ps. fékk fyrirspurn hvernig Glóbal Deba hnífur lýtur út.
No comments:
Post a Comment