Sunday, 9 November 2008

Laugardagskvöld; Gómsætar grísalundir með sveskjum, kartöflum með timian og góðu rauðvíni

img_6163_722750.jpg Það gengur vel að koma sér fyrir hérna í Svíþjóð. Á sama tíma er erfitt að fylgjast með öllu því sem er að gerast á Íslandi. Ég var stoltur í dag að sjá að það voru mótmæli á Austurvelli. Vildi óska að ég hefði tækifæri til að taka þátt í þeim. Ég var með í anda. Við vonum öll að hægt verði að sigla okkur út úr þessari ógæfu. Merkilegt samt að engin skuli bera ábyrgð á neinu. Engin réði neinu eða ákvað neitt...mennirnir sem fengu hundraði milljóna í laun fyrir störf sína (m.a. vegna þeirra ábyrgðar sem þeir báru á stóru fyrirtæki og mörgum starfsmönnum og gríðarlegri veltu) bera enga ábyrgð á því ástandi sem blasir við í dag. Ótrúlegt! Égr er alltaf að gleyma því að þetta er matarblogg!

 

Lundur er ákaflega fallegur lítill bær. Hann er álíkastór og Reykjavík en aldurinn gerir gæfumuninn. Dómkirkjan hér er frá því um tólf hundruð, þetta var einu sinni höfuðborg Danmerkur og hér er löng hefð fyrir æðri menntun. Hér er gríðarstór og virtur háskóli með um fjörutíuþúsund háskólanemum. Fimm hundruð prófessorar að kenna, 500 hundruð doktorsnemar verja rannsóknir sýnar árlega. Skólinn veltir 7 milljörðum sænskra króna árlega og þar af fara tveir þriðju í rannsóknir. Alvöru háskóli. Spítalinn er geysistór og það verður gaman að þiggja framhaldsmenntun á þessum vettvangi. Myndin er af hverfinu sem við erum búinn að kaupa hús í...sem verður tilbúið í febrúar.

Áður en við komum hingað var mér sagt að Svíar væru leiðinlegir upp til hópa og þurrprumpulegir. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum.  Svíar eru afar þægilegir í viðmóti. Einstaklega þolinmóðir útlendingum sem böðlast við að læra að tala tungumálið þeirra og leggja sig í líma við að hjálpa manni að aðlagast og læra að tala. Móttökurnar sem við höfum fengið hafa verið frábærar og þetta kom mér á óvart.

kjoti.jpg Við vorum með svona "kósýkvöld" í kvöld, við fjölskyldan, í Karl XII götunni í Lundi. Í fyrsta skipti í langan tíma keyptum við hjónin okkur alvöru rauðvínsflösku frekar en að fá okkur rauðvín úr belju, ekki að það sé eitthvað slæmt, það er bara meiri stemming að opna rauðvínsflösku, draga út korktappa með Lagoulie korktappatogaranum sem ég keypti á markaði í sumar í suður Frakklandi. Elda góðan mat...sitja lengi við borðið og rabba við fjölskylduna og ræða um það sem liggur á þeim. Eftir matinn settumst við svo niður og horfðum á uppáhaldsmynd Valdísar, dóttur minnar, sem er Mamma mia myndin. Hún algerlega dýrkar þessa mynd. 

Börnin eru núna farin að sofa og ég ligg í sófanum með tölvuna í fanginu, kertaljósið eina birtan í herberginu, rauðvínstár á borðinu,  C'était ici frá 2002 eftir Yann Tiersen á fóninum (sá sami og gerði tónlistina við Amilie og Good bye Lenin - stórkostlegt tónskáld - skylda fyrir alla sem eru hrifnir af Eric Satie, Debussy og þeim öllum sem lifðu um þarseinustu aldamót).

Laugardagskvöld; Gómsætar grísalundir með sveskjum, kartöflum með timian og góðu rauðvíni

Þessi uppskrift er að miklu leiti fengin úr bók Joanne Glynn - Eldað með hægum takti - sem ég hvet alla mataráhugamenn að eignast, frábær bók. Ég breytti uppskriftinni bara lítillega - ekki nóg til að ég gæti eignað mér þetta...því miður. 

kjot_a_ponnu.jpg Fyrst eru 15-20 sveskjur settar í pott og vatn hellt yfir, nóg til að hylja, og svo eru þær hitaðar að suðu og svo tekið af hitanum og leyft að liggja í heitu vatninu í 10 mínútur. Vatninu er svo hellt frá og lagt til hliðar þar til síðar í matargerðinni.

Fyrst eru grísalundirnar snyrtar - sinar og svoleiðis hreinsað burtu. Þær eru svo steiktar í smjöri þar til að þær hafa tekið góðan lit, karmelliserast á öllum hliðum, og svo lagðar til hliðar - td. í volgan ofn - svona 80 gráðu heitan á meðan sósan er undirbúin.

Hún er gerð þannig að soð er útbúið í potti - kannski kjúklingasoð eða svínasoð, ég notaði bara teninga, svona um það bil 250 ml samtals. Næst er einn fínt skorinn laukur steiktur á pönnunni sem lundirnar voru steiktar (ekki henda fitunni sem er á pönnunni, fullt af bragði þar) og ein klípa af smjöri bætt saman við. Steikt þar til laukurinn er orðin mjúkur og þá er einu góðu glasi af hvítvíni sett á pönnuna og suðunni leyft að koma upp og soðið aðeins niður. Þá er soðinu - ca. 250 ml hellt saman við, 3 lárviðarlaufum, hálfu handfylli af fersku timian, og svo vatninu af sveskjunum og svo auðvitað sveskjunum sjálfum. Saltað og piprað. Þetta er svo soðið upp og leyft að sjóða niður um helming. Þá er sósan síuð og sett aftur á pönnuna og 250 ml rjóma er bætt á pönnuna. Soðin í nokkrar mínútur þar til hún fer að þykkna og þá er grísalundunum bætt aftur saman við og þær hitaðar í gegn. Skreytt með nokkrum ferskum timianlaufum.

a_disknum.jpg Borið fram með kartöflum, góðum ílöngum kartöflum, sem eru fyrst soðnar og því næst hent í pottinn aftur með smá olíu, salti, pipar og fersku timian og leyft að eldast aðeins áfram. Einnig var borin fram smávegis salat. 

Við drukkum Masi Campofiorin, ítalskt rauðvín frá 2006, vín sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður og bloggað eitthvað um. Þetta er ljúffengt vín, bragðgott með ágætum ávexti og mildu eftirbragði. Þetta var indælt kvöld. Svo sannarlega...nóg til að lyfta manni í augnarblik frá atburðum dagsins og vikunnar!

 


No comments:

Post a Comment