Við erum búinn að vera næstum því einn mánuð í Svíþjóð. Okkur hefur liðið vel hérna á Karl XII gatan. Þrátt fyrir að íbúðin sem við búum í sé fín þá er leiðinlegt að búa í svona millibilsástandi til lengdar. Okkur skilst að við fáum húsið okkar afhent 20. febrúar næstkomandi. Ekki svo langt, en í lengra en maður hefði viljað kosið. Annars verður þetta alger kommúna, þarna í Pukgrånden. Eiginlega ekkert nema Íslendingar sem hafa keypt hús í götunni. Þetta á eftir að verða skemmtilegt. Fórum nýverið í bíltúr um Skán og endum í fyrir utan Ystad þar sem er að finna þessar minjar frá 6. öld, steinaröð - raðað upp eins og skip. Tignarlegt.
Allavega, þá komst ég nýlega yfir bók eftir Joanne Glynn sem heitir eldað með hægum takti. Virkilega skemmtileg bók. Kollegi minn benti mér á hana eftir að hafa eldað minestrone súpu upp úr henni og sagði mér síðan að þetta væri sú besta sem hún hefði bragðað. Þetta er falleg bók, vel þýdd með fallegum ljósmyndum. Mæli með henni. Þessi uppskrift sem ég er að blogga um núna er að miklu leiti byggð á því sem ég las í þessari bók þó með smávægilegum breytingum. Þó ekki nógu og miklum til þess að rétt sé að geta heimilda. Engin skömm í því! Fyrir áhugafólk þá hvet ég ykkur til að eignast þessa bók - ég á eftir að elda mikið úr henni.
Matvælaverð í Svíþjóð er miklu þóknanlegra en heima á fróni. Meira segja þótt að gengið sé alveg að ganga frá manni þá er talsverðum munur. Til dæmis þá var kílóverðið á þessum grísahrygg 39 kr/kg. Sanngjarnt. Í sömubúð fékk ég Entrecote sneiðar á 99 kr/kg - sem voru líka alveg dásamlegar. Launin manns eiga eftir að endast lengur hér en heima - einhvern vegin er allt ódýrara og einhvern vegin einfaldara, hér þarf ekki að eiga bíl - allt er yfirstíganlegt á hjóli eða í strætó og ef maður þarf á honum að halda þá leigir maður hann bara á næstu bensínstöð. Engin verðtrygging, minni verðbólga, lífið er einhvern vegin á öðru tempói.
Frábær fylltur svínahryggur með rjómakenndu fennel og ofnbökuðum kartöflum.
Ég var með 3 kg af ferskum svínahrygg á beini - án puru. Hann var fyrst þveginn og þurrkaður og lagður í eldfast mót. Þá stakk ég göt á kjötið með stuttum hníf og víkkaði svo götin með fingrinum þannig að hægt væri að koma kryddjurtum þar fyrir. Ég skar grænu laufin sem voru á fennelnum, lauf af þrem greinum af rósmaríni, handfylli af ferskri flatlaufssteinselju, 3-4 hvítlauksrif og blandaði saman við smá olíu, salt og pipar. Þessari blöndu var svo troðið ofan í holurnar á kjötinu og svo makað yfir sjálft kjötið.
Kjötið var svo bakað í 160 gráðu heitum ofni í rúman einn og hálfann klukkutíma eða þar til kjarnhitinn var um 80 gráður eins og lög gera ráð fyrir með svínakjöt. Kjötið fékk að hvíla ofan á smá beði af gulrótum, lauk og hvítlauk til þess að neðri hluti myndi líka bakast en ekki sjóða í eigin safa. Þegar um helmingur var eftir af eldunartímanum hellti ég 500 ml af grænmetissoði og svo 250 ml af Lindemans hvítvíni í eldfastamótið - til að eiga í sósuna! Kjötið var þá tekið út og látið standa undir feldi (álpappír) til að jafna sig á meðan sósan var undirbúinn. Vökvinn sem hafði runnið af kjötinu hafði þá blandast víninu og soðinu og kraumað í gulrótunum, lauknum og því öllu. Rækilega skrapað upp úr fatinu og öllu blandað vel saman. Þessu er svo hellt í gegnum sigti og þykkt með smá smjörbollu, jafnað með rjómaskvettu, ef til vill smá lingonsultu. Og þá er þetta tilbúið.
Einfalt var að elda fennelinn. Um það bil 4 fennelhausar voru hreinsaðir og skornir í fremur þykkar sneiðar. Þeir voru fyrst steiktir í smá olíu/smjöri þar til þeir urðu gullnir en þá voru þeir saltaðir og pipraðir vel og vatni hellt á pönnuna þar til að það náði yfir fennelinn. Þessu var svo leyft að krauma þar til að vatnið var allt gufað upp. Eftir situr dásamlegur rjómakenndur fennel - Og lyktin í húsinu á meðan þetta er að eldast er vægast sagt frábær.
Ég var einnig með kartöflur með matnum. Nokkrar stórar ílangar kartöflur voru skornar í báta, penslaðar með olíu, saltaðar og pipraðar og rósmaríni stráð yfir. Þetta var svo bakað í fimm korter eða svo þangað til að þær voru orðnar gullbrúnar og karmelliseraðar.
Með matnum drukkum við að sjálfsögðu prýðis rauðvín. Labrourie Roi Pinot Noir sem er milt og gott franskt rauðvín, ljóst á litin en bragðið er meira en liturinn gaf til kynna. Mildur ávaxtakeimur, ferskt en ekki svo langt eftirbragð. Fín gæði miðað við verðið.
No comments:
Post a Comment