Þetta er búið að vera ein lengsta pásan á vefnum mínum. Ætli maður geti ekki kennt fjármálaástandinu um það líka, maður er búinn að vera sveittur að lesa gengisvísitölur og greiningar á þessu öllu. Það má eiginlega kenna því um allt sem útaf hefur farið. Og fari það ástand til fjandans...fari þetta í kjallarann á helvíti...helst á hæðina fyrir neðan. Það er búið að vera skelfilegt að fylgjast með þessu héðan að utan. Þessi krísa hefur áhrif á marga. Nær flesta sem maður þekkir. Það hefur ekki verið auðvelt að flytjast utan á þessum óróatímum...en kannski auðveldara en að vera á Íslandi þennan tíma. Við erum stanslaust á netinu að fylgjast með. Ísland og Íslendingar eiga hug okkar allan!
Þessi vefur hefur aldrei um dægurmál - nema það sem kraumar á hlóðnum en núna er manni svo fullkomlega nóg boðið! Núna verður sjálfsögðu að hafa hendur í hári þeirra sem hafa komið okkur á þessa braut. Bankamönnunum sem offjárfestu sig (okkur) fram á hengibrún - með snöru um hálsinn og reipið rígbundið, yfirvaldin/eftirlitinu sem lítið gerði til að hafa hemil á stjórnlausri græðgi nýríkra íslendinga og svo kannski okkur sjálfum - sem kannski hvöttu þessa andskota áfram - útrásarvíkingarnir að gera strandhögg á ókunnum slóðum. Við vorum stolt...í smá stund...svo öfunduðum við þá yfir velgengi þeirra...svo kannski glottandi yfir fallinu, smá þórðargleði í bland, en svo núna grátandi af því við höngum í sömu snöru. Hvað er ég að babbla - þetta er matarblogg. Nóg um þetta í bili - um fjármál má lesa á öðrum þráðum.
Við þessar aðstæður verður að herða sultarólina. Það þýðir lítið annað. Það verður að endurskipuleggja lífið...alveg niður í smáatriði. Mat er erfitt að kalla smáatriði og á þessum síðustu og verstu tímum eru það okkar helstu sóknarfæri í að spara - að minnsta kosti svona hvunndags. Við sem erum hérna úti og höfum verið að nota íslenskar krónur höfum þurft að endurskoða okkar neysluvenjur ansi dramatískt. Núna er pása á fois gras og dýru rauðvíni - þó gott sé og líka auðvitað eftirsjá. Núna þarf að hverfa aftur af grunnatriðum (basics) og gera það sem þarf. Og kannski þarf það ekkert að vera svo slæmt.
Gómsætur kreppumatur; Nokkrir déskoti góðir hvunndagsréttir svona...á þessum síðustu og verstu tímum!
Þið verðið að þola mér það að þessar máltíðir eru eldaðar í Svíþjóð. Ég held samt að það ætti að vera hægt að elda þetta hráefni á ódýran hátt heima...amk er þetta í ódýrari kantinum. Það vorum engar myndir teknar að þessu sinni. En þetta verður bara að vera texti.
Hakkbollur með brúnni sósu, sultu og rauðkáli
Þetta er auðvitað klassískur réttur. Engin leið til þess að eigna sér þennan rétt. Ýmislegt má þó breyta og bæta...það er alltaf pláss til þess. Hérna í Svíþjóð er geysilegt úrval af kjötbollum. Þeir elska kjötbollurnar sínar. Hér tekur það því varla að búa þetta til...en það er samt alltaf aðeins betra.
Nautahakk er sett í skál, smátt skorinn laukur, smátt skorinn hvítlaukur, blandaðar kryddjurtir (þar sem þetta er kreppublogg þá verð ég núna að segja þurrkaðar - hér eru ferskar kryddjurtir fremur ódýrar - sérstaklega flatlaufssteinselja 9 kr/kg) eins og steinselgja, oregano, timian. Muldar tvíbökur eða brauðmylsna er svo sett ofan í, nóg af salti og pipar og svo 1-2 egg til þess að binda þetta allt saman. Hnoðað vel og mótað í litla bolta. Steikt á pönnu þar til vel brúnt og svo má hella smá vatni á pönnuna og leyfa að krauma. Bollunarnar eru svo veiddar upp og lagðar í eldfast mót og inn í ofn. Vatni er bætt í soðið af bollunum, smá meiri krafti, soðið niður, kannski afgangur af matreiðslurjóma, smá sulta, saltað og piprað og kannski smávegis af því kryddi sem var notað í bollurnar og soðið niður. Þykkt með maisenamjöli (eða smjörbollu. Borið fram með sultu (hérna Lingon sylt), rauðkáli úr krukku (eða heimagert sem er einfalt mál en nokkuð tímafrekt). Mér finnst líka alltaf gott að bera fram steiktum rauðlauk, nokkur spæld egg. Núna er bara eiginlega kominn veisla - og það í miðri viku!
Þorskur með púrrulauksrjómasósu og hrísgrjónum
Við vorum nýlega hjá vinum okkar í Danmörku og þau leystu okkur út með þessum frábæra þorski. Mikið hvað við vorum þakklát...ekki bara fyrir að koma í heimsókn heldur að fá þennan frábæra íslenska fisk (fiskurinn hér í búðunum er hreinlega ekki upp á marga fiska!)
Fyrst steikti ég tvo smátt púrrulauka, einn venjulegan lauk í sneiðum og smátt skorinn hvítlauk í smá olíu. Þegar þetta var orðið mjúkt var þetta lagt til hliðar í skál á meðan fiskurinn var eldaður. Þorskurinn var skorin í bita og saltaður og pipraður og svo velt upp úr hveiti. Steikt á pönnu þar til hann fór að taka lit og þá var honum snúið. Eftir 2-3 mínútur var lauknum svo bætt á pönnuna og svo hálfum pela af matreiðslurjóma, salatað og piprað og leyft að sjóða í nokkrar mínútur þar til fiskurinn var eldaður í gegn.
Ofnbakaður fiskur með sýrðum rjóma og rauðlauk
Þessi er líka eins einföld og hugsast getur. Ekkert svo ólík þessari að ofan en samt...þessi er í ofni. Hvítur fiskur - þorskur í mínu tilfelli - er saltaður og pipraður og settur í eldfast mót. Ferskum sítrónusafa er dreift yfir og svo einni dós af 10% sýrðum rjóma. Þá er 1 rauðlaukur skorinn í næfurþunnar sneiðar og steiktur þar til hann er mjúkur. Þá er 1 msk af hunangi sett saman við laukinn og honum velt upp út því á pönnunni. Lauknum er svo dreift yfir fiskinn og þetta er svo bakað í ofni í 20 mínútur við 200 gráður (eða þar til fiskurinn er eldaður). Borinn fram með hrísgrjónum og einföldu salati.
Kjúklingabringur með sveppasósu og hvítlaukssteiktum gulrótum
Hér í Svíþjóð er kjúklingur það ódýrasta sem maður kaupir. Meira segja góðu kjúklingarnir eru ódýrir. Það er ein leið á Fróni til þess að fá ódýrar kjúklingabringur og það er að kaupa heila kjúklinga - ferska - og verka þá heima, sem er ekkert mál að gera. Svo má geyma leggina, upplærin í frábæran pottrétt, vængina á grillið og svo beinin í soð. Alltaf að græða. Ef maður nennir þessu ekki þá er hægt að fá fremur ódýrar frosnar bringur heima. Hvað um það. Þessar bringur voru keyptar frystar og leyft að þiðna í ísskáp. Þá voru þær penslaðar með olíu, saltaðar og pipraðar og steiktar að utan. Því næst sett í eldfast mót og bakaðar við 180 gráður þar til kjarnhiti verður 82 gráður.
Á meðan er sósan undirbúinn, smátt skorinn laukur og hvítlaukur er steiktur í olíu á pönnu og þá er sveppum í sneiðum bætt á pönnuna og steiktir til að þeir taka gullinn lit. Þá er skvetta af hvítvíni (auðvitað úr belju) sett á pönnuna, vatn, kjúklingakraftur, 2 msk af tómatpúre, smá vegis af matreiðslurjóma, saltað og piprað og leyft að sjóða niður. Þykkja má sósuna með smávegis af maísmjöli ef hún er ekki orðin nógu og þykk.
Þá er það meðlætið. Gulrætur kosta 3 kr/kg á haustin hérna í Svíþjóð - næstum gefins. Gulræturnar eru flysjaðar og skornar í munnbitastórabita. Þeim er hent ofan í sjóðandi vatn í nokkrar mínutur og svo teknar úr vatninu og skellt á pönnu með hvítlauksolíu. Saltað og piprað og steikt þar til mjúkt. Gulræturnar sjúga í sig olíuna og verða alveg frábærar.
Makkarónur með osti
Þetta er nú eiginlega sáluhjálpandi matur eins og hann gerist bestur. Hann er samt djöfull
No comments:
Post a Comment