Wednesday, 2 July 2008

Jurtalegnar kindalundir með fylltum papríkum, nýju salati og sætkartöfluböku

papríkur Þessi réttur var eldaður þegar við komum heim frá San Francisco fyrir að verða tveimur vikum síðan. Eins og kom fram þá höfðum við hjónin verið þar á ferðinni. Eins og það er frábært að fara til útlanda þá er alltaf gott að koma heim. Sérstaklega þegar grísirnir manns taka svona vel á móti manni. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar tóku börnin að sér á meðan við vorum í burtu og við ákváðum því að elda eitthvað gott handa þeim í þakklætisskyni. Þetta var yndislegt sunnudagskvöld, grillað á svölunum í glampandi sólskini.

Mamma hefur mikið dálæti á lambakjöti. Það eru fáir á Íslandi sem munu syngja kindunum kvæði eins og hún móðir mín. Eins og fram hefur komið á blogginu þá er líka lambalæri að hætti móður minnar minn uppáhaldsmatur. Við höfum líka reynt að elda lambakjöt á eins fjölbreytilegan hátt og hægt er - samt er það klassíska alltaf best. Rétt svipaðan þessum höfum við eldað oft áður, sérstaklega þegar við erum upp í sumarbústað. Það er mjög oft lamb á grillinu hjá okkur þar. Enda verður að segjast að mamma veit hvað hún er að tala um - lambakjöt er einfaldlega eitt af því besta hráefni sem okkur stendur til boða.

Eins og ég sagði áðan þá var var sól úti. Íslenskt sumar eins og það gerist best. Þá er lítið annað að gera heldur en að grilla. Það deila víst margir þessari skoðun. Það er bara svo gaman að grilla. 

Jurtalegnar kindalundir með fylltum paprikum, nýju salati og sætkartöfluböku

kjöt í marineringu 1700 gr af kindalundum eru lagaðir í skál. 50 ml af góðri jómfrúarolíu, 8 smátt söxuðum hvítauksrifjum, 5 greinum af majoram laufum, 3 greinar af rósmarín laufum, 3 msk af steinelju og nóg af salti og pipar. Látið liggja svona eins lengi og hægt er - best væri að láta þetta marinerast í sólarhring - en maður er ekki alltaf svo forsjáll. Þetta verður ljúffengt sama hvað marineringartímanum líður. Mikilvægt er að elda ekki lambið of lengi. Grilla það bara í nokkrar mínútur þar til að það verður medium rare - taka það svo af grillinu og láta það hvílast í 10 mínútur undir álpappír -  rétt til að kjötið jafni sig - safinn úr því dreifi sér aftur jafn um kjötið og renni ekki allur út þegar það er skorið.

Með matnum var einföld sósa. Ég er oft með svona sósur - og hef bloggað um þær oft áður. 2 smátt skornar og flysjaðar gulrætur, einn niðurskorin laukur, 2 niðurskornar sellerísstangir, nokkur smátt skorinn hvítlauksrif eru steikt við lágan hita í jómfrúarolíu í 10 mínútur þar grænmetið verður mjúkt og glansandi. Mikilvægt er að salta og pipra á þessum tímapúnkti til að ná bragðinu úr grænmetinu. Þá er um líter af vatni bætt saman við og viðeigandi magni af góðum lambakrafti. Soðið í klukkustund. Þarna er oft ágætt að bæta við þeim kryddjurtum sem er ríkjandi í marineringunni og geta þolað suðu eins og rósmarín og timian - steinselja og basil þola síður mikla suðu og ekki gott saetkartoflubaka.jpg að bæta þeim út í á þessum tímápunkti. Þá er sósan síuð og sett í könnu. Í sama potti er smjörbolla útbúinn, 30 gr af smjör og smávegis af hveiti er hrært saman og soðinu svo varlega blandað saman við aftur. Hrært vandlega. Núna þarf að djassa sósuna til með því sem við á - smá rauðvín, sulta, ostur, salt og pipar...bara tóna þetta fram og tilbaka þar til að bragðið verður eins og þú vilt. Alltaf er hægt að leiðrétta klúður með smá vegis af rjóma. Ef sósan verður of sölt má td. setja nokkrar sneiðar af kartöflu útí til að sanka saltinu til sín - þær eru svo veiddar úr áður en sósan er borin fram. Stundum hakka ég grænmetið úr soðinu sem ég hafði síað frá með töfrasprota og bæti svo matskeið af því saman við til að fá meiri dýpt í sósuna - bara eftir stemmingunni.

Sæt kartöflubakan var einföld. Um kíló af sætum kartöflum voru flysjaðar og soðnar í 15 mínútur í söltuðu vatni. Þá er vatninu hellt af og þær stappaðar saman með klípu af smjöri, smá rjómaosti og salti og pipar. Skreytt með rósmaríni eins og sést á myndinni og parmesanosti sáldrað yfir. Bakað í 20-30 mínútur. Bakan verður sæt og ljúffeng.

Marglitar paprikur eru toppskornar og kjarnhreinsaðar. Einn laukur, ein sellerísstöng, nokkur hvítlauksrif, 7 sneiðar af smátt skornu beikoni eru steiktar á pönnu í smá jómfrúarolíu. Eftir nokkrar mínútur er afgangsostum bætt saman við, smávegis rjómaostur, smá camenbert...bara það sem er til í ísskápnum. Saltað og piprað. Brauðmylsnu bætt saman við til að binda saman blönduna. Toppurinn sem var skorinn af paprikunum var skorinn smátt niður og bætt í fyllinguna. Ferskum kryddjurtum eins og steinselju og ljuffengt_salat.jpg basil er svo hrært saman við fyllinguna. Paprikurnar eru svo fylltar með þessari blöndu. Smávegis af parmesanosti er svo sáldrað yfir , síðan smá jómfrúarolíu, og svo er paprikunum raðað á grillbakka og svo grillað í 20-30 mínútur þar til osturinn er bráðinn og paprikurnar farnar að sverta á hliðinum.

Salatið var ljúffengt. Blandað grænt salat var lagt á disk, nokkrar niðurskornar radísur, 2 niðurskornar appelsínur og svo muldum fetaosti dreift yfir.

Borið fram með Masi Costasera Amarone Classico frá því 2004 rauðvín, sem ég keypti í tollinum á leiðinni til landsins, fyrir þá sem kunnu að meta rauðvín og svo var hvítvínsdreitill fyrir tengdamúttu sem mest fyrir hvítvín eða rósavín.  Rauðvínið var ljúffengt, þykkt á litinn og á bragðið og minnir á dökk ber. Vín í dýrari kantinum en maður notar tækifærið þegar ég er á ferðinni í gengum tollinn.  Hún fékk Rosemount Chardonnay hunter valley estate frá 2005, þetta er ástralskt hvítvín, þurrt en ávaxtaríkt, smjörkennt og frískandi. Vín í þessum flokki fá um 90 púnta frá Wine spectator.

tilbuinn_malti_589769.jpg

 


No comments:

Post a Comment