Thursday, 12 June 2008

Grillaður lax með teriyaki, chillisósu og sesam með hrísgrjónasalati ognýju salati


Ég var ásamt mörgum kollegum á lyflæknaþingi á Selfossi um helgina. Þar var mikil og góð stemming. Ráðstefnan var skipulögð var fyrirtæki Birnu Þórðardóttur - Menningarfylgd og heppnaðist afar vel. Þar voru góðir fyrirlestrar, mikið kynnt af nýlegum rannsóknarverkefnum og svo var félagslífið vel heppnað. Það er geysimikil vægt fyrir stétt á landi norður í ballarhafi að rútta sér saman af og til og ræða um gang mála. Kollegar voru á einu máli að þingið hafi verið success.

Maður var ansi lúinn eftir þingið. Sinnti bæði fræðastarfi og félagsstarfi af miklu kappi og var því að gera eitthvað til að lyfta mér upp. Í flóði fregna um slæmt gengi í hagkerfinu, lánamarkaði, verði á bensíni og allri þessari bölsýni þá lék veðrið samt við okkur í gærkvöldi. Hlýtt, glampandi sól, grænt á trjánum, hitinn frá grillinu á svölunum. Fátt er betra. Eftir þétta ráðstefnu með tilheyrandi matarræði bæði á föstu og fljótandi var rétt að vera með fæðu sem hreinsaði mann aðeins að innan. Lax gerir slíkt, sömuleiðis hrísgrjónasalat og þá hreinsar kannski mest salat með ávöxtum og gulum baunum.


Grillaður lax með teriyaki, chillisósu og sesam með hrísgrjónasalati og nýju salati

800 gr stykki af lax var settur á álþynnu, botninn fyrst penslaður með smá olíu, salti og pipar og svo var flakið lagt yfir. 4 msk af góðri teriyaki sósu var smurt yfir ásamt 2 msk af heitri chillisósu. Þá var sesamfræjum sáldrað yfir. Þetta var svo bakað á funheitu grilli í um 20 mínútur þar til fiskurinn var eldaður í gegn. Af og til á meðan eldun stóð yfir var sósunni sem rann af fisknum skóflað upp með skeið og dreift yfir laxinn á nýjan leik. Þá var handfylli af ferskum kóríander sáldrað yfir og maturinn borin fram.


Hrísgrjónasalatið var ekkert ólíkt því sem ég hef gert áður. Þessi hluti er eiginlega klón af færslu sem ég var með fyrir nokkrum vikum síðan;

Hrísgrjónasalatið var eins einfalt of hugsast getur (ég er alltaf með svona frasa en þetta er satt). Ég með algera dellu fyrir hrísgrjónasalötum. Þau eru bragðgóð, létt, ljúffeng og mjög fyllandi meðlæti sem passaði vel núna þar sem ég var að metta marga munna en ekki með svo mikið af kjöti. Fyrst voru tveir bollar af jasmín hrísgrjónum soðin skv leiðbeiningum. Það fékk svo að kólna aðeins á meðan grænmetið var undirbúið. Þá var gulrót, sellerístöng, laukur og hvítlaukur skorinn smátt niður ásamt nokkrum sveppum sem ég átti afgangs og steikt á pönnu þar til mjúkt í smávegis af grænmetisolíu. Þá var chilli, nokkrum niðurskornum sveppum, hálfum niðurskornum kúrbít bætt við á pönnuna. Þetta er svo steikt í nokkrar mínútur. Þá er hrísgrjónunum bætt saman við og þeim velt saman við grænmetið. Steikt í smá stund þar til þetta hefur blandast vel og þá er tveimur eggjum bætt við salatið. Blandað vel saman - eggin kekkjast fljótlega. Þá er einhverjum góðum bragðefnum bætt við - t.d soya sósu, teriyaki, 
kannski smá chillisósu, saltað og piprað og jafnvel smá sykri.

Salatið var hins vegar aðeins nýtt á nálinni. Ég átti afgang af plómum frá því á fimmtudaginn var þegar ég var með kollega minn í mat og fannst gráupplagt að nota það í salat. Fátt sumarlegra enda glampandi sólskin á svölunum þegar þetta var eldað.
Græn blönduð lauf, ein gul paprika skorinn í grófa bita, ein plóma skorinn í bita var dreift yfir laufin. Þá voru þrjár radísur skornar niður og sáldrað yfir. Ég tók 2 maísstöngla og grillaði í 20 mínútur í álpappír. Þá var kornið skorið af og dreift yfir salatið. Skreytt með smá smátt skornum graslauk. Salatið var skerpt með smá skvettu af olíu og sítrónusafa.

Með matnum var borið fram smávegis hvítvínstár. Castillo di Molina Chardonnay frá því 2006. Þetta er prýðisgott létt hvítvín með talsverðum ávexti. Ég hafði keypt tvær flsökur fyrir helgi af þessu víni og átti eina í afgang - svo það má náttla ekki skemmast! Vínið fær ágæta einkunn í Wine spectator - um 86%. Mér fannst vínið sóma sér betur með þessari máltíð - hvaða skýring veit ég ekki - kannski var einhver þorsti eftir krappa helgi. 

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment