Kominn heim. Ekkert er betra! Þó að það sé gott að vera í héraði þá er alltaf gott að koma heim. Ég umgengst fjölskylduna mína mikið, þeas foreldra mína og bróður, þannig að ég brá á þann leik að bjóða þeim í mat í kvöld. Mikið var gott að sjá þau aftur. Eftir svona matarveislu eins og páskarnir eru búnir að vera þá er gott að elda eitthvað annað en kjöt. Ég ákvað að elda fiskrétt.
Það var fallegt á heimleiðinni. Það var sól yfir Vopnafjarðarheiðinni og ökuferðin var ljúf. Dóttir mín spurði reglulega hversu langt væri á leiðarenda og ég var að reyna að útskýra fyrir henni hversu oft sem hún spyrði myndi litlu breyta um úrslitin. 140 km voru til Egilstaðarflugvallar sama hvað tautaði og raulaði. Það breytti þó ekki áhuga hennar um að spyrja.
Það er langt síðan að ég eldaði smálúðu - það verður að teljast í árum síðan að ég gerði þetta síðast. Ég fór í Fiskisögu í dag eftir að ég var búinn að spila skvass við Pál Pálsson, kollega minn. Ég ætlaði að kaupa þverskorna lúðusteik eins og ég gerði um daginn en lúðan sem í boði var var heldur gróf að sjá og þeir í búðinni mæltu heldur með smálúðunni sem ég og keypti. Og ekki var ég svikinn af því. Þeir mega eiga það herramennirnir sem afgreiða í Fiskisögu á höfðanum að þeir veita góða manni góða þjónustu.
Stórkostleg ofnbökuð smálúða með aspassalati og hrísgrjónum.
Einhver á eftir að andvarpa, vegna rjómaostsins, en það var ekki notað mikið og þetta deildist niður á sjö smálúðuflök - þannig að þetta var fremur léttur matur. Aspassalatið var ekki bara fallegt að horfa á heldur líka sérstaklega bragðgott. Seinnipartur mars og apríl er aðaltíminn fyrir aspas, þannig að hann ætti að vera góður núna - sá sem ég keypti í gær var góður en andskoti dýr. Fimm hundruð kall fyrir nokkra stöngla af aspas.
Lagði álpappír á ofnplötur. Setti smávegis af jómfrúarolíu á botninn og dreifði henni með pennsli. Saltaði og pipraði og lagði svo smálúðuflökin fremur þétt saman á plötuna. Næst skar ég niður 2 skarlottulauka, 4 hvítlauksrif og heilan kjarnhreinsaðan rauðan chilli fremur smátt og steikti upp úr 1 msk af jómfrúarolíu, steikti þetta við fremur lágan hita í nokkrar mínútur - þannig verður laukurinn og chilliinn sætur og góður. Því næst setti ég eina dós af hreinni jógúrt, einni dós af 5% sýrðum rjóma og svo hálfa öskju af rjómaosti með svörtum pipar. Saltaði og pipraði og setti síðan 2 teskeiðar af sykri saman við. Látið malla í smá stund. Þessari sósu var svo dreift yfir fiskinn ásamt smávegis af kapers. Rétturinn var svo bakaður við 200 gráður í 12 mínútur. Perfect. Nokkrum kóríanderlaufum var í lokið sáldrað yfir matinn rétt áður en hann var borin fram.
Með matnum var einfalt salat. Fyrst tók ég aspasinn og braut hann þannig að trénaði hlutinn var tekin frá. Saxaði 2 hvítlauksrif og hálfan skarlottulauk sem ég svo steikti í smávegis af jómfrúarolíu. Aspasinn var svo lagður á pönnuna í nokkrar mínútur. Saltað og piprað. Klettasalat var sett á disk, 1 púrrulaukur var saxaður gróft niður og svo var aspasnum raðað yfir eins og myndinn sýnir. Í lokin var parmesanostur rifinn yfir og nokkrum vínberjum dreift yfir salatið.
Borið fram með hrísgrjónum og baguette. Með matnum var drukkið afar gott hvítvín frá Wolf Blass. Presidents Selection Chardonnay frá því 2006. Við vorum sammála um þetta var einstaklega hentugt vín með þessum mat. Ég drakk sama vín fyrir viku síðan og fannst það passa betur með þessum mat en laxinum sem ég gerði fyrir viku. Þetta vín er frískandi og með talsverðu ávaxtabragði og smávegis eik. Ég naut vínsins sérstaklega vel með þessari máltíð.
No comments:
Post a Comment