Wednesday, 13 February 2008

Ljómandi lambaribeye með spínatkartöflumús og kryddolíu

Valdís Eins og kom fram í fyrri færslu var ég á vakt þessa helgi. Kollegi minn, Guðný Stella, gerði mér greiða og kom aðeins fyrr á kvöldvaktina þannig að ég gat komist heim og verið með fjölskyldunni. Ég kom heim um áttaleytið í kvöld, en þá var Villi litli sofnaður, en Valdís dóttir mín var í fullu fjöri og hjálpaði mér í eldhúsinu...hún á eftir að verða frábær kokkur.

Þetta var máltíð sem var svona samsuða af gömlum hugmyndum við nýjar. Ég er búinn að vera að skoða Prima Vera bókina sem kom út fyrir nokkrum árum síðan og þar rak ég augun í hugmynd um kryddolíu með mörðu majoram og jómfrúarolíu sem bar nafnið san moriglio - hljómar vel. Ég átti því miður ekki majoram, heldur einungis salvíu, rósmarín og steinselju - allt jurtir sem passa vel með lambakjöti. Valdís var áhugasöm við að hjálpa og var iðin við að merja jurtirnar í mortélinu - hún var geysilega stolt sérstaklega vegna þess hversu góð henni fannst kryddolían.

Ég hef einhvern tíma áður sett inn uppskrift af svona spínatkartöflumús. Þetta er ákaflega einföld uppskrift. Ekkert ólíkt öllum öðrum kartöflumúsuppskriftum nema hvað þeytt með smá spínati - við það fær músin fallega lit og bragðið verður afar ljúffengt.

Ljómandi gott lambaribeye með spínatkartöflumús og kryddolíu

Kryddolía Snædís keypti lambaribeye í dag, rúmlega 400 gr. Kjötið var borið smávegis af olíu, saltað og piprað og steikt upp úr 10 gr af smjöri og ca. 1 msk af jómfrúarolíu á hverri hlið þar til það var orðið fallega brúnað og karmelliserað að utan. Þá var það sett í eldfast mót og sett í forhitaðan ofn 180 gráðu heitan, og bakað í 10 mínútur eða þar til kjarnhiti var um 65 gráður.

Kartöflumúsin var líka fremur einföld. 6 stórar kartöflur voru soðnar eins og lög gera ráð fyrir. Svo flysjaðar og síðan stappaðar. Á meðan þær voru ennþá rjúkandi heitar var 100 gr af spínati bætt útí, 10 gr af smjöri, 1 msk rjómaostur, salt og pipar, smávegis sletta af mjólk og svo var þessu hrært vandlega saman. Spínatið mýkist fljótt og brotnar niður og músin fær á sig mildan grænan lit - mjög mildan.

Eins og sagði áður var dóttir mín á fullu. Mortélið var fyllt með laufum af 1 grein af rósmaríni, handfylli af salvíu og svo handfylli af steinselju. Maldon salti stráð yfir, 1 hvítlauksrifi, safa úr einu lime og svo ca 40 ml af jómfrúarolíu. Svo var þetta marið saman þannig að úr varð fíntgerð olía með smáum mörðum kryddjurtum. Ilmurinn var dásamlegur.

Borið fram með góðu rauðvíni yfir kertaljósi. Ekkert ljúfara! lambaribeye

 


No comments:

Post a Comment