Thursday, 28 February 2008

Knassandi andabringur með andaconfit, seljurótarmauki og rabbabarasultuðum kartöflum

flambering Þetta var með eindæmum frábær helgi. Var í fríi í fyrsta sinn í þrjár helgar - afmælisdagurinn lenti á helginni eins og kom fram í síðustu færslu og því voru öll tækifæri notuð til að elda góðan mat í eldhúsinu. Ég fékk góða gesti í mat eins og oft áður. Þetta kvöld komu Börkur og Hjördís konan hans og svo Vigdís Hrefna og maðurinn hennar Örn Úlfar, en er alltaf kallaður Bassi. Það var notalegt að setjast saman yfir veisluborði og spjalla um daginn og veginn. Góður matur, rauðvínsopi, góð tónlist og góður félagsskapur - verður þetta eitthvað betra?

Ég hef áður sett inn andaruppskrift á netið. Í þetta sinn var þetta heldur meira sérstakt en oft áður þar sem ég var að hantéra villibráð sem ég skaut sjálfur rétt fyrir utan Selfoss seint síðastliðið haust. Um var að ræða tvo fallega stokkandarsteggi sem ég náði meðan ég var að þræða lækjarsprænur í landi þar sem ég leigi skika.

Ég ákvað að nota hvert tangur og tetur af fuglunum. Fyrst í stað ætlaði ég að heilsteikja öndina en svo rifjaðist upp fyrir mér máltíð sem ég fékk á Vox hér um árið. Það var andaconfit með Jakobsen öli - ansi gott nefnilega. Ég ákvað því að hluta fuglinn niður. Bringurnar voru í aðalhlutverki, vængir og leggir í confit og svo var beinagrindin notuð í sósuna. Mikið stúss - mjög gott!

confit

Knassandi andabringur með andaconfit, seljurótarmauki og rabbabarasultuðum kartöflum

Eins og fyrr sagði var fuglinn hlutaður vandlega niður og allt nýtilegt var notað. Rétt er að segja frá sósunni fyrst og svo confitinu en því byrjaði ég á. Sósan var einföld soðsósa sem ég hef oft bloggað um áður. Tvær sellerístangir, tvær gulrætur, 3 grannir skarlotulaukar, 4 hvítlauksrif voru flysjuð og skorin fremur smátt niður og steikt í smávegis af smjöri og olíu í stórum potti. Grænmetið var látið svitna "sauté'ed" (að láta svitna - hljómar alveg skelfilega). Þegar grænmetið var orðið mjúkt og glansandi voru tvær beingrindur settar ofan í pottinn og brúnaðar að utan. Saltað vel og piprað. 3 lárviðarlaufum bætt saman við og svo var þremur lítrum af vatni bætt saman við og suðunni leyft að koma upp. Froðunni sem varð til við suðuna var skafin af og hennt. Lokið var sett þétt á pottinn og sósunni leyft að sjóða í 2 klukkustundir. Þá var soðið síað í annan pott og soðið niður þar til að tæplega líter var eftir. Soðið var smakkað til og saltað og piprað eftir smekk. Svo var búið til roux í öðrum potti - smjörbolla - 40 gr af smjöri og álíka mikið af hveiti og þetta hrært saman yfir meðalhita. Soðinu er svo hellt varlega saman við þar til að sósan er orðin þykkari og glansandi. Sósan var kraftmikil og bragðgóð - setti smávegis af rifsberjasultu til að fá fram smávegis sætu. Látið malla í smástund áfram á meðan annar matur kláraðist.

andabringur Confitið var í raun eins einfald og hugsast væri. En óhollt er það. 150 gr af smjöri var leyst upp í málmfati. Svo var andaleggjunum, vængjunum og öllu öðru kjöti sem féll af fuglinum bætt saman við og svo var einni flösku af dökku Jakobsen öli bætt saman úti. Þetta var svo sett inn í ofn og bakað við lágan hita 120 gráður í rúmar 3 klukkustundir. Í lokin var kjötið veitt úr - allt kjötið pillað af beinunum og sett á pönnu með smávegis af safanum og steikt í 1 mínútu með smávegis steinselju. Raðað á matskeiðar sem var svo raðað á diskinn á beði af seljurótarmauki.

Seljurótarmaukið var gert þannig að 1200 gr af seljurót er flysjað og skorið í munnbitastóra bita og soðið í söltuðu vatni í 20 mínútur eða þar til auðvelt er að sting hvössum hníf í gegnum bitana. Þá er vatninu hellt frá og seljurótarbitarnir færðir aftur í pottinn, 70 ml af matreiðslurjóma er hellt saman við, 1 msk af rjómaosti, 15 gr af smjöri, 2 mörðum hvítlauksrifjum, salti og pipar, og smávegis af nýmjólk. Þetta var svo "þeytt" saman með töfrasprota þar til það varð að kremuðu (puree'd) blöndu.

andabringur 2 Rabbabarasultuðu kartöflurnar voru líka einfaldar. Rúmlega 1 kg af kartöflum voru flysjaðar og skornar í grannar sneiðar. 50 gr af smjöri var hitað í pönnu og 100 ml af góðri rabbabarasulti bætt saman við og hrært vel saman. Lauf af nokkrum greinum af timian var bætt saman við og var þessari blöndu hrært saman við kartöflurnar í eldföstu móti. Saltað og piprað og svo bakað við 180 gráður í rúmlega þrjú korter eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.

Andabringurnar voru mjög einfaldar í eldun. Saltaðar og pipraðar. Steiktar í smávegis af smjöri/olíu fyrst á hamnum og svo á kjöthliðinni - einungis steiktar í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Smávegis af koníaki er hellt á pönnuna og ef einhver er að horfa er flamberað. Þetta er svo fært í eldfast mót, vökvanum af pönnunni er hellt yfir bringurnar og þær svo settar í ofn sem er um 160 gráðu heitur og leyft að klára sig í 10-12 mínútur. Skorið í sneiðar og svo er matnum raðað á diska.

Borið fram með góðu víni. Bæði var drukkið Peter Lehmann GSM 2005 og svo Masi Campofiorin frá 2004. Bæði voru þetta afbragðs góð vín og pössuðu matnum vel. Sennilega hefði ég átt af halda mig við sömu tegundina með matnum, en fjandinn, það er bara svo gott að drekka góð vín með góðum mat.

Bon appetit.


Monday, 25 February 2008

Fylltur lambahryggur með kartöflugratíni og blómkálsmauki

hryggur6 Ég á afmæli um helgina - ég er að verða 32 ára gamall. Það verður að segjast að ég er einn af þeim sem fær áfall yfir vaxandi aldri. Pabbi sagði einhvern tíma að hann hefði verið í sjokki út af þrítugsafmælinu sínu alveg þangað til að hann varð 33 ára - þá hætti hann því en fór frekar að hafa áhyggjur af því hvað fertugsafmælið færðist nær og nær. Við feðgar erum svona katastrófistar þegar kemur að aldrinum.

Ég ákvað hins vegar fyrir helgina að halda ekki formlega upp á afmælið. Ákvað að sleppa kaffiboðinu og fá frekar góða vini í mat. Í gærkvöld kom æskuvinur minn, Sverrir Jan, og konan hans Bryndís í mat. Alltof langt síðan þau komu til okkar síðast. Við Sverrir höfum verið bestu vinir síðan að við vorum 5 ára. Við kynntumst í 5 ára bekk í Æfingaskólanum - sem núna heitir Háteigsskóli. Við gátum sko kjaftað saman - og gerum enn!

Sverrir og Bryndís eru miklir matgæðingar - Bryndís sér aðallega um eldamennskuna á heimili þeirra hjóna og gerir með bravör. Til dæmis hef ég snætt bestu salöt sem ég hef komið í kynni við við matborð á þeirra heimili - og ekki voru réttirnir verri sem salatið fylgdi. Ég ákvað að leggja mig allan fram við eldamennskuna. Þetta er í annað sinn sem ég geri þennan rétt. Af einhverri ástæðu ljáðist mér að setja þetta á netið í fyrra skiptið - en bæti úr því núna. Ég hef aldrei séð þetta gert á íslandi - eða í íslenskum matreiðslu bókum - ég rakst á þetta í breskum sjónvarpsþætti og fannst þetta eins falleg leið til að elda lambahrygg sem hugsast getur. Vona að þig séuð sammála.

hryggur Fylltur lambahryggur með kartöflugratíni og blómkálsmauki

 Fyrst er að úrbeina lambahrygginn. Það er í raun hið einfaldasta mál. Bara að muna að passa að skera ekki neitt af hamnum/fitunni - þannig verður auðveldara að loka hringnum. Myndirnar tala sína máli.

Fyllti hrygginn með döðlum, gráðaosti, steinselju, bláberjum, hvítlauk, salti og pipar. Svo var kjötinu rúllað upp. Notaði parmaskinku til að loka endunum til að fyllingin læki ekki út. Steikt á heitri pönnu í nokkrar mínútur og svo bakað í 180 gráðu heitum ofni þar til að kjarnhitinn náði 65 gráðum.

hryggur2 Sósan var í raun einföld. Tvær gulrætur, 1 stór hvítur laukur, 5 hvítlauksrif og svo tvær sellerísstangir voru skornar niður og steiktar í 10 mínútur í smávegis af olíu. Svo setti í beinin af hryggnum (sem höfðu verið grillaðar í ofni í nokkrar mínútur undir funheitu grilli) ofan í pottinn og bætti svo 3 lítrum af vatni saman við. Lokið var sett á og soðið í 2 klst - þannig er allt bragð kreist úr beinunum eins hægt er. Soðið er svo síað í annan pott og soðið niður um ca. helming í tæpan líter. Þá er roux útbúið (smjörbolla með 30 gr af smjöri og álíka mikið hveiti) blandað saman í potti, síðan er soðinu hellt varlega saman við. Sósan þykknar við þetta. Til að klára sósuna fóru ca. 50 ml af matreiðslurjóma, 30 gr af gráðaosti og tvær teskeiðar bláberjasultu og svo salt og pipar auðvitað.

hryggur3 Kartöflugratínið var hefðbundið. Rúmlega kíló af kartöflum voru flysjaðar og settar í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu. 100 ml matreiðslurjóma, 100 ml af mjólk og svo einn fjórði af Hrók osti sem ég fann inn í ísskáp var sett saman við. Smávegis af múskati var raspað saman við og svo var osti sáldrað yfir. Bakað í ofni í 45 mínútur.

Blómkálsmaukið var líka afar einfalt. 1 haus af blómkáli var soðin í söltuðu vatni. Þegar það var orðið mjúkt var vatninu hellt frá og það maukað með töfrasporta. Smávegis af mjólk/matreiðslurjóma var hellt úti til að gera það þynnra. Saltað og piprað eftir smekk.

Með matnum var drukkið ljúffent vín frá Peter Lehmann GSM sem passaði ljómandi vel með matnum.

 

hryggur5


Friday, 22 February 2008

Wokaður hlýri með þremur laukum og papríku á austurlenska vísu

Ég hef verið að reyna undanfarið að elda meiri fisk. Fiskur sem hráefni hefur verið vanræktur í mínu eldhúsi um alltof langt skeið og núna verður gerð bragarbót á því. Ég hef verið að lesa mér meira til um verkun og eldun fisks og er að koma mér í stuð hvað þetta varðar. Það eru nokkrar ansi góðar fiskverslanir í Reykjavík - fer stundum í Hafberg í Vogunum og svo hef ég einnig verslað í Fiskisögu uppi á Höfða (sem hentar vel þar sem það er við hliðina á Veggsport - þar sem ég skvassa). Þessar verslanir eiga það sammerkt að veita góða þjónustu og fína ráðgjöf. Vona eindregið að þeir haldi áfram að auka úrvalið í fiskborðinu - það er gaman að geta komist í hlýra, löngu, blálöngu og svo leiðis - fiskur er svo mikið meira en bara ýsan (sem er varla snædd á mínu heimili)

Ég ætlaði að taka myndir af matnum en myndavélin mín varð rafmagnslaus og ég átti ekki rafhlöður. Þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að maturinn hafi ekki bara verið góður helda líka einstaklega fallegur á að horfa.

Wokkaður hlýri með þremur laukum og papríku á austurlenska vísu

Keypti 700 gr af hlýra - hefði átt að kaupa meira (þar sem þetta varð svo gott). Maður þarf alltaf meira af fiski en af kjöti!. Hlýri er þéttur ennfremur bragðlítill fiskur en tekur með sér bragð réttarins vel. Ég skar hann í munnbitastóra bita. Saltaði þá og pipraði og dreifði smá sítrónusafa yfir. Maukaði 3 hvítlauksrif og svo ca 4 cm af engiferrót sem ég raspaði mjög fínt -- þetta steikti ég svo á funheitum wok í smá grænmetisolíu í eitt augnablik. Því næst skellti ég fisknum á og steikti í nokkrar mínútur - bætti safa af heilli sítrónu saman við. Þegar fiskurinn var nærri tilbúinn færði ég hann til hliðar í skál. Hitaði pönnuna áfram og skellti svo grænmetinu á wokinn - sem samanstóð af; tveimur meðalstórum vorlaukum sem var skorinn í sneiðar, heillri rauðri papriku í strimlum - einnig skar ég 2 litla skarlotulauka í þunnar sneiðar. Grænmetið var svo steikt á wokinum þar til það fór að mýkjast, við háan hita - mikilvægt er að hafa alltaf smá hreyfingu á pönnunni. Svo bætti ég fisknum, og öllum safanum með honum, aftur á wokinn, hellti síðan 20-30 ml af góðri soya sósu á pönnuna, 2 msk af hlynsírópi og síðast smá skvettu af sætu sherríi. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar.

 Borið fram á fallegum disk, með jasmín hrísgrjónum og einföldu salati. Við drukkum sæmilegt hvítvín með matnum. Lindemans Chardonnay - reyndar úr svona kassa - sem er ágætt svona á virkum degi þegar maður ætlar bara að fá sér smá tár með matnum.

 


Wednesday, 13 February 2008

Ljómandi lambaribeye með spínatkartöflumús og kryddolíu

Valdís Eins og kom fram í fyrri færslu var ég á vakt þessa helgi. Kollegi minn, Guðný Stella, gerði mér greiða og kom aðeins fyrr á kvöldvaktina þannig að ég gat komist heim og verið með fjölskyldunni. Ég kom heim um áttaleytið í kvöld, en þá var Villi litli sofnaður, en Valdís dóttir mín var í fullu fjöri og hjálpaði mér í eldhúsinu...hún á eftir að verða frábær kokkur.

Þetta var máltíð sem var svona samsuða af gömlum hugmyndum við nýjar. Ég er búinn að vera að skoða Prima Vera bókina sem kom út fyrir nokkrum árum síðan og þar rak ég augun í hugmynd um kryddolíu með mörðu majoram og jómfrúarolíu sem bar nafnið san moriglio - hljómar vel. Ég átti því miður ekki majoram, heldur einungis salvíu, rósmarín og steinselju - allt jurtir sem passa vel með lambakjöti. Valdís var áhugasöm við að hjálpa og var iðin við að merja jurtirnar í mortélinu - hún var geysilega stolt sérstaklega vegna þess hversu góð henni fannst kryddolían.

Ég hef einhvern tíma áður sett inn uppskrift af svona spínatkartöflumús. Þetta er ákaflega einföld uppskrift. Ekkert ólíkt öllum öðrum kartöflumúsuppskriftum nema hvað þeytt með smá spínati - við það fær músin fallega lit og bragðið verður afar ljúffengt.

Ljómandi gott lambaribeye með spínatkartöflumús og kryddolíu

Kryddolía Snædís keypti lambaribeye í dag, rúmlega 400 gr. Kjötið var borið smávegis af olíu, saltað og piprað og steikt upp úr 10 gr af smjöri og ca. 1 msk af jómfrúarolíu á hverri hlið þar til það var orðið fallega brúnað og karmelliserað að utan. Þá var það sett í eldfast mót og sett í forhitaðan ofn 180 gráðu heitan, og bakað í 10 mínútur eða þar til kjarnhiti var um 65 gráður.

Kartöflumúsin var líka fremur einföld. 6 stórar kartöflur voru soðnar eins og lög gera ráð fyrir. Svo flysjaðar og síðan stappaðar. Á meðan þær voru ennþá rjúkandi heitar var 100 gr af spínati bætt útí, 10 gr af smjöri, 1 msk rjómaostur, salt og pipar, smávegis sletta af mjólk og svo var þessu hrært vandlega saman. Spínatið mýkist fljótt og brotnar niður og músin fær á sig mildan grænan lit - mjög mildan.

Eins og sagði áður var dóttir mín á fullu. Mortélið var fyllt með laufum af 1 grein af rósmaríni, handfylli af salvíu og svo handfylli af steinselju. Maldon salti stráð yfir, 1 hvítlauksrifi, safa úr einu lime og svo ca 40 ml af jómfrúarolíu. Svo var þetta marið saman þannig að úr varð fíntgerð olía með smáum mörðum kryddjurtum. Ilmurinn var dásamlegur.

Borið fram með góðu rauðvíni yfir kertaljósi. Ekkert ljúfara! lambaribeye

 


Friday, 8 February 2008

Mögnuð lúðusteik með grænu salsa, kremaðri seljurót og hvítvínssteiktufennel





Ég er, eins og oft áður, búinn að vera á vöktum þessa viku. Þó nokkuð að gera - en samt svona ekkert úr hófi. Það eina neikvæða við að vera á vakt í vikutíma er fjarvist frá fjölskyldunni. Mér stóð til boða að skreppa á ágætan fund um kvöldmatarbil en ákvað að sleppa því og vera frekar heima. Ekki slæm ákvörðun því í ofanálag var algerlega fráleitt veður í dag. Þetta fer að verða að alvöru vetri ef fer sem horfir.

Ég er búinn að vera að lesa mikið um fiskuppskriftir síðustu vikur og geri ráð fyrir því að elda mikið fiskmeti næstu vikurnar. Hugmyndin af þessari máltíð er fengin úr mörgum áttum, bæði mat sem ég sá á veitingastað í London þar seinustu helgi, uppskriftum sem ég hef verið að lesa og nýlegum matreiðsluþætti Andreasar Viestad - New Scandinavian cooking- þetta var svona samantektar þáttur þar sem verið var að gera upp heila þáttaröð - synd að hafa ekki séð meira af þessu...frábærar hugmyndir!

Ég hef aldrei eldað lúðusteik eins og þessa áður. Lykilatriði er að passa að elda fiskinn ekki of lengi - lúða verður ferlega leiðinlegur matur ef því leyft að þorna upp. Ég verslaði lúðuna í fiskuversluninni Hafberg í Vogunum - frábær verslun. Hann var með borðið fullt af þessum glæsilegu stóru þverskornu lúðustykkjum. Fékk þar góð ráð frá afgreiðslumanninum um hvernig ég ætti að bera mig að við eldamennskuna.


Mögnuð lúðusteik með grænu salsa, kremaðri seljurót og hvítvínssteiktu fennel
Ég keypti 1200 gr af þverskorinni lúðusteik - heljarinnar fallegur biti - dreifði 2 msk af góðri jómfrúarolíu yfir fiskinn og svo safa úr einni sítrónu, pipar og svo smátt söxuðum berki af hálfri lime. Þessu var svo leyft að standa í ísskáp á meðan meðlætið er undirbúið. Þegar meðlætið var langt komið hitaði ég stóra grillpönnu og grillaði lúðuna á báðum hliðum í mínútu á hvorri hlið, rétt þannig grillrákir sáust á fisknum. Honum var síðan stungið inn í ofn og bakaður í 10 mínútur í forhituðum 180 gráðu heitum ofni - lúðan var eiginlega fullkomlega elduð þó að ég segi sjálfur frá.


1,6 kg af seljurót er flysjað og skorið í munnbitastóra bita og soðið í söltuðu vatni í 20 mínútur eða þar til auðvelt er að sting hvössum hníf í gegnum bitana. Þá er vatninu hellt frá og seljurótarbitarnir færðir aftur í pottinn, 100 ml af matreiðslurjóma er hellt saman við, 1 msk af rjómaosti, 15 gr af smjöri, 2 mörðum hvítlauksrifjum, salti og pipar, og smávegis af nýmjólk. Þetta var svo "þeytt" saman með töfrasprota þar til það varð að kremuðu (puree'd) blöndu.

2 meðalstórir fennelhausar eru þvegnir upp úr vatni og síðan skornir í hálfsentímetra þykkar sneiðar. Smávegis smjör/olía er hituð á pönnu og síðan er fennelinum raðað á pönnuna og steikt við miðlungsháan hita í 10 mínútur, fimm mínútur á hvorri hlið. Þá er 2 glösum af hvítvíni hellt á pönnuna og saltað og piprað. Soðið niður við lágan hita á meðan klárað er að elda matinn.


Með matnum var ég með útafbrigði af salsa verde - ástæðan fyrir því að hún er frábrugðin hefðbundnum uppskriftum var sú að ég setti of mikið af sinnepi og hvítlauk og hún varð allt of sterk og því varð ég að milda hana með smá sýrðum rjóma/matreiðslurjóma - þó ekki nema smávegis.

1/2 búnt af steinselju, 1/2 búnt af basil, 1 msk af capers, 2 hvítlauksrif (sennilega nóg að nota 1), 1 msk sinnep (sennilega nóg að nota 1/2 msk), safi úr hálfri sítrínu, salt, pipar, 70 ml af jómfrúarolíu. Til að ná jafnvægi var sett smá skvetta af hlynsírópi, 1 msk sýrður rjómi, 30 ml matreiðslurjómi og blandað vel saman. Látið standa í ísskáp í 1 klst - mikilvægt er að smakka til og tóna upp og niður eins og við á!

Borið fram með ágætu Chablis - Le Grand Pré frá 2006- frá Pierre André - gott vín en með stutt og fremur flötu eftirbragði - ég drakk nýverið Chablis sem ég bloggaði um sem sennilega hefði hentað matnum betur. En þetta var þrælgott saman.

Bon appetit.

Saturday, 2 February 2008

Vetrarpasta með ofnbökuðum sætum kartöflum með chilli og steiktum kjúkling

Við hjónin skruppum til London seinustu helgi. Þetta var gjöf til konunnar minnar um jólin. Þetta varð heljarinnar ævintýri. Lögðum af stað föstudagsmorguninn og lentum í ýmsum hremmingum. Lögðum af stað í ágætu veðri um morguninn - stilla og smávegis snjókoma. Þegar komið var að álverinu var eins og hefði verið keyrt á vegg. Við vorum það heppinn að keyra fyrir aftan rútubifreið (nei-langferðabíl) sem gat rutt leiðina. Seinna fyrir aftan snjóplóg sem kom okkur langleiðina. Það var svo blint að erfitt var að átta sig á því hvar við vorum stödd. Bílar lágu eins og hráviði á götunni og á öxl vegarins. Á endanum festumst við í förum plógsins og sátum pikkföst. Í eitt augnablik róaðist veðrið og þá kom á daginn að við vorum við hliðina á kaffitári. Þar fékk ég lánaða skóflu og reyndi að moka okkur út - það var til einskis - þegar hringinn var komið var eins og þegar maður hóf mokstur. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Við skildum bílinn eftir á brautinni og húkkuðum far niður á heilsugæslu og þaðan með jeppa á flugstöðina. Þar sátum við svo í 8 klst og biðum eftir fluginu. Allur matur kláraðist fljótt á business lounginum - maður varð að draga fram lífið á fljótandi fæði (sem var í raun það eina sem var gott við daginn).

Fórum út að borða í London, á franskan stað sem heitir Galvan de Luxe - algerlega frábær og svo einnig á River Cafe - ekki síðri. Fórum á Metamorphosis og horfðum á vini okkar slá í gegn. Þau hafa verið að fá frábæra dóma og hvetjum við alla til að skella sér til að sjá þessa einstöku sýningu.

Unglæknar hafa verið að berjast fyrir neyðarbílnum síðustu vikur. Þetta hafa verið mikil fundarhöld og bréfaskrif. Það er undarlegt að þegar maður eins og ég sem blaðra allan daginn verður þreyttur í munninum við að tala - og ég tala mikið að staðaldri!!! Vonum að þessi mál leysist farsællega.

Eftir svona viku langaði mig í svona "robust" máltíð. Mér datt þessi uppskrift eiginlega strax í hug.

Vetrarpasta með ofnbökuðum sætum kartöflum með chilli og steiktum kjúkling

Í fyrstu tók ég 2 meðalstórar sætar kartöflur og flysjaði og skar í bita, góðar munnbitastærðir, setti í skál. Þvínæst skar ég niður hálfan rauðan chilli, fjarlægði fræin og skar mjög smátt og setti með kartöflunum, svo 8 heil hvítlauksrif (fjarlægði pappírinn) og bætti þeim saman við. Svo hellti ég 3-4 msk af góðri jómfrúarolíu og blandaði þessu öllu vel saman. Þetta var svo bakað í 180 gráðu heitum ofni í ca 40 mínútur þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Muna endilega að hrista eldfasta mótið af og til svo að kartöflunar brenni ekki.

2 msk af góðri (heimagerðri) hvítlauksolíu er hitað á pönnu. 3 kjúklingabringur eru skornar niður í svipaða bita og kartöflurnar. Steiktar í olíunni. Þegar þær eru farnar að taka lit er nokkrum heilum sveppum bætt saman við - bara eins og maður vill. Glasi af rosemount hvítvíni var hellt á pönnuna og var soðið niður um helming. Þá var tveimur matskeiðum af rjómaosti með svörtum pipar og 2 msk af sýrðum rjóma (5%) og steikt áfram á meðalhita. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar - þegar hnífur rennur mjúklega í gegn - er þeim bætt á pönnuna. Þegar um 5 mínútur eru eftir af eldunartímanum er 1/3 búnti af ferskri steinselju og 1/3 búnti af fersku basil bætt saman við.

Gott pasta er soðið skv leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni. Þegar pastað er tilbúið er smávegis af vatninu bætt við kjúklinginn, kannski eins og 40 ml. Þá er vatninu hellt af pastanu og því hellt í stóra skál og svo öllu blandað saman. Þessu er öllu blandað vel saman, saltað og piprað og svo í lokin er ríkulegu magni af parmaosti raspað yfir.

Borið fram með heitu baguette og salati, með blönduðum grænum laufum, mozzarellaosti og kirsuberjatómötum með einfaldri vinagrettu með balsmaic ediki, jómfrúarolíu, salti og pipar.

Með matnum var ágæt Wolf Blass rauðvín, Cabernet-Shiraz - bragðmikið og með miklu berjabragði. Ágæt gæði fyrir verðið.