Thursday, 17 January 2008

Steiktur lax með þeyttu spínati og heitri balsamik vinagrettu

Ég gerðist nýverið áskrifandi af BBC Food, sjónvarpsstöð sem ég hef ekki horft á síðan ég var heima í fæðingarorlofi með syni mínum, honum Villa mínum. Þá sat ég stundum og las og horfði á matreiðsluþætti á sama tíma á meðan hann svaf ein af sínum mörgu lúrum. Ég kynntist mörgum uppskriftum á þeim tíma og hafði gaman að því að horfa á þessa þætti og fá góðar hugmyndir. Ég eignaðist fjölda bóka á þessum tíma frá þessum sjónvarpskokkum. Einn af þeim var frá Giorgio Locatelli. Frábær kokkur. Ég fékk bók hans Made in Italy á jólunum í fyrra og hef notið þess að lesa í gegnum hana. Hann hefur verið með sjónvarpsþætti undanfarið á BBC food - sem heita Giorgo and Tony. Þar sá ég uppskrift ekki ósvipaða þessari.

Það er í raun varla hægt að kalla þetta uppskrift. Hún byggir einfaldlega á því að notað sé gott og ferskt hráefni sem er eldað snögglega og borið fram fljótt eftir að maturinn er tilbúinn. Rétturinn er líka sérstaklega fallegur þegar búið er að raða honum á disk. Djúpi græni liturinn frá spínatinu, fallega bleika kjöt laxins og svo dökk balsamik vinagretta.

Steiktur lax með þeyttu spínat og heitri balsamik vinagrettu

Ég keypti stórt laxaflak fyrir fjölskylduna sem ég skar í fallega bita - þannig að hver biti var nóg fyrir einn. Stauk smávegis af olíu á hvern bita og saltaði svo með Maldon salti og pipraði með nýmöluðum pipar. Hita 20 gr af smjöri með smá olíu á pönnu og þegar hún var orðin heit, lagði ég laxinn á pönnuna með roðið niður. Mestur hluti af elduninni á laxinum verður áður en honum er snúið. Þannig verður roðið stökkt og bragðgott. Rétt áður laxinn er tilbúinn er bitanum snúið matreiðslan kláruð á innan við mínútum.

Vinagrettan; fyrst er einn skarlottulaukur skorinn smátt niður og steiktur í smá olíu með einu stóru hvítlauksrifi. Svo er 30 ml af góðu balsamik ediki, 4 msk jómfrúarolía, 30 ml af hvítvíni ásamt safa úr eini sítrónu bætt saman við. Nokkrum timianlaufum er bætt útí, saltað og piprað. Vinagrettan er svo soðin niður um helming þar til hún er þykk og gljáandi. Það þarf aðeins að smakka hana til til að fá gott jafnvægi í hana - þannig að það verður koma svona við eldavélina.

Spínatið var eins einfalt og hugsast getur. Smávegis smjörklípa (10g) og olía var hituð á pönnu og svo var heilum pakka af spínati - um 300 gr - skellt á pönnuna og hrært stöðugt þar til að spínatið hefur koðnað niður. Saltað og piprað. Spínatið verður eiginlega rjómakennt.

Raðað saman fallega á diskinn. Spínatið, svo laxinn með karmelliseraða roðið og svo er heitu vinagrettunni dreift í kring.

Borið fram með góðu hvívíni - Pouilly Fume. Bon appetit.


No comments:

Post a Comment